14.04.1982
Neðri deild: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3735 í B-deild Alþingistíðinda. (3240)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það er lagt kapp á að þetta mál gangi sem fyrst til nefndar. Ég vil leggja áherslu á, að svo geti orðið, og mun taka tillit til þess í mínum málflutningi og aðeins segja hér örfá orð.

Ég fagna því, að þetta frv. er fram komið hér á Alþingi. Það er öllum hv. þm. ljóst að á Austurlandi eru miklar orkuauðlindir sem verða nýttar í nánustu framtíð til almennrar uppbyggingar í landinu og til verðmætasköpunar. Það hlýtur því að vera mjög mikilvægt að byrja sem fyrst að byggja upp orkumarkað í þessum landshluta.

Það kom fram áðan að verksmiðjan yrði reist án tillits til Fljótsdalsvirkjunar. Það hlýtur hins vegar að vera nauðsynleg forsenda þeirrar virkjunar, að sem mestur raforkumarkaður hafi verið skapaður í landshlutanum áður en framkvæmdir hefjast við virkjunina.

Sú stefna hefur verið mörkuð af núv. ríkisstj., að stefnt yrði að því að verðmætasköpun, sem byggist aðallega á orku, verði orðin svo mikil um næstu aldamót að hún jafnist nokkuð á við innflutning á orku til landsins. Til þess að svo megi verða þarf að fara fram veruleg uppbygging á orkufrekum iðnaði. Það hefur komið fram fyrr á þessu þingi, reyndar í stefnuræðu forsrh., að unnið væri að því og stefnt að byggingu kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Það er því ekkert nýtt að unnið sé að þessu máli. Það er búið að vera lengi í undirbúningi.

Ég vil út af fyrir sig taka undir það, að æskilegt hefði verið að lengri tími hefði gefist til að fjalla um þetta mál hér á Alþingi. Ég vil einnig taka undir það, að mér finnst nauðsynlegt að þm. stjórnarandstöðunnar geti fylgst sem best með þessum málum. Það er enginn vafi á því, að uppbygging orkufreks iðnaðar verður allveruleg hér á næstu áratugum, og því hlýtur að vera mikilvægt fyrir þjóðina í heild að um hana geti skapast sem best samstaða hér á Alþingi. Þess vegna vil ég taka undir það, að þm. allra flokka geti fylgst sem best með.

Í þessu frv. eru, eins og í öllum frv„ ýmsir kostir og ýmsir veikleikar. Það liggur ljóst fyrir að hér er um áhætturekstur að ræða, alveg með sama hætti og við leggjum í ýmsan annan áhætturekstur, höfum gert það í gegnum áratugina og hljótum að gera svo áfram.

Það hefur einnig komið fram að ýmislegt er enn í athugun, bæði að því er varðar markaðsmál og fjármögnun og fjárhagslega afkomu þessa fyrirtækis. Verður að vænta þess, að þær upplýsingar liggi fyrir hið fyrsta. En það, sem mér finnst fyrst og fremst vanta í þá skýrslu sem hér liggur fyrir, er nánari greinargerð um fjármálalega hlið verksmiðjunnar. Er þess að vænta, að í þeirri skýrslu, sem hér hefur verið boðað að einhver erlendur aðili vinni að, komi skýrar fram hvernig fyrirtækið verði fjármagnað og hvernig verði staðið undir rekstri þess. Til þess að svo megi verða sýnist mér nauðsynlegt að festa sig ekki um of í ýmsa kostnaðarþætti fyrirtækisins, þar verði að vera verulegur sveigjanleiki. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, er gert ráð fyrir að framleiðslukostnaður á tonn í þessari verksmiðju sé um 1 273 dalir, en í sambærilegri verksmiðju í Kanada, nýlegri verksmiðju eða í byggingu, sé það 1 124 dalir og í verksmiðjum, sem nú starfa í Noregi, á bilinu 866–893 dalir.

Það vekur vissa athygli að í Kanada er gert ráð fyrir að orkuverð sé 123 dollarar, í Noregi er orkuverð til slíkrar verksmiðju í dag 110–123 dollarar, en hér er gert ráð fyrir að íslenska verksmiðjan á Reyðarfirði greiði um 228 dollara á tonn fyrir orkuna. Þetta er mun hærra orkuverð en járnblendiverksmiðjan á Grundartanga greiðir. Það er gert ráð fyrir að fyrstu árin verði greitt 15 mills fyrir orkueininguna og 20 síðar, eða að meðaltali 17.5 mills.

