06.04.1982
Sameinað þing: 74. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3649 í B-deild Alþingistíðinda. (3197)

359. mál, flóð Þjórsár í Villingaholtshreppi

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég hef lagt hér fram fsp. til iðnrh. um flóð í Þjórsá í Villingaholtshreppi. Fsp. hljóðar svo:

„Hvaða ráðstafanir hafa raforkuverin við Þjórsá gert vegna vatnsmiðlunar og aukins vetrarrennslis árinnar til þess að varna landskemmdum og flóðahættu af völdum hennar í Villingaholtshreppi?

2. Hver eru áform um framkvæmdir?“

Nú um nokkurt árabil hefur aukist flóðahætta í Þjórsá í Villingaholtshreppi, og telja fróðustu menn að það sé vegna þess að aukið hefur verið mjög vatnsrennsli árinnar að vetrarlagi og valdi því, að meira verði um ísmyndanir, en líka vegna þess að verið sé að fleyta ís framhjá virkjununum ofarlega í Þjórsá. Þegar ísinn kemur niður á sléttlendið, niður í Flóa hleðst hann upp og ám leitar úr farvegi sínum. Veldur það þar af leiðandi hættu á að hún renni upp á Flóann. Hefur hún komist það hátt að orðið hefur til vandræða hjá bændum sem búa næst ánni. Þetta er ekki góð þróun og menn eru uggandi yfir því, að það geti valdið miklum skemmdum ef ekki verður að gert.

Á síðasta hausti flæddi áin upp og lokaðist vegurinn heim að bæjunum á Egilsstöðum, en einnig komst flóðið upp að bæjum neðar í Villingaholtshreppi, Mjósyndi og þeim bæjum sem standa næst ánni. Hér er um það vandamál að ræða að ekki verður litið fram hjá því, jafnvel þó að búið sé að gera nokkra bragarbót á þar sem nú hefur verið hlaðið í nokkur skörð við ána sem hættulegust voru. En það dugir ekki til. Ef veruleg jakastífla kemur í ána eru bakkarnir og landið þarna svo lágt að flóðið getur farið vestur yfir Flóann og valdið verulegum skemmdum á mörgum bæjum og vegum.

Einnig vel ég taka það fram, að það er stórhætta í Skeiðahreppi hvað varðar landskemmdir. Áin tekur stöðugt meira og meira af ræktunarlöndum bændanna þar. Er það líka sérstaklega vegna þess, að vetrarrennslið er meira og jakaferðin í ánni skefur og skemmir bakkana og þeir falla niður og gróðurlendið flýtur burt.

Ég óska eftir frekari upplýsingum um hvað orkuverin ætli að gera í sambandi við þetta. Þess vegna er þessi fsp. lögð fram.