20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4004 í B-deild Alþingistíðinda. (3553)

249. mál, aukaþing til að afgreiða nýja stjórnarskrá

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég held að þessi till. um að kalla saman sérstakt aukaþing til að afgreiða nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið sé flutt í ákaflega miklum flýti. Ég held að það sé engin ástæða til að kalla saman sérstakt aukaþing til þess að fjalla um stjórnarskrána. Ég minni á það sem Alþingi hefur áður samþykkt í þessum efnum, vitna í samþykktina frá 6. maí 1978 þar sem segir: „Alþingi ályktar, að þar sem sex ár eru liðin síðan stjórnarskrárnefnd var kosin og það er lengri tími en venjulegur kjörtími þingkjörinna nefnda og ráða, skuli að loknum kosningum til Alþingis tilnefna að nýju níu menn í stjórnarskrárnefnd af hálfu þeirra stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á nýkjörnu Alþingi og í hlutfalli við þingmannatölu þeirra. Skal hin nýja nefnd skila innan tveggja ára álitsgerð og tillögum um endurskoðun stjórnarskrárinnar og taka sérstaklega til meðferðar k]ördæmaskipun, kosningaákvæði stjórnskipunarlaga, skipulag og starfshætti Alþingis og kosningalög.“ M.ö.o.: kjörtímabil stjórnarskrárnefndar er í raun og veru úti fyrir áramót 1980 samkv. þessari ályktun Alþingis.

Ég vil á engan hátt gera litið úr störfum stjórnarskrárnefndar og því síður gera lítið úr því verki sem hefur verið unnið einkum af starfsmanni nefndarinnar, sem hefur verið, og þeim sérfræðingum, sem til hefur verið leitað. Þeir hafa allir sýnt mikla vandvirkni í störfum og nefndin í heild hefur fjallað um þetta. En verkefni stjórnarskrárnefndarinnár hafa fyrst og fremst snúist um fyrstu 29 greinar stjórnarskrárinnar, en mun minna um kjördæmaskipun og kosningaákvæði stjórnskipunarlaga. Hins vegar má segja að eftir að skýrslurnar voru gefnar út hafi starf nefndarinnar verið ærið slitrótt og mjög lítið í vetur, að undanskildu því að nú fyrir nokkru voru þrír fundir haldnir með stuttu millibili.

Ég tel að það hefði átt að vera búið að vinna að því, einkum af formönnum stjórnmálaflokkanna, — ég er á engan hátt að kasta rýrð á formenn þingflokka með því, en ég hef talið að hitt væri vænlegra, að formenn stjórnmálaflokkanna töluðu í alvöru um þessi mál og reyndu að finna sameiginlega lausn sem helst allir flokkar gætu sætt sig við.

Í grg., sem fylgir till. Alþfl., segir: „Alþfl. vill að kjördæmaskipun og kosningalöggjöf verði breytt. Að leiðarljósi verður að hafa réttlæti milli einstakra byggðarlaga, jöfnun atkvæðisréttar og hagsmuni hinna dreifðu byggða.“ Nú langar mig að spyrja: Hvernig hugsar flokkurinn sér að jafna atkvæðisréttinn? Á að gera vægi atkvæða jafnt hvar sem menn eru búsettir? Á hvern hátt á þá að tryggja hagsmuni hinna dreifðu byggða jafnhliða þessu?

Síðan segir: „Stjórnarskráin þarf að tryggja að þingstyrkur stjórnmálaflokkanna sé jafnan í fullu samræmi við kjörfylgi þeirra:“ Alþfl. segist vera reiðubúinn að ræða hugmyndina um Ísland allt sem eitt kjördæmi, skiptingu landsins í kjördæmi eftir fjórðungum auk Reykjavíkur og endurbætur miðað við sömu kjördæmaskiptingu og nú gildir, og þá eigi að setja ákvæði um endurútreikning þingmannatölu hvers kjördæmis á tíu ára fresti til að hindra óeðlilega röskun.

Ég tel að það taki því eiginlega ekki að nefna hugmyndina um að Ísland verði eitt kjördæmi, því um það verður aldrei samkomulag. Annar fulltrúi Alþfl. í stjórnarskrárnefndinni hefur lýst því yfir, að þetta sé ekki lengur stefnumál Alþfl., og það er ekki stefnumál hinna flokkanna heldur. Þar af leiðandi er þessi hugmynd ekki inni í þessari mynd. Hugmyndin um kjördæmi eftirfjórðungum utan Reykjavíkur hefur aldrei verið rædd neitt að ráði, hvorki í nefndinni né á milli flokka. Hins vegar hefur nokkuð verið rætt um endurbætur frá núverandi kjördæmaskipun, en þó sérstaklega að skipta a.m.k. einu kjördæmi. En þá mundu fleiri fylgja í kjölfarið, það vitum við. Ég tel aftur að ákvæðið, sem um er getið í grg. með till. þeirra Alþfl.-manna, um endurútreikning þingmannatölu hvers kjördæmis á tíu ára fresti til að hindra óeðlilega röskun, eigi fyllilega rétt á sér og ætti að ræða ítarlega.