Ég vil út af fyrir sig taka undir það með hæstv. iðnrh., að eðlilegt sé að fyrirtæki sem þessi standi fyllilega undir kostnaði við orkuframkvæmdir. Hitt er svo annað mál, að það er að mínu mati eðlilegt að jafna nokkuð á milli fyrirtækjanna þannig að hin eldri fyrirtæki búi ekki fyrst og fremst að góðu orkuverði, heldur verði einnig að taka tillit til þeirra sem eru að byrja og hasla sér völl. Þess vegna finnst mér það vera óþarflega ákveðið í grg. frv. og mætti taka til frekari athugunar hvort ekki er unnt að hafa orkuverðið lægra í fyrstu til þess að skapa verksmiðjunni betri möguleika til að hasla sér völl.

Einnig er rétt að athuga aðeins nánar um afskriftartíma. Hér er gert ráð fyrir að afskriftartími sé í fullu samræmi við lög um tekjuskatt og eignarskatt. Ef ég man rétt er afskriftartími járnblendiverksmiðjunnar við Grundartanga í samræmi við fyrri lög um tekjuskatt og eignarskatt. Ég held að það hafi verið ákveðið í þeim lögum, að afskriftartíminn skyldi aldrei vera skemmri en var í þágildandi lögum. Þetta er rétt að hafa í huga vegna þess að afskriftartími getur haft allveruleg áhrif á fjármagnsstreymi í fyrirtækinu.

Hér er einnig gert ráð fyrir að verksmiðjan greiði 15 gjald sem renni að hluta til sveitarfélaganna á Austurlandi, að hluta til uppbyggingar rannsókna í iðnaði, bæði á vegum Iðnþróunarsjóðs á Austurlandi og einnig á vegum ríkisins.

Það er mjög mikilvægt að leggja á þetta gjald og fá tekjur til þessara verkefna. Hitt er svo annað mál, að það er enn þá mikilvægara að fyrirtækið geti gengið og því séu sköpuð góð rekstrarleg skilyrði. En ég vil leggja á það áherslu, að verksmiðjur sem þessar þurfa að geta hjálpað til við frekari iðnþróun í landshlutunum. Það er ekki nægilegt að reisa slíkar verksmiðjur, heldur verður annar iðnaður að geta þróast jafnhliða. Þess vegna er stofnun iðnþróunarsjóðs á Austurlandi og annars staðar í landinu mikilvæg til þess að slíkur sjóður geti stutt frumkvæði einstaklinga og ýtt undir góðar hugmyndir í iðnþróunarmálum.

Ég vona að þessi atriði fái nánari meðferð og komi fram í þeim skýrslum, sem nú eru væntanlegar alveg næstu daga, og að betri upplýsingar komi fram um fjármögnun og fjárhagslega afkomu þessa fyrirtækis. Eftir því sem ég fæ best séð hefur þó ekkert komið fram sem ætti að draga úr mönnum að ráðast í þetta fyrirtæki og áhætta við það síst meiri en verið hefur með ýmis önnur fyrirtæki sem reist hafa verið. Það lá t.d. fyrir þegar járnblendiverksmiðjan að Grundartanga var reist, að þar væri veruleg áhætta, það væru sveiflur í markaðsverði. Það hefur komið skýrt fram í því frv., sem nú liggur hér fyrir Alþingi um frekari ábyrgð varðandi rekstrarvanda Járnblendifélagsins, að alltaf má búast við því, þegar sveiflur eru í markaðsverði, að einhver verði að fjármagna þessar sveiflur og hjálpa fyrirtækjunum til að komast í gegnum þær. Hins vegar bendir ekkert til þess, jafnvel þótt Íslenska járnblendifélagið hafi lent í þessum erfiðleikum, að það hafi verið röng ákvörðun á sínum tíma að ráðast í þá verksmiðju. Þetta eru sveiflur sem alltaf hljóta að verða, og það þarf að tryggja að einhver aðili sé tilbúinn að hjálpa til að jafna slíkar sveiflur. Það kom fram í ræðu hæstv. iðnrh., að hann hefði í huga að einhvers konar jöfnunarsjóður yrði stofnaður til þess að aðstoða við slíkt. Væri fróðlegt að fá frekari upplýsingar um hvað hann hefði í huga í því sambandi.

Ég vildi aðeins víkja að eignaraðild þessa fyrirtækis. Það hefur lengi verið stefna Framsfl., að innlendir aðilar eigi meiri hluta í fyrirtækjum sem þessum og að sköpuð yrðu virk yfirráð innlendra aðila yfir slíkum fyrirtækjum. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að ríkissjóður eigi a.m.k.

51% af hlutafénu eða það sama og í Íslenska járnblendifélaginu. Það er að sjálfsögðu fróðlegt að velta fyrir sér hvaða aðrir aðilar komi þarna til greina. Að mínu mati hefði verið sjálfsagt að vinna að því, að Íslenska járnblendifélagið væri eignaraðili að þessari verksmiðju, til þess að tryggja með eins góðum hætti og mögulegt er að sú tækniþekking, sem þar hefur skapast, geti nýst í þessari verksmiðju.

