16.04.1982
Neðri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3879 í B-deild Alþingistíðinda. (3339)

282. mál, grunnskólar

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Efni þessa máls felst í fyrri grein frv., þar sem segir að stefnt skuli að því að ákvæði laga um síðasta ár skólaskyldu komi til framkvæmda samtímis á landinu öllu níu árum eftir gildistöku laganna, þ.e. grunnskólalaganna. Í 88. gr. laga nr. 631 1974, um grunnskóla, var upphaflega stefnt að því, að ákvæði laganna um síðasta ár skólaskyldu kæmi til framkvæmda samtímis á öllu landinu sex árum eftir gildistöku laganna, en það merkir að lögin hefðu þá átt að koma til framkvæmda að öllu leyti hvað þetta snertir haustið 1980. Hins vegar er gert ráð fyrir því í ákvæði til bráðabirgða í grunnskólalögunum, að Alþingi fjalli nánar um níu ára skólaskyldu áður en hún kemur til fullra framkvæmda. Ég vil geta þess, að það er fyrirhugað að leggja fyrir næsta þing a.m.k. nokkrar breytingar á grunnskólalögunum, og þá er ætlunin að færi gefist fyrir Alþingi að tjá sig nánar um skólaskylduna eins og gert er ráð fyrir í ákvæði til bráðabirgða í grunnskólalögunum. Ég vil líka minna á að Alþingi frestaði með lögum 1980 að láta níu ára skólaskyldu koma þá til framkvæmda það ár, eins og þá átti að vera, og auk þess var þessi frestun enn á ný endurtekin í fyrra. Það, sem felst í þessu frv., er reyndar að fresta gildistöku níu ára skólaskyldu enn um eitt ár, þ.e. til hausts 1983.

Ég vona, herra forseti, að það geti orðið samkomulag um að gera þetta frestunarákvæði að lögum með þeim rökum sem hér hafa fram komið. Ég vænti þess sem sagt að þetta frv. geti orðið að lögum á þessu þingi, og þess vegna fer ég fram á það við hv. þingdeild að hraða málinu svo sem verða má, enda mun fremur stutt til þingslita. Ég mælist til þess að þegar þessari umr. lýkur verði málinu vísað til menntmn. og 2. umr.