02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3551 í B-deild Alþingistíðinda. (3096)

Umræður utan dagskrár

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Þetta er ákaflega einkennilegt mál. Það kemur maður í sjútvrn. eða viðskrn. Viðskrn. virðist vera orðið hliðarráðuneyti við sjútvrn. hvað varðar fiskiskipakaup, og er aldeilis óeðlilegt að þau skuli vera í margra höndum. En þessi maður kemur í rn. og langar í skip og segist hafa átt tvo báta sem hafi annaðhvort sokkið eða farið í úreldingu. Svo kemur í ljós að hann átti hvorugan bátinn. Annan bátinn átti hann einhvern tíma áður, en annar aðili hafði eignast hann í milli. þannig að þegar hann gerir þetta á hann engan bát til að láta í staðinn. Hvað heitir þetta á íslensku? Þetta heita svik. Þetta eru svik við stjórnvöld. Maðurinn hefur sem sagt svikið sér út leyfi fyrir skipi. Því miður er það þannig. Þessu skipi ber þess vegna skilyrðislaust að skila aftur, enda er nóg af skipum nú í flotanum.

Við höfum verið að bæta við einu og einu skipi, sumum allt of dýrum og allt of stórum fyrir þá sem eiga að reka þau, enda vonlaust, og reyndar á það eftir að koma í ljós. Því miður er staðreyndin sú. En á þessu ári höfum við ekki verið að bæta við einu og einu skipi í þorskveiðiflotann. Á einum degi bættust 52 stór og vel búin fiskiskip í sóknina í þorskinn. Það er mikill hópur. Meira en 50 harðduglegir formenn á stórum og vel útbúnum skipum bætast nú í þessa sókn. Þó að við viljum endurbæta úreltan bátaflota er þarna komin algerlega ný mynd fram. Flotinn stækkar stórkostlega í einu vetfangi og með þá staðreynd í huga verða menn að athuga sinn gang.

Ég undrast dálítið það sem menn hafa verið að segja hérna. Hæstv. sjútvrh. hefur verið að reyna að klóra svolítið í bakkann. Hann viðurkenndi þó að hann hefði verið svikinn, og það var karlmannlega mælt. En ég held að menn eigi ekki að reyna að tína til rök til þess að réttlæta þetta á einn eða annan hátt. Það er óréttlætanlegt. Þessir bátaræflar, sem voru teknir út í staðinn, voru ekki skip til þess að sækja sjó á Íslandsmiðum. Þess vegna er augljóst að sá togari, sem kemur í staðinn, hefur miklu meiri sóknarmöguleika. Það er enginn vafi. Það þýðir ekkert að segja: Ég held að þetta skip hafi ekki meiri sóknarþunga en þessir bátar. — Það þýðir ekki neitt, það er svo augljóst. Við skulum hætta að reyna að afsaka okkur með rökum sem halda ekki. Það er ekki góður siður. Við eigum bara að viðurkenna að þarna hafi orðið hrapalleg mistök. Þau geta átt sér stað og ekki ætla ég að dæma menn fyrir það. Hins vegar eru þetta svik af hálfu þess manns sem var að sækja um leyfi til að kaupa skip.

Hæstv. sjútvrh. sagði réttilega að margir sjómenn á Íslandi þurfa að vinna sína vinnu við erfið skilyrði á smáum bátum og með vondum aðbúnaði. Þar er ekki hægt að beita lögum um hollustuhætti og allt það á vinnustað sem við höfum verið að samþykkja hér fyrir alla sem vinna á þurru landi. En hvað svo sem um það má segja, þann vilja ráðh. að bæta vinnurými, eins og hann orðaði það, þá er það aldeilis ekki gert með þessum ryðkláfi sem verið er að kaupa núna og hefur aðeins pláss fyrir 10 menn, en á skuttogurum eiga auðvitað að vera miklu fleiri menn. Með því að hafa svona fáa menn er auðvitað verið að bjóða upp á að vökulög séu brotin og vinnuálag verði óeðlilega mikið. Ég held að ráðh., hvort sem er í þessari ríkisstj. eða annarri, eigi ekki að beita sér fyrir slíku — alls ekki.

