14.04.1982
Neðri deild: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3751 í B-deild Alþingistíðinda. (3246)

221. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Lög um búnaðarmálasjóð eru höfð til grundvallar við ákvörðun á gjaldstofni við álagningu á gjöldum bæði til Stofnlánadeildar landbúnaðarins, Lífeyrissjóðs bænda og til Bjargráðasjóðs. Það var skipuð nefnd af landbrh. til að semja frv. til laga bæði um búnaðarmálasjóð og Stofnlánadeild landbúnaðarins og þetta frv. er frá þeirri nefnd komið.

Á þskj. 506 er nál. frá landbn. þar sem hún leggur til að frv. verði samþykkt með breytingu sem er á sérstöku þskj., þskj. 507. Það eru ekki neinar efnisbreytingar í þessari brtt. við 2. gr. frv.

Það hefur verið 0.5% gjald til búnaðarmálasjóðs af öllum landbúnaðarvörum, en breytingin, sem þetta frv. felur í sér, er að það verði lækkað um helming eða verði hér eftir 0.25% gjald af afurðum alifugla, svína og fiskeldi, fiskrækt, veiðileigu og leigu á landi til annarra nota en búrekstrar. Að öðru leyti er þetta frv. samið með hliðsjón af þeim breytingum sem hafa orðið í landbúnaði á síðustu árum.