05.04.1982
Neðri deild: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3640 í B-deild Alþingistíðinda. (3182)

222. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur á nál. landbn. varð samstaða um þetta mál í nefndinni. Frsm. nefndarinnar lýsti því hér áðan, að Búnaðarþing hefði ályktað um málið og lagt til að álagt gjald samkv. 2. lið 1. gr. gilti ekki lengur en til ársins 1985. Um þetta varð ekki samkomulag í landbn. Hins vegar er gert ráð fyrir því í till. nefndarinnar, að efnt verði til endurskoðunar á lögunum fyrir árslok 1984. En í raun og veru er hálfsögð sagan þegar þessi saga er sögð á þennan hátt. Þetta búvörugjald, framleiðendagjald svokallaða, sem gengur til Stofnlánadeildarinnar, hefur verið innt af hendi í mörg ár og það hefur verið tengt mótframlagi frá ríkissjóði í allmörg ár.

Það er talið af Búnaðarþingi, að þegar niður fellur sú kvöð sem á Stofnlánadeildinni hefur legið að greiða lífeyri þeirra bænda sem ekki hafa áunnið sér lífeyrisréttindi, þá mundi verða óhætt að fella einnig niður þetta búvörugjald. Að mínum dómi réttlætir þá tillögugerð einnig það, að fast framlag ríkisins hefur á undanförnum árum verið stórlega skert, og þá verð ég að segja að það er ekki óeðlilegt að líta svo á að einhver linun yrði í gjöldum sem bændurnir þyrftu að inna af höndum, þegar ríkið hagar sér þannig og hefur þó lagaskyldu til að greiða ákveðin gjöld.

Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef haft af árinu 1979, vantar af fastaframlagi ríkisins 2 500 000 kr. og það vantar af mótframlagi ríkisins gegn öðrum innheimtum gjöldum 78 763 642 kr., eða samtals á árinu 1979 81 263 642 kr. Árið 1980 fer á sömu leið. Af fastaframlagi ríkisins vantar 3 300 000 kr. og af mótframlagi ríkisins á móti öðrum gjöldum vantar það ár 470 368 800 kr. Sem sagt, á því ári vantar 473 668 800 kr. Á árinu 1981 er fast framlag ríkisins komið í það horf sem í lögunum segir, í 250 þús. nýkr., en af mótframlagi ríkisins vantar 8 868 703.73 kr. Samtals vantar því á árunum 1979–1981, að báðum meðtöldum, 14 418 029.15 kr. Þegar þetta er haft í huga er ekkert óeðlilegt að fram komi raddir og tillögur um að fellt verði niður það framleiðendagjald sem er lagt á bændur og búvöruframleiðslu þeirra.

Eins og ég sagði áðan varð að samkomulagi í nefndinni að frv. skyldi fá meðmæli nefndarinnar í heild. Ég undirstrika það, að ég stend að því og hvet til þess að frv. verði samþykkt. En ég geri það fyrst og fremst með það í huga, að hægt verði að fara ofan í þessa hluti áður en kemur til þess að breyting verði á gjaldskyldu Stofnlánadeildarinnar vegna Lífeyrissjóðs bænda. Ég geri það vegna þess, að á því er mikil þörf að þeirri greiðslu verði haldið áfram, en ég tel rétt að stokka upp þessi mál þegar því verkefni er lokið, vegna þeirra vanefnda sem orðið hafa um framlög í Stofnlánadeildina af ríkisins hálfu.