02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3558 í B-deild Alþingistíðinda. (3106)

230. mál, kosningar til Alþingis

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Eins og hv. þd. er kunnugt voru samþykki fyrr á þessu þingi lög um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, þar sem m.a. var ákveðið að nota skyldi stimpla við utankjörfundakosningu. Þessi lög koma til framkvæmda við sveitarstjórnarkosningar á vori komanda.

Er farið var að undirbúa framkvæmd laga þessara kom í ljós að hér var um að ræða allverulegan kostnað, sem óvíst var að menn hefðu gert sér fulla grein fyrir, og að hæpið var að takast mætti að afla nægilegs magns stimpla í tæka tíð, en stimplarnir þurfa að liggja fyrir hjá kjörstjórum strax og utankjörfundakosning hefst. Var hér um að ræða dreifingu á um 4500 stimplum til allra kjörstjóra, sem eru um 300 talsins hérlendis og erlendis, og kostnaður áætlaður um hálf millj. kr., var enn þá hærri í fyrstu. Varð að ráði að leggja til við Alþingi að lagaákvæðinu yrði breytt á þá lund, að kjósanda yrði heimilt að velja um hvort hann stimplar eða ritar listabókstaf á kjörseðilinn og að stimplar verði ekki hafðir á öllum kjörstöðum, heldur einungis á skrifstofum sýslumanna og bæjarfógeta og hjá nokkrum hreppstjórum og í sendiráðum. Er þá miðað við að stimplar verði á um 50 kjörstöðum, 15 á hverjum stað, og keyptir verði 1000 stimplar og kostnaðurinn um 100 þús. kr.

Er frv. þetta var upphaflega lagt fram var það haft í huga, að áður en stofnað yrði til frekari innkaupa fengist reynsla af notkun stimpla við utankjörfundaratkvgr., en hér er um að ræða algera nýjung við kosningar. Hv. Ed. hefur nú breytt frv. á þann veg, að gert er ráð fyrir að ákvæðið, eins og það var lagt fram, gildi aðeins til áramóta, hins vegar komi ákvæðið eins og það var afgreitt fyrr í vetur þá til framkvæmda.

Herra forseti. Ég tel eigi ástæðu til að fjalla um frv. frekar á þessu stigi, en vísa til nokkru ítarlegri framsögu er ég flutti í hv. Ed. Vegna undirbúnings utankjörfundakosninga er æskilegt að afgreiðslu frv. þessa verði flýtt af hálfu þingnefndar og þd. Ég legg að lokum til að frv. þessu verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.