Við gerðum á sínum tíma samning við Elkem um að greiða 2% af söluverði afurðanna frá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga fyrir tæknikunnáttu og tækniþekkingu. Ég er sammála því markmiði þessa frv., að við þurfum að losna við slíkar greiðslur og hljótum að stefna að því með aukinni innlendri tækniþekkingu að þurfa ekki að reiða slíkar greiðslur af hendi. Ég vil leggja á það áherslu fyrir mitt leyti, að að því verði unnið áfram að Íslenska járnblendifélagið verði einhver eignaraðili, þótt ekki verði hann stór, að þessu fyrirtæki. Þá er gert ráð fyrir að sveitarfélög, hlutafélög, samvinnufélög og einstaklingar geti orðið aðilar að félaginu. Það kom fram í ræðu hæstv. iðnrh. að tæpast væri hægt að gera ráð fyrir að eignaraðild þessara aðila, t.d. sveitarfélaga, verði stór. Gert er ráð fyrir því í frv., að heimilt sé að taka 225 millj. að láni í hlutafé og að ríkið fái heimild til þess að taka allt þetta fé að láni. Í ríkissjóði eru því engir lausir peningar til þess að leggja fram hlutafé í þessu skyni. Og það eru sjálfsagt engir lausir peningar heldur hjá sveitarfélögum austur á landi og ýmsum öðrum félögum til þess að leggja fé í þessa verksmiðju. Þess vegna finnst mér koma mjög til álita að þessir aðilar fái heimild til að taka lán til að kaupa hlutabréf ekkert síður en ríkissjóður, það verði ekki látið staðar numið þótt sveitarfélög, t.d. Eskifjarðarkaupstaður og Reyðarfjarðarhreppur, telji sig ekki vera aflögufæra með fjármagn, þeir fái heimild til að taka hluta af þessu láni til að eignast hlutafé í félaginu. Það er ekkert kappsmál að ríkið eigi allt hlutafé í þessu félagi og á ekki að vera. Það ætti engu síður að vera mikilvægt fyrir Alþingi að stuðla að því, að aðrir aðilar geti eignast þar nokkurn hlut, ekki síst sveitarfélög sem eru opinberir aðilar.

Hér er ekki gert ráð fyrir að erlendir aðilar eigi í fyrirtækinu. Er sjálfsagt rétt að það sé ekki nauðsynlegt og sjálfsagt að stefna að því, að svo verði ekki. Hins vegar finnst mér ástæðulaust á þessu stigi að útiloka það. T.d. ef hægt væri með einhverjum hætti að tryggja betur sölu afurðanna með því að einhver erlendur aðili ætti nokkurn hlut í fyrirtækinu, þá finnst mér ekki ástæða til að útiloka það á þessu stigi.

Aðalatriðið er að tryggja að fyrirtækið geti staðist og að það geti framleitt vöru sína á samkeppnishæfu verði og að tryggt verði að það geti losnað við vöruna á erlendum mörkuðum. Ef nauðsynlegt er til þess að tryggja slíkt að erlendur aðili eigi nokkurn hlut í verksmiðjunni, þá finnst mér ástæðulaust að útiloka það á þessu stigi, en markaðsmálin eru að sjálfsögðu nokkur óvissuþáttur í þessu máli. Það kemur að vísu fram í skýrslunni, að það sé nokkuð tryggt með markaði, og ég býst við að svo sé. En hins vegar segir á bls. 8, „að hagkvæmast virðist að selja í gegnum umboðsmenn í einstökum löndum.“ Ég vil mega spyrja hvað liggi til grundvallar þessari setningu. Einnig væri fróðlegt að fá nánari upplýsingar um það, hvað þurfi að greiða slíkum umboðsmönnum í umboðslaun í sambandi við slíka sölu. Eins og kunnugt er greiðum við nú 2% í umboðslaun til Elkem fyrir sölu á afurðunum frá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. (Gripið fram í.) Og bönnum íslenskum aðilum að selja, segir hv. þm., og er leitt til þess að vita. Væntanlega gætu íslenskir umboðsmenn verið með í því að selja þessar vörur frá verksmiðjunni hér.

Nú sé ég, hæstv. forseti, að klukkan er alveg að verða 4. Þess var farið á leit að máli þessu yrði frestað kl. 4 og mun ég verða við því. Ég vil hins vegar leggja á það áherslu, að mál þetta geti náð fram að ganga á þessu þingi og iðnn. vinni kappsamlega að því að upplýsa þau atriði sem ekki liggja ljós fyrir nú, því að málið er mjög mikilvægt, ekki aðeins þjóðhagslega, heldur einnig fyrir Austurland. Þar er fábreytt atvinnulíf. Það er mikil samstaða um það í landshlutanum að ráðast í uppbyggingu í orkufrekum iðnaði. Ég hygg að það sé meiri samstaða þar en víða annars staðar og það væri leitt til þess að vita, ef hv. Alþingi gæti ekki metið þá samstöðu og kappkostað að koma þessu máli í höfn.