19.04.1982
Neðri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3956 í B-deild Alþingistíðinda. (3464)

216. mál, ábúðarlög

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir þá ræðu sem hann flutti hér. Það er kannske til of mikils ætlast á þessu stigi málsins, við 3. umr., að menn hlaupi inn á betri tillögur þegar þeir telja sig hafa gert samning um annað. Mér er efst í huga í þessu máli að koma í veg fyrir að ójafnræði skapist hér í landinu á milli þeirra sem hugsanlega gætu nýtt sér jarðir með öðrum hætti heldur en að byggja þær, og ég harma að sjálfsögðu að þingheimur skuli ekki taka undir þau sjónarmið, af ástæðum sem hafa komið hér fram og byggjast á því, að gerður hafi verið samningur við aðila stéttarfélaganna, og það geti verið rök í málinu, að slíkur samningur komi í veg fyrir rétt annarra jafnframt. slík frekja er náttúrlega yfirgengileg og er leitt til þess að vita, að menn komi hér í ræðustól og verji slíkt.

En hitt vil ég þakka hæstv. ráðh. fyrir og tel vera mjög gott framlag í þessa umr., að hæstv. ráðh. lýsti yfir að taka þyrfti til athugunar byggingarskylduna yfirleitt og þá auðvitað í sambandi við landbúnaðarframleiðsluna og framtíð þessa atvinnuvegar og með sérstöku tilliti til hagsmuna byggðarlaga sem eiga í hlut. Það eru sjónarmið sem ég vil taka undir, og ég lít svo til að hæstv. ráðh. hafi með þessari yfirlýsingu sinni sagt að hann muni beita sér fyrir því, að slík endurskoðun fari fram. Fyrir það sérstaklega vil ég þakka hæstv. landbrh. Eftir sem áður hlýt ég að standa á minni till., þar sem hún kemur í veg fyrir að ójafnræði hljótist af þessu frv. til lagabreytingar sem hér er verið að ræða.