15.04.1982
Sameinað þing: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3810 í B-deild Alþingistíðinda. (3286)

254. mál, sparnaður í olíunotkun fiskiskipa

Guðrún Hallgrímsdóttir:

Herra forseti. Ég tel að í umr. um þessa till. sé rétt að vekja athygli á að Íslendingar eru aðilar að samnorrænu rannsóknarverkefni á sviði orkusparnaðar í fiskveiðum. Það verkefni tekur m.a. til rannsókna á þeim þætti varðandi olíunotkun fiskiskipa sem fjallað er um í þessari þáltill. Hér er um að ræða verkefnlð „Oljefisk“ á vegum Nordforsk. Fiskifélagið er framkvæmdaaðili fyrir Íslands hönd og á m.a. mann í verkefnisstjórninni. Þá er hér á Íslandi starfandi tengihópur, sem er skipaður fulltrúum frá ýmsum aðilum, þeir eru ellefu í allt, þ. á m. frá sjútvrn., iðnrn., Landssambandi ísl. útvegsmanna, Farmanna- og fiskimannasambandinu, Sjómannasambandinu, Siglingamálastofnun, Félagi dráttarbrauta og skipasmiðja, Háskóla Íslands o. fl. Þetta verkefni er fjármagnað af Nordisk Industrifond að 1/3 og þátttökulöndunum, sem eru Danmörk, Noregur, Færeyjar og Ísland.

Það vekur sérstaka athygli mína, að áætlun, sem fylgir með þáltill. og gerð er af þeim Sigurðum og byggist á tilboði frá Skibsteknisk laboratorium, er samhljóða einum hluta þessa samnorræna verkefnis og mun Skibsteknisk laboratorium annast framkvæmd þess hluta. Ég tel þess vegna rétt að þakka flm. fyrir þann áhuga sem þeir sýna þessum þætti orkusparnaðar með tillögugerðinni, en ég vildi um leið benda þeim á að kynna sér hvaða verkefni eru í gangi ýmist á vegum okkar einna eða í samstarfi við aðrar þjóðir.