En nú er svo komið að stjórnarskrárnefndin þarf að fara eftir því hver er vilji þingflokkanna.

Sjálfstfl. hefur markað afar skýra stefnu í þessu máli og rætt það bæði í flokksráði, í sérstakri fjölmennri nefnd innan flokksins og sömuleiðis mjög ítarlega á síðasta landsfundi. Þar eru, eins og í öðrum flokkum, mjög skiptar skoðanir í þessu máli. En ég held að mér sé óhætt að fullyrða að menn hafi allir sæst á að leggja til grundvallar þær breytingar sem orðið hafa frá því að síðasta kjördæmaskipun var sett og þingmannafjöldi ákveðinn. Frá þeim tíma hefur orðið veruleg breyting á fjölda fólks í einstökum kjördæmum. Því verður ekki í móti mælt, að í kjördæmi þar sem hefur fjölgað um yfir 140%, svo sem er í Reykjaneskjördæmi, þar hefur þetta hlutfall raskast mjög frá því að síðasta kjördæmaskipun var sett. Reykjavík er með rúmlega meðaltalsfjölgun yfir landið. Það hefur því hallað á Reykjavík. Við, sem tilheyrum hinum svokölluðu strjálu byggðum, viðurkennum það, a.m.k. flestir sem vilja vera sanngjarnir, að hér hefur orðið veruleg breyting frá síðustu kjördæmaskipun sem við teljum eðlilegt að sé leiðrétt. Sjálfstfl. hefur bent á að erfitt væri að ná samkomulagi um að fækka þingmönnum nokkuð. Einkum er þá Reykjaneskjördæmi haft í huga. Þar hafa menn nefnt fjölgun um þrjá til fjóra þingmenn frá núverandi þingmannafjölda, og í Reykjavík er rætt um að fjölga þingmönnum úr 12 í 15.

Þá komum við aftur að því erfiða hlutskipti að úthluta uppbótarþingsætum. Flestir, sem ég hef heyrt ræða þetta mál hleypidómalaust, hafa viljað halda sig við sömu tölu uppbótarþingmanna og verið hefur um langt árabil. Aðrir vilja hafa það hámarkstölu sem fer eftir jöfnun á milli flokka. Ef við höldum lengra verðum við að játa það, að með breytingunni, sem gerð var 1958, náðist mjög þokkalegt jafnvægi á milli flokka sem hefur haldist nokkuð sæmilega allan þennan tíma, þó að nokkru meira bil hafi orðið í síðustu kosningum, þar sem Framsfl. hefur fengið tiltölulega flesta þm. kjörna eða fleiri en aðrir flokkar sem allt þetta tímabil hafa skipt uppbótarþingsætunum á milli sín.

Ég tel að það sé eðlilegt við úthlutun uppbótarþingsæta að taka meira tillit til hinna stærri kjördæma, en á engan hátt að útiloka landskjörna þingmenn eða uppbótarþingmenn úr minni kjördæmunum. Ég tel fyrir mitt leyti það mjög koma til greina, að fyrsti uppbótarþingmaður komi á tölu eins og nú er, annar á hlutfall eins og nú er, en síðan þriðji og fjórði á tölur, ef það mætti verða til þess að sætta menn frekar við þessa breytingu.

Þeir aðilar, sem heimta fullkomið vægi atkvæða, eru um leið að leggja það lóð á vogarskálina, að samkomulag næst ekki um afgreiðslu málsins. Þess vegna hygg ég að það sé betra fyrir alla, fyrir fjölmennu kjördæmin Reykjanes, Reykjavík og Norðurland eystra, þar sem mjög kemur til álita að fjölga um einn þingmann, að þau hagi sinni kröfugerð með þeim hætti að leitast við að vinna upp þá röskun sem orðið hefur frá því að síðasta breyting var gerð. Þetta gerir það að verkum, að við, sem erum hér fulltrúar fyrir strjálbýlið, fyrir minni kjördæmin, erum miklu frekar til viðræðna um að fylgja þeirri breytingu fram. Við getum ekki neitað því, að með því að láta þetta bíða áratugum saman er verið að kynda elda óánægju í hinum stóru kjördæmum. Ég leyfi mér að hafa þessa skoðun þó að ég viti að víða úti um land hafa menn töluverðan ótta af því sem kann að gerast. En þetta er það sem hefur verið að gerast í þessum málum, og það er eðlileg þróun. En við verðum að vera um leið nokkuð íhaldssamir því að við vitum það, að þó þeir sem búa í hinum strjálli byggðum hafi meira vægi í sambandi við kjör þingmanna á löggjafarsamkundu, þá þarf líka að taka tillit til þess, hvar Alþingi er, hvar stjórnvaldið og framkvæmdavaldið er. Það verður líka að meta í þessu tilfelli.

Hér næst ekkert fram nema með því að menn sýni á báða bóga í fyrsta lagi víðsýni og í öðru lagi sanngirni. Þá er hægt að ná endum saman, þá er hægt að ná þeim árangri sem flestir landsmenn ættu að geta sætt sig við. Ég tel því að það, sem mest ríður á að gera, sé að formenn stjórnmálaflokkanna, og þá nefndir þeirra með formönnunum, setjist niður og ræði um lausn þessa máