02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3564 í B-deild Alþingistíðinda. (3117)

131. mál, útflutningsgjald af grásleppuafurðum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Samtök grásleppuhrognaframleiðenda eiga að fá samkv. þessu frv. 15% af útflutningsgjaldi til starfsemi sinnar. Það hlýtur því að vera eðlilegt að menn hugleiði hvernig þau eru byggð upp og hvort þau gefi rétta mynd af þeim fjölda sem stundar þennan veiðiskap. Við höfum oft og tíðum félög í þessu landi sem mynda svo heildarfélagsskap. Það má t.d. í því sambandi nefna Alþýðusamband Íslands og þar er um fulltrúalýðræði að ræða. Ástæðan fyrir því, að þessi háttur er á hafður, er sú að það væri ákaflega erfitt að boða til fundar á einum stað allan þann hóp sem þar hefði rétt á fundarsetu. Mér sýnist einnig að það sé ákaflega hæpið að gera ráð fyrir að Samtök grásleppuhrognaframleiðenda geti starfað með eðlilegum hætti nema þar verði tekið upp fulltrúalýðræði, þ.e. grásleppuhrognaframleiðendur á hinum ýmsu stöðum myndi félög og sendi svo fulltrúa þegar aðalfundur er haldinn hér í Reykjavík. Ef aðalfundur er aftur á móti haldinn með þeim hætti að hann er auglýstur hér í Reykjavík liggur í hlutarins eðli að þeir, sem fjærst búa, muni undir flestum kringumstæðum eiga verst með að sækja þann fund og trúlegt að heimtur frá þeim verði litlar á fundinn.

Ég geri þetta hér að umræðuefni vegna þess að mér hafa borist í hendur undirskriftir þar sem óskað er eftir breytingum á þessu. Ég tel að það væri æskilegt, ef sú nefnd, sem fær þetta til meðferðar, gerði könnun á því, hvort ekki er hægt að ná fram því eðlilega sjónarmiði, að Samtök grásleppuhrognaframleiðenda byggist á fulltrúalýðræði svo deilur um þetta atriði geti fallið niður.