04.11.1981
Neðri deild: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, hv. 2. þm. Norðurl. e., nema hvað mér er ósárt um ríkisstj. og hef satt að segja ekki orðið fyrir vonbrigðum með það, hvernig til hefur tekist, því að illa var staðið að henni í upphafi. Þess var raunar síst að vænta, að hún mundi standa við orð sín með verkum sínum. Ég sagði það raunar fyrir fram, þegar forustumenn Raufarhafnarhrepps báðu þm. sína að ganga á fund ríkisstj., að þau svör, sem við mundum þar fá, mundu öll verða bljúg og ísmeygileg, en hins vegar yrði þess ekki að vænta, að fyrirtækinu yrði komið á rekstrargrundvöll, einfaldlega vegna þess að til þess stæði enginn vilji hjá þessari hæstv. ríkisstj. að koma fótunum aftur undir atvinnuvegina.

Það er m. ö. o. verið að reyna að reka íslenskt þjóðfélag án þess að grundvöllur sé fyrir útflutningsframleiðslu. Það vitum við öll að er ekki hægt. Það er ekki hægt að reka íslenskt þjóðfélag þannig, að sjávarútvegurinn sé rekinn með bullandi tapi, það vita allir. Og þessi Klondæk-gróði, sem á sínum tíma fékkst út á saltfiskinn af því að þeir samningar voru gerðir í dollurum, er búinn að vera. Saltfisksverkunin er í dag í raun og veru rekin með tapi. Þetta vita allir menn. Og það er sorti fram undan líka vegna þess, að hæstv. ráðh., jafnvel sá reikningsglöggi sjútvrh., virðast ekki skilja þá einföldu staðreynd, að eftir að hávaxtastefnan var tekin upp, eftir að verðtryggðu lánin komu til sögunnar og eftir að rekstrarlánin eru í erlendri mynt er ekki lengur um það að ræða að framleiðsluatvinnuvegirnir geti mætt hallarekstri með lántökum. Sú tíð er einfaldlega liðin. Þegar þess vegna hæstv. sjútvrh. er að horfa í einhverjar töflur, einhverja pappíra úr einhverri af pappírsverksmiðjum ríkisstj. og sér þar svart á hvítu að þessi eða hinn atvinnuvegurinn hafi verið rekinn með tapi svo og svo mörg ár einhvern tíma í fyrndinni, þá er hann einungis að blekkja sjálfan sig. Meðan lánin voru óverðtryggð var um það að ræða að hægt væri að bjarga atvinnuvegunum með lántökum og gengisfellingum, en sú tíð er einfaldlega liðin. Þetta vita allir menn. Og það var mikil lífsreynsla raunar þegar við þm. vorum að tala við ýmsa menn í okkar kjördæmi fyrir norðan og einn af atvinnurekendunum þar tók stuðningsmenn ríkisstj. í kennslustund í þeim fræðum, hvernig verðtryggðu lánin verka, hvernig stefnan í gjaldeyrismálunum hefur verkað og hvað sé raunverulega að gerast í atvinnulífinu. Þó að kæmi til okkar maður eftir mann, sem allir hefðu þá sögu að segja að fyrirtæki þeirra væri rekið með halla, að búið væri að loka fyrirtæki þeirra, að ekki hefði verið einu sinni í það ráðist að opna fyrirtækin, að engin pöntun hefði borist, þá örlaði ekki á skilningi á því, í hverju vandi íslensks þjóðfélags væri fólginn. Og sá maður, sem talaði hér á undan, viðhafði enn þau orð, að erfiðleikar Jökuls á Raufarhöfn væru þeir, að fyrirtækið skuldaði á vitlausum stöðum. Hið sama hefur fjmrh. sagt. Hvenær á það að vera óheillamerki fyrir eitthvert fyrirtæki, að það hafi bolmagn til þess að standa í skilum með sín fjárfestingarlán? Hvernig eignaðist fyrirtækið Jökull sínar eignir ef aldrei hefði orðið afgangur í raun? Það ætti að fara ofan í það dæmi. Og þá sjá menn að í dag eru engin skilyrði fyrir því, að slík eignamyndun geti orðið á ný.

Þegar þess vegna verið er að fara fram á það við ríkisstj., að hún veiti heimild fyrir því að erlent lán verði tekið til þess að koma frystihúsinu aftur á stað, þá er verið að fara fram á það við ríkisstj. að éta upp það eigið fé sem þó er til í þessu fyrirtæki. Að óbreyttri stefnu í málefnum sjávarútvegsins er engin von til þess, að þetta fyrirtæki geti staðið í skilum. Það verður þess vegna áfram gengið á eignirnar. Það mun síðan enda með því að þetta fyrirtæki verði gert upp, selt á nauðungaruppboði. Sjóðirnir tapa sínu, skattarnir verða auknir til þess að greiða fyrir erlendar skuldbindingar, sem eru baktryggðar með ríkisábyrgðum, og svona heldur þetta áfram. Svo er verið að reyna að telja fólkinu trú um að ef ríkið ábyrgist eitthvað, ef Byggðasjóður ábyrgist eitthvað, þá þurfi enginn að greiða það, það muni ekki bitna á neinum þegar til lengdar lætur.

En hver ber að lokum ábyrgðina á þessum hallarekstri? Hver ber að lokum ábyrgðina á því, ef nú er fleygt inn í Byggðasjóð umsókn eftir umsókn frá fyrirtækjum hringinn í kringum landið sem öll fara fram á að fá erlend lán til að standa undir hallarekstri, af því að ríkisstj. er hrædd við að fella gengið eða gera nauðsynlegar ráðstafanir af því að landsfundur Sjálfstfl. er fram undan? Hver ber ábyrgðina á þessu? Hver ætlar að borga þennan halla? Ætla ráðherrarnir að gera það? Hafa þeir burði til þess, nógu breitt bak? Auðvitað eru þetta víxlar til framtíðarinnar. Og það er alveg óvíst að hæstv. fjmrh. finni ný lán sem gjaldfalla ekki fyrr en kannske 2100. Það kemur á það fólk, sem nú er á lífi flestallt, að endurgreiða þetta. Það kemur á verkamanninn, verkakonuna, öll sú umframeyðsla sem nú á sér stað og við höfum ekki fengið um orð af viti út úr þessum umr. Hann talaði um það að vísu, hæstv. sjútvrh., að of lítið eigið fé væri í ýmsum fyrirtækjum. Af hverju er of lítið eigið fé í fyrirtækjum? Vegna þess að rekstrargrundvöllurinn er ekki fyrir hendi og vegna þess að ef eitthvað verður afgangs er það tekið upp í skatta.

Ég hef hlustað á það bæði hjá þm. Norðurl. e. á Raufarhöfn og í báðum stjórnarflokkunum, bæði hjá Alþb. og Framsfl, — það er enginn úr Sjálfstfl. stuðningsmaður þessarar ríkisstj. til allrar hamingju hér á þingi, — ég hef heyrt það hjá þeim báðum, að eigið fé Jökuls hf. á Raufarhöfn sé of lítið. En þeir eru ekki til viðtals um að breyta skattalögunum til þess að hið nauma fjármagn fyrirtækjanna geti aukist, það má ekki. Það má ekki safna á góðu árunum. En hvernig ætlar hann þá að fara að, hæstv. sjútvrh.? Það kom líka fram áðan. Hann ætlar að búa til sérstakan lánaflokk hjá Byggðasjóði sem á að stofna með skattlagningu á fólkið í landinu, og síðan á stjórn Byggðasjóðs að úthluta þessum fínu lánum handa þeim fyrirtækjum sem eru þóknanleg einhverjum mönnum sem útdeila fénu í glerhúsi inn við Rauðarárstíg. Þeir eiga að úthluta fénu. Það er kjarni málsins, þessi sérstaki lánaflokkur ráðh. En það má ekki slaka á tekjuskattsheimtunni, það má ekki skapa rekstrargrundvöll fyrir fyrirtækin.

Það er satt að segja til lítils að tala um þetta hér. Ég held hins vegar að síðar á þinginu sé rétt að láta reyna á það, hvort vilji standi til þess hjá stuðningsmönnum ríkisstj. að fyrirtæki hafi tök á því með eðlilegum hætti, þar sem öll sitja við sama borð, að auka eigið fé. Til þess eru tvær leiðir: Annars vegar að skapa fyrirtækjunum rekstrargrundvöll. Og mér skilst að á gamlársdag standi vonir til þess, eins og í fyrra, að forsrh. geti aftur sagt að í dag séu öll fyrirtæki sjávarútvegsins rekin með svo og svo miklum gróða. Það var á gamlársdag, kannske á nýársdag líka, en hvorki á undan né eftir, ekki allan desembermánuð og ekki allan janúar, en þennan eina dag. Eða þá að menn, sem vilja leggja fram fé til atvinnurekstrarins, eigið sparifé, fái sérstaka skattaívilnun, ef verkafólkið á Raufarhöfn vill styrkja sitt fyrirtæki með sinni vinnu, þá geti það lagt fram vinnu sína, eignast hlutafé skattfrjálst, þurfti ekki að greiða af því tekjuskatt. Það væri leið þar og miklu víðar um landið, þar sem fyrirtækin berjast í bökkum: á Sauðárkróki, Patreksfirði, Keflavík og víðar. En hitt er óþolandi stefna, að mismuna fyrirtækjum og þegnum — eins og nú er gert raunar — meira en orðið er.

Ég vil svo segja það að lokum, að ég fagna því að hæstv. sjútvrh. skuli hafa beitt sér fyrir að leiðrétta lánskjör á nokkrum skipum í Fiskveiðasjóði. Ég vil þakka honum sérstaklega fyrir það og vona að fljótt verði brugðið við beiðni hans þar um og að þessi leiðrétting verði látin ná til baka og gamalt misrétti leiðrétt. Það væri afskaplega mikils virði og gæti kannske rétt af þau fyrirtæki sem þar er um að ræða.

Svo bara þetta: Eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði áðan er ullariðnaðurinn rekinn með svo miklu tapi að við sjáum allir að það getur ekki gengið áfram. Þessi grundvallaratvinnurekstur stendur svo höllum fæti, að því er jafnvel stefnt í tvísýnu að Samband ísl. samvinnufélaga geti hjálparlaust staðið undir honum öllu lengur. Ég man þó ekki betur en það hafi verið sérstakur boðskapur hæstv. landbrh. á fyrsta Búnaðarþingi sem hann sat, að sá iðnaður, sem byggðist á landbúnaðarafurðum, skyldi njóta sérstaks forgangs hjá ríkisstj. Síðan hann sagði þessi orð hefur mokkaiðnaðurinn nær lagst niður í landinu. Slíkar skinnasaumastofur standa lokaðar víðs vegar um landið. Og ullariðnaðurinn er að fara sömu leiðina. Þetta er náttúrlega hörmulegt og í rauninni tilefni til þess að taka þau mál til jafnrækilegrar umræðu og sjávarútvegurinn hefur verið tekinn núna. Búast má við að svona fari ef ekki verður skjótlega brugðið við og önnur stefna tekin upp í þeim málum.