05.04.1982
Neðri deild: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3644 í B-deild Alþingistíðinda. (3188)

37. mál, söluskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 10 22. mars 1960, um söluskatt, með síðari breytingum. Frv. þetta miðar að því að bæta og herða innheimtu söluskatts og tryggja sem best skil skattsins í ríkissjóð. Frv. þetta hefur þegar verið afgreitt frá Ed., þar sem það var afgreitt með stuðningi þm. Alþb., Framsfl., Alþfl. og þeirra sjálfstæðismanna sem styðja ríkisstjórnina þannig að um þetta mál hefur skapast nokkuð viðtæk samstaða þótt ekki hafi þar allir verið á einu máli.

Forsaga þessa máls er sú, að ég skipaði nefnd sumarið 1980 til að gera tillögur um bætta innheimtu söluskatts og var nefndinni sérstaklega ætlað að leita leiða til að tryggja sem best skil söluskatts í ríkissjóð. Var nefndinni falið að endurskoða gildandi lagaákvæði um dráttarvexti og viðurlög við skattaundandrætti og kanna öll önnur atriði sem gætu horft til að auðvelda eftirlit með söluskattsskilum. Í þessari nefnd voru sex ágætir menn; þeir Árni Kolbeinsson, Garðar Sigurðsson, Garðar Valdimarsson, Geir Geirsson, Jón Hallsson og Jónas Gunnarsson og var Árni skipaður formaður nefndarinnar. Nokkru eftir að nefndin hóf störf var Skúli Alexandersson skipaður í nefndina í stað Garðars Sigurðssonar, sem baðst undan störfum þar.

Nefndin skilaði áliti í marsmánuði 1981 og er þetta frv. að meginstefnu til byggt á tillögum hennar. Í nefndaráliti því, sem hér um ræðir, segir m.a., með leyfi forseta:

„Núgildandi viðurlaga- og refsiákvæði eru að stofni til frá árinu 1974. Er þar annars vegar um að ræða ákvæði 21. gr. laganna sem kveða á um sjálfvirk viðurlög, án sakar, við drætti á söluskattsskilum og skýrslugjöf. Eru þessi viðurlög nokkurs konar sambland af dráttarvöxtum og refsikenndum viðurlögum. Nefndin telur, að þessi ákvæði hafi að meginstefnu reynst vel, og gerir því ekki tillögur til róttækra breytinga á þeim. Hins vegar er um að ræða ákvæði 25. og 26. gr. um eiginlegar refsingar ákveðnar af skattsektanefnd eða dómstólunum. Nefndin telur þessum ákvæðum að ýmsu leyti áfátt, t.d. gætir óeðlilegs misræmis milli ákvæða 25. og 26. gr., og einnig sé nauðsynlegt að samræma þessi ákvæði samsvarandi ákvæðum í XII. kafla nýju tekjuskattslaganna.“

Einnig er um að ræða að verið er með þessu frv. að hækka sektamörk við brotum á bókhaldsákvæðum og breyta ýmsum atriðum sem varða refsiákvarðanir vegna söluskattsbrota.

Þá er rétt að nefna það, að verði þetta frv. að lögum er ráðh. veitt heimild til að setja með reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara, þ. á m. reglur um sérstakt bókhald, fylgiskjöl þess og færslu, þar með talið birgðabókhald fyrir alla söluskattsskylda aðila, skráningu í bókhald, á reikninga, strimla, staðgreiðslusölulista og önnur gögn til sönnunar færslum, löggildingu bóka og gagna, færslu þeirra og geymslu, eins og segir í 7. gr. frv. Þessi grein er mikilvægari en menn kynnu að halda við fyrstu sýn þar sem hún veitir ótvíræðar heimildir til að leggja þær skyldur á söluskattskylda aðila um skráningu í bókhald, um strimla og staðgreiðslusölulista sem eiga að gera eftirlitsmönnum með söluskatti fært að fylgjast miklu betur með hvort söluskatti sé til skila haldið. Er gert ráð fyrir að reglum um þetta efni verði breytt og að gerðar verði nokkru strangari kröfur til söluskattskyldra aðila hvað snertir skráningu á viðskiptum en verið hefur.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu að öðru leyti til að fjölyrða um þetta frv. Ég tel afar mikilvægt að tækifæri gefist til að bæta söluskattsinnheimtuna. Söluskatturinn er langsamlega mikilvægasti tekjustofn ríkissjóðs og óneitanlega leikur sterkur grunur á að verulegar tekjur misfarist af þeim fjármunum sem ríkissjóður á að fá í sinn hlut af söluskatti. Vissulega er ekki von til þess, að úr því verði að fullu bætt með strangari löggjöf eða hertu eftirliti, en þarna má þó margt laga og að því stefnir þetta frv.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.