20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3960 í B-deild Alþingistíðinda. (3480)

247. mál, mat á eignum Iscargo hf.

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem hv. þm. Vilmundur Gylfason sagði. Frjálst er að veita út af fyrir sig eins mörg leyfi til flugs á Holland og yfirvöldum sýnist, það er opið, og reyndar má segja það um Þýskaland að nokkru leyti líka, þó að þar séu heldur strangari ákvæði. Það var, eins og ég er margbúinn að segja, í nóv. í fyrra, það mun hafa verið dags. 11. nóv., það bréf sem ég skrifaði forráðamönnum Arnarflugs, eftir að flugráð hafði fjallað um málið, og tjáði þeim að þeim yrðu veitt leyfi á Þýskaland og Zürich. Þeir nefndu þá á Amsterdam einnig og þeim var sagt að það kæmi vel til greina. Áður en unnt var að ganga frá þeim málum var nauðsynlegt að eiga viðræður við yfirvöld bæði í Sviss og Þýskalandi alveg sérstaklega, og ég hef áður rakið hér ítarlega hvenær þær umræður fóru fram og hvernig þær fóru fram. Ég hef rakið þátt flugmálastjóra í því. Hann fór út og ræddi við þessi yfirvöld. Það var ekki fyrr en þessu var öllu lokið, m.a. eftir að forstjóri Arnarflugs hafði farið til Þýskalands til að ganga frá fargjaldahugmyndum og þess háttar í samræmi við þær reglur sem þar gilda, að unnt var að veita endanlegt leyfi. En Arnarflug hafði vilyrði fyrir leyfinu löngu áður en umrædd kaup komu til, og endanlegt leyfi fékk það reyndar áður en endanlega var gengið frá kaupunum, þannig að ef það hefði haft áhrif hefði það vitanlega getað hætt við kaupin þess vegna. Búið var að ganga frá leyfunum áður en frá kaupum var gengið.

Hv. þm. Árni Gunnarsson segir að það sé eitthvað óhreint í pokahorninu. Ég mótmæli því. Ef einhver ólykt er af þessu máli stafar hún af honum en ekki af öðrum. Ég vil leyfa mér að segja það því að það er hv. þm. sem hér þyrlar upp moldryki dag eftir dag. Þarna er um viðskipti tveggja sjálfstæðra aðila að ræða, og ég hef, eins og ég hef margsinnis sagt, ekki talið mér skylt eða heimilt að krefja þá í smáatriðum um upplýsingar um það sem þar er að gerast. Það geta vitanlega hluthafar þessara félaga. Þeir hljóta að gæta sinna hagsmuna. Og ég veit ekki betur en fulltrúar Flugleiða hafi krafist upplýsinga og ég veit ekki betur en það, sem mér var sagt í morgun, að ekkert stæði á þeim upplýsingum. Annars hefur mér heyrst hv. þm. hafa þær upplýsingar svo að segja allar, meira að segja það sem mér hefur verið tjáð að væri trúnaðarmál innan félagsins og hann las hér upp í umr. og — eins og kom greinilega fram í því sem hv. þm. Albert Guðmundsson sagði um það mál — þá var talið trúnaðarmál og ég hef ekki fengið aðgang að. Ég vil spyrja hv. þm.: Hver afhenti honum þessar upplýsingar? Mér leikur forvitni á að vita það. Mundi hann vilja svara þeirri spurningu frá mér?