16.04.1982
Neðri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3876 í B-deild Alþingistíðinda. (3332)

107. mál, almannatryggingar

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil af því tilefni, sem þetta mál gefur, beina þeirri fyrirspurn til hæstv. félmrh., hvaða hugmyndir séu uppi um það innan ríkisstj., að sérstök bæklunardeild taki til starfa við sjúkrahúsið á Akureyri á hausti komanda. Eins og honum er kunnugt hefur þegar tekið til starfa sérfræðingur í þessum málum við sjúkrahúsið þar, en starfsgrundvöllur hans er næsta hæpinn eins og sakir standa, svo ekki sé meira sagt. Uppi eru hugmyndir um að breyta þeirri álmu gamla spítalans, þar sem nú eru skurðstofur, í bæklunardeild. Ég óska eftir upplýsingum um það frá hæstv. heilbrmrh., hvort hægt sé að treysta því, að nauðsynlegar breytingar á þessari álmu fari fram þegar á næsta sumri þannig að bæklunardeildin geti tekið til starfa svo fljótt sem kostur er og fjármagn hindri ekki nauðsynlegar endurbætur á sjúkrahúsinu.

Ég vil taka undir það sem hæstv. heilbrmrh. sagði áðan, að það er auðvitað mjög mikils um vert að hægt sé að ná niður rekstrarkostnaði sjúkrahúsanna. Í ræðu sinni hafði hann orð um að hallinn á sjúkrahúsinu á Akureyri væri yfir meðaltali. Ég vil af því gefna tilefni vekja athygli á að nauðsynlegt er, til þess að nýbyggingin, sem þar hefur risið, geti skilað sómasamlegri arðsemi, að uppbygging sjúkrahússins haldi áfram með meiri hraða en verið hefur svo að ný viðbótarálma geti tekið til starfa svo fljótt sem kostur er. Ég vil vænta þess út frá orðum hæstv. heilbrmrh. að hann muni leggjast á sveif með þm. kjördæmisins að ýta á eftir því máli eins og hægt er, því að satt best að segja höfum við reynslu af því, að við afgreiðslu fjárlaga sé ekki staðið við þær skuldbindingar sem sjúkrahúsinu á Akureyri voru gefnar á sínum tíma, eins og uppbyggingin á því sjúkrahúsi raunar sýnir.

Á hinn bóginn verð ég að taka upp hanskann fyrir formann fjvn„ þar sem hann á ekki sæti í þessari deild, og mótmæla því, að vinnubrögð hennar séu með þeim hætti, að fjvn. setji sig ekki inn í hvernig daggjaldakerfið verkar og hversu illa það kemur út. Þetta er einstökum fjvn.mönnum að sjálfsögðu fullkunnugt. Hins vegar er það á ábyrgð ríkisstj., hversu illa hefur verið séð fyrir fjármagni í þessar þarfir. Það er rétt, sem hv. 1. landsk. þm. sagði áðan, að hvað eftir annað hefur verið tekið fram fyrir hendur á daggjaldanefnd. Henni hefur verið skorinn svo þröngur stakkur hvað fjármagn snertir að hún hefur ekki getað veitt sjúkrahúsunum viðunandi úrlausn.

Það er vitaskuld rétt, sem hv. 1. landsk. þm. sagði áðan, að þetta frv. út af fyrir sig leysir ekki nokkurn skapaðan hlut. Ef settar eru rangar tölur inn í fjárlagafrv., ófullnægjandi tölur, þá veldur það vitaskuld því, að fjármagn vantar til að standa undir rekstrinum. Það er vitaþýðingarlaust og gagnslaust að blekkja sjálfan sig varðandi heilbrigðiskostnaðinn. Rekstur sjúkrahúsanna kostar sitt. Ef aðhaldi hefur ekki verið komið við, ef meiri hagræðingu hefur ekki verið beitt, — og það er á ábyrgð hæstv. heilbrmrh. að sjá um að það sé gert, — þá verður starfræksla sjúkrahúsanna samt að halda áfram. Sjúklingarnir þurfa á sinni heilbrigðisþjónustu að halda, og það er ekki hægt að láta starfsfólkið vera launalaust einn eða tvo mánuði í lok ársins til þess að taka af hallann á ónógum fjárveitingum. Þetta vil ég að fram komi.

En fyrirspurn mín beinist sem sagt að því, hvort þess sé að vænta, að fullur skriður verði settur á. (Forseti: Er það ekki allt annað mál, hv. ræðumaður?) Ég veit ekki hvort hæstv. forseti óskar frekar eftir að ég taki málið upp utan dagskrár. Þetta er einföld spurning. Ég sé ekki að þetta sé fjær sjúkrahúsunum en Lenin, ef út í það er farið. Fyrirspurnin var skýr og ég verð að endurtaka hana þar sem hæstv. forseti greip fram í í miðri setningu, og kann hann þó ekki við að það sé gert úr öðrum stólum í deildinni. (Forseti: Það er allt annað mál Ég hef leyfi til þess að kalla fram í eins oft og mér sýnist.) Ekki efast ég um að umburðarlyndi hans væri meira ef sjúkrahúsið, sem um er að tefla, væri á Austfjörðum, en ekki á Norðurlandi, og hefði þá kannske sjálfur tekið til máls.

Spurningin lýtur að því hvort þess sé að vænta, að fullur skriður verður settur á lagfæringu á gamla sjúkrahúsinu til þess að bæklunardeildin geti tekið til starfa svo fljótt sem kostur er, og hvort frá því sé gengið að starfsfólk við þá deild fái viðunandi aðstöðu þegar í stað.