16.04.1982
Efri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3813 í B-deild Alþingistíðinda. (3296)

222. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 598, um breyt. á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum, nr. 45 frá 16 apríl 1971, ásamt síðari breytingum, er samið af nefnd sem ég skipaði með bréfi dags. 30 júní 1980. Í nefnd þessari áttu sæti Gunnar Guðbjartsson, þáv. formaður Stéttarsambands bænda, Gísli Andrésson bóndi og Gunnar Jóhannsson bóndi, sem allir voru tilnefndir af Framleiðsluráði landbúnaðarins, en einnig voru skipaðir í nefndina Stefán Pálsson forstöðumaður Stofnlánadeildar landbúnaðarins og Guðmundur Sigþórsson deildarstjóri í landbrn., sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar. Ingi Tryggvason, núv. formaður Stéttarsambands bænda, tók sæti Gunnars Guðbjartssonar í nefndinni í forföllum Gunnars.

Megintilefni þess, að nefnd þessi var sett á laggir, var að upp hafði komið ágreiningur um innheimtu gjalda sem lögð eru á framleiðslu landbúnaðarafurða til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Einkum var ágreiningur um hversu gjöldin skyldu vera há af tilteknum greinum landbúnaðarins, sérstaklega að því er varðar svokallaðar aukabúgreinar, alifugla- og svínarækt. Nefndin aflaði sér upplýsinga frá hinum ýmsu aðilum og kvaddi á sinn fund talsmenn hinna ýmsu greina landbúnaðarins og tókst að ná samkomulagi um tillögur sem birtast í þessu frv.

Í frv. er lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins. Eru þær helstar sem fram koma í 1. gr. frv. og varða tekjur Stofnlánadeildarinnar. Þar koma fram þær breytingar, að gjald, sem innheimtist af framleiðendum í alifugla- og svínarækt, fiskeldi, fiskrækt, land- og veiðileyfum, skuli vera 0.5% í stað 1% sem áður hafði verið ætlast til að innheimt væri af þessum búgreinum. Það voru taldar fullar forsendur fyrir því að lækka stofnlánadeildargjaldið af þessum búgreinum um helming. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að stofnlánadeildargjaldið af öðrum greinum landbúnaðarins verði óbreytt frá því sem það er í gildandi lögum.

Jafnframt er í 1. gr. það nýmæli, að landbrh. verði heimilað að ákveða endurgreiðslu á svokölluðu neytendagjaldi og jöfnunargjaldi við útflutning afurða, sem ekki njóta útflutningsbóta úr ríkissjóði, eða þegar útflutningsbætur hrökkva ekki lengur til. Þetta á fyrst og fremst við um þær greinar landbúnaðarins sem flytja vörur sínar á erlendan markað án útflutningsbóta, t.a.m. loðdýraafurðir. Það er sýnilegt að ekki eru eðlilegar forsendur fyrir því, að á þann útflutning leggist í fyrsta lagi stofnlánadeildargjald, sem yrði 1%, en einnig neytendagjald, sem er 1%, og jöfnunargjald, sem einnig er 1%, sem sagt þrefalt stofnlánadeildargjald. Jöfnunargjald og neytendagjald leggjast á verð þeirra afurða landbúnaðarins sem seldar eru á innlendum markaði og greiðast því í vöruverði. Á sama hátt getur verið óeðlilegt að á þann hluta landbúnaðarafurða, sem fluttur er úr landi, bæði dilkakjöt og osta, leggist þrefalt stofnlánadeildargjald, sem yrði að reiknast sem kostnaður við þann útflutning, meðan bændur, sem selja vöru sína á innlendum markaði, greiða að sjálfsögðu aðeins hið venjubundna stofnlánadeildargjald, 1%. Er því gerð tillaga um að landbrh. verði heimilað að endurgreiða þetta gjald eða ákveða niðurfellingu þess, þegar útflutningsbætur hrökkva ekki lengur til.

Þetta eru þær breytingar sem hér eru gerðar tillögur um varðandi tekjuöflun til deildarinnar. Að öðru leyti eru ákvæði um tekjur deildarinnar óbreytt.

Þá eru hér gerðar nokkrar tillögur um breytingar er varða Byggingastofnun landbúnaðarins. Eru þær helstar er varða stjórn Byggingastofnunar og ráðningu á forstöðumanni Stofnlánadeildar og stjórn Stofnlánadeildar þannig að samræmi sé í þessum lögum. Með þessu er gert ráð fyrir að Byggingastofnunin heyri undir stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins, en ekki sé sérstök stjórn þessarar stofnunar, sem sýnist vera óþarfi, og enn fremur að forstöðumaður Byggingastofnunar sé ráðinn á sama hátt og forstöðumaður Stofnlánadeildar þannig að stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins annist ráðningu þessa starfsmanns.

Lítils háttar fleiri breytingar eru í frv. sem ekki þykir ástæða til að fara hér fleiri orðum um.

Hv. Nd. hefur afgreitt frv. með einni breytingu, þ.e. að við bætist ákvæði til bráðabirgða þess efnis, að lögin í heild, þ.e. lögin um Stofnlánadeild, nr. 45 frá 16. apríl 1971, skuli endurskoðuð og skuli endurskoðun þeirra lokið fyrir árslok 1984. Að öðru leyti hefur hv. Nd. afgreitt frv. óbreytt eins og það var lagt fram.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. landbn.