20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3958 í B-deild Alþingistíðinda. (3476)

247. mál, mat á eignum Iscargo hf.

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég hef haft samband við fulltrúa samgrn. í stjórn Flugleiða og spurt hann um ástæðu fyrir afstöðu hans til umrædds máls. Ég vil taka það fram, að hann hafði ekkert samráð við mig um það áður en málið kom þar til atkv.

Hann sagðist hafa verið þessu mótfallinn af eftirgreindum ástæðum: Í fyrsta lagi hefði sér verið ljóst að allar upplýsingar um þessi kaup væru auðveldlega og fúslega fáanlegar hjá stjórn Arnarflugs. Hann hefði kynnt sér það og það stæði ekkert á því, að þær yrðu þar allar lagðar fram. Hann sagðist hafa talið að fulltrúar Flugleiða í stjórn Arnarflugs væru einna færastir að meta slíkar eignir og ekki aðrir sem gætu gert það betur. Í öðru lagi sagðist hann leggja mjög mikla áherslu á að gott samstarf og samvinna gæti orðið á milli Arnarflugs og Flugleiða, eins og að hefur verið unnið undanfarna mánuði eða a.m.k. reynt, og talið að slík tillaga yrði fremur til að skapa tortryggni og gera erfiðari þá viðleitni sem var þá í gangi um slíkt samstarf á breiðum grundvelli. Hann sagðist sem sagt hafa talið samþykktina algerlega óþarfa og geta skaðað þá viðleitni til samstarfs sem í gangi var.

Í öðru lagi er spurt: Er samgrh. andvígur því, að slíkt mat fari fram? Að sjálfsögðu ekki. Ég hef ekki haft, eins og ég hef margsinnis sagt, nein afskipti af þessu og veit ekki gjörla um hvaða eignir þarna er að ræða. Vitanlega er ég ekki andvígur því. Því ræður hlutafélagið sjálft og hluthafar.

Hv. þm. nefndi einhverjar breytingar sem hefðu orðið á verðmætum frá því að Electra-vélin var ekki með og þar til síðar að Electra-vélin var með í tilboðinu. Mér var tjáð einhverju sinni að miklu fleira hafi átt að verða undan skilið, eins og lyftarar og eitthvað fleira. En eins og ég segi: Ég hef ekki eins glöggar upplýsingar um slíkt og hv. fyrirspyrjandi.