04.11.1981
Efri deild: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

60. mál, lyfsölulög

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég tala fyrir frv. til l. um breyt. á lyfsölulögum, nr. 30/1963. Þetta frv. felur í sér að Háskóla Íslands verði heimilt að reka lyfjaverslun.

Nú vill svo til að löggjafinn hefur í raun og veru þegar tekið vissa afstöðu í þessu máli með breyt. á háskólalögum árið 1978. Þegar Háskóli Íslands fór fram á að fá að reka lyfjabúð á grundvelli þeirra laga taldi ég mér ekki fært að veita Háskólanum það lyfsöluleyfi þar sem ákvæði í lyfsölulögum heimiluðu slíkt ekki. Það liggur hér fyrir hv. deild frv. til laga um lyfjadreifingu, þar sem gert er ráð fyrir að Háskóli Íslands fái leyfi til að reka lyfjaverslun. Það er viðamikið mál og tekur tíma að afgreiða það. Þess vegna ákvað ég að taka þetta frv. um breyt. á lyfsölulögum að því er varðar Háskóla Íslands út úr þannig að Alþingi gæti tekið afstöðu til þess sérstaklega.

Ég leyfi mér að fara fram á það við hv. deild, vegna þess hvernig á stendur í samningum Háskóla Íslands við eigendur eða forráðamenn Reykjavíkur Apóteks, að þetta litla frv., sem hér er lagt fram, verði afgreitt fyrir jól.

Það var 22. júlí s. l. sem rektor Háskóla Íslands átti viðræður við heilbr.- og trmrn. um útgáfu lyfsöluleyfis á nafn Háskóla Íslands. Þá fór ég fram á grg. um þau atriði sem Háskólinn telur að knýi á um útgáfu lyfsöluleyfisins og um lagaheimild að dómi Háskólans. Háskólinn sendi mér grg. dagsetta 5. ágúst 1981. Þar kemur m. a. fram eftirfarandi:

„Árum saman var vandkvæðum bundið að vista stúdenta til námsdvalar í lyfjabúð vegna tregðu sumra lyfsala að veita þeim viðtöku. Þessi vandi er nú leystur í bili, en verður leystur til frambúðar þegar ákvörðun verður tekin um kaup Reykjavíkur Apóteks til námsdvalar fyrir stúdenta.

Háskólaráð samþykkti nýlega að hefja kennslu til kandídatsprófs í lyfjafræði lyfsala. Undirbúningur þess máls krefst að vitað sé með vissu hvernig hægt verður að nota Reykjavíkur Apótek til starfsþjálfunar fyrir stúdenta.“

Tilvitnun lýkur í bréf Háskóla Íslands eða háskólarektors, dags. 5. ágúst 1981, og ætla ég ekki að lesa upp úr því frekar.

Til viðbótar þeim röksemdum, sem hér hafa verið nefndar, vil ég einnig nefna hina þriðju, sem sé þá, að með því að Háskólinn reki lyfjaverslun má ætla að heilbrigðisyfirvöld hafi betri aðgang að því að kynna sér á hverjum tíma rekstrarforsendur lyfjaverslunarinnar í landinu en verið hefur.

Frumvarpið er í raun og veru aðeins tvær efnisgreinar sem skýra sig sjálfar og ég tel ekki ástæðu til að fara nánar út í. Ég vænti þess, að hv. Alþingi geri sér ljóst hversu mikilvægt er fyrir Háskóla Íslands að fá þessa heimild, og fer fram á að hv. deildir Alþingis afgreiði málið helst fyrir n. k. áramót.

Ég legg til, herra forseti, að þessu frv. verði vísað til heilbr.- og trn. og 2. umr.