02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3549 í B-deild Alþingistíðinda. (3094)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vona að það sé rétt, að þessir ágætu menn séu framsóknarmenn. (Gripið fram í: Þú veist það vel.) Nei, ég veit það ekki. Ég hef satt að segja ekki talið umrædda aðila vera framsóknarmenn. Mér kæmi ekki á óvart þó að þeir væru sjálfstæðismenn, ég verð að segja eins og er, en ég hef ekki beðið um flokksskírteini, það vil ég upplýsa. (Gripið fram í: Hann gengur í flokkinn.) Það væri vonandi. Ég hef ekki spurt hann að því, en ég fagna hverjum góðum sjómanni sem gengur í Framsfl. Það má gjarnan berast út. En sem sagt, ég stóð fyrst og fremst upp til að vísa því á bug, að þarna hafi nokkur flokkssjónarmið ráðið. Það er alrangt og það eru brigsl sem hv. þm. ætti ekki að hafa hér í frammi.

Ég vil líka taka það fram, að ég er sannfærður um að sóknarþungi þessa nýja skips er ekkert eða litið meira en tveggja bátanna. Ég gæti trúað að þetta væri svona álíka. En ég sagði líka áðan að það var miðað við aðstæður og miðað við þá fjárfestingu, sem þarna var orðin, að ég fyrir mitt leyti taldi rétt að fallast á að hann fengi þetta skip fyrir Sæhrímni sem var 120 lesta bátur.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um það sem hv. 1. þm. Vestf. sagði áðan, en ég vil segja fyrir mitt leyti að ég tel ekki óeðlilegt að láta á það reyna, hvort Fiskveiðasjóður fellst á að lána út á viðkomandi skip. Hins vegar er Fiskveiðasjóður með reglur um aldur skipa sem hann víkur ekki frá og ég hef ekki óskað eftir að hann víki frá. Það kann í ýmsum tilfellum að vera eðlilegt að menn fái að flyt ja inn skip þó að það fari ekki í gegnum Fiskveiðasjóð, en að þetta sé lagt fyrir Fiskveiðasjóð og látið á það reyna. Út af því ákveðna máli, sem hv. 1. þm. Vestf. talaði um áðan, get ég upplýst að það mál var samþykkt í gær á fundi Fiskveiðasjóðs. (Viðskrh.: Hann veit það.) Hann veit það kannske. Já, það var samþykkt í gær, og ég tel það mjög gott mál. Þar er um endurnýjun á mjög gömlu skipi að ræða fyrir mílu nýrra skip, sem er meira að segja heldur minna að brúttórúmlestatölu, ef menn eru að bera slíkt saman, og mjög eðlilegt að stuðla að því að Fiskveiðasjóður fjalli um það mál.

Það, sem hv. þm. Magnús H. Magnússon sagði áðan, minnir mig á viðræður sem ég átti við nokkra Vestmanneyinga nýlega. Einn þeirra sagði að Vestmanneyingar væru ekkert of góðir til að sækja sjóinn á gömlu bátunum eins og þeir hafa gert í áratugi. Ég er þessu mjög ósammála. Ég held að t.d. þar eins og í fjölmörgum verstöðvum hér sunnanlands sé endurnýjunarþörfin ákaflega brýn, m.a. vegna sjómanna. Ég held að hún sé mjög brýn. Og ég vil leyfa mér að fullyrða um mörg þau eldri skip sem hafa komið inn, m.a. til Vestmannaeyja, að það sé veruleg framför að þeim skipum sem menn nota nú og sækja út á ystu brún. Ég tel að það sé lika öryggismál sjómanna að bátar séu endurnýjaðir og stækkaðir og vinnurými um borð bætt. Ég tel að það sé nauðsynlegt.