Það mætti auðvitað margt um þetta segja. En ég vil vekja athygli á því og lýsa þeirri skoðun minni, að menn geti ekki farið í eitthvert annað rn. og krækt sér í skip, ef ekki er hægt að ná í það í sjútvrn. Það er nauðsynlegt að þetta sé allt á einni hendi. Það ber brýna nauðsyn til að breyta þeim reglum, sem til kunna að vera í þessum efnum, þannig að smíði innanlands eða utan, kaup á skipum innanlands eða utanlands frá fari öll í gegnum sama aðilann. Við höfum ekki efni á því að bæta við fleiri og fleiri skipum, auka fjárfestinguna, án þess að það komi nokkurri krónu meira inn í afla. Aflinn er takmarkaður, þessi stærð er föst. Svona mikið megum við veiða og svona mikið fáum við fyrir þennan afla. Ef við bætum við 10 skipum í flotann fer allur rekstrarkostnaður þessara nýju skipa inn á sama fiskverð. Ég vona að menn skilji hvað ég á við. Það kemur bara minna í hvers hlut og það verður verra að reka þau skip sem fyrir eru. Svo kemur auðvitað að lokum að því, að það verður ekki hægt að reka eitt einasta skip með nokkru lagi. Þetta ýtir undir óeðlilega hækkandi fiskverð, lækkandi gengi og enn frekar bullandi verðbólgu. Við megum ekki í einu orðinu vera að tala um að við ætlum að telja niður verðbólguna, eða hvernig svo sem menn orða það, og stórauka svo í landinu á mörgum sviðum fjárfestingu sem engu skilar. Ef nokkuð ýtir undir verðbólgu, þá er það slíkt.

Menn verða að horfast í augu við þessar staðreyndir. Ég álít að sjútvrh. — hver sem hann er — eigi að setja þröngar reglur í þessum efnum sem gefi ekki þrýstihópum þann möguleika að liggja stöðugt og ýta á að fá leyfi til þessa eða hins. Þá geta menn vísað hreinlega til þessara reglna, að þetta megi ekki, þetta sé ekki hægt, og það gengur jafnt yfir alla. Hins vegar ef ráðherrar hafa of miklar heimildir, þá er tilhneiging til að láta undan þrýstingi, enda hefur sú raun orðið á.

Ég legg enn á það áherslu, að ég álít nauðsynlegt að öll skipakaup, hvaðan sem er, fari í gegnum einn stað. Það er hægt að takmarka aðsóknina í þetta með því ósköp einfaldlega að lækka lánahlutfall Fiskveiðasjóðs þannig. að ekki sæki aðrir í þetta en þeir sem hafa eitthvert bolmagn til þess og eru færir um að reka sín skip.

Herra forseti. Hæstv. ráðh. nefndi hér áðan að við í Vestmannaeyjum hefðum fengið að kaupa einhver eldri skip til notkunar. Það er rétt. Ég verð að viðurkenna það, að ég var hlynntur því á sínum tíma. En nú er komin upp allt önnur mynd, eins og ég nefndi áðan, með tilkomu loðnuflotans í þorskinn. En þó að við höfum keypt eldri báta, þá hefur engum dottið í hug að kaupa afgamla báta. Eins og ráðh. sagði og flestallir, sem hér eru inni, vita geta menn fengið 50% lán í Fiskveiðasjóði til þess að kaupa notuð skip erlendis frá, með einu skilyrði þó ásamt öðrum, og það er að skipið sé ekki eldra en fimm ára. Það eru aldursmörk sem ætíð hefur verið miðað við. Og það er skynsamlegt að vera ekki að flytja inn eldri skip en þetta. Ef við kaupum fimm ára skip á það þó ekki nema þrjú ár eftir í stóra skoðun, átta ára klössun. Það hefur hingað til ekki þótt skynsamlegt að flytja inn svo gömul skip. En þetta er afgamalt skip. Það er tvöfalt eldra en þau mörk sem Fiskveiðasjóður setur, og er raunar ekkert vit í því að gera slíkt., Sá dugnaðarmaður, sem reyndi að ná sér í þetta skip, átti ekkert skip til þess að úrelda og fá annað í staðinn, sem ég álit að eigi alls ekki að setja sama-sem-merki á milli. Við erum að reyna að draga úr flotanum. En með því að eignast þetta skip hefur hann þó fengið eitt gamalt í hendurnar sem hann kannske getur sett í Úreldingarsjóð áður en langur tími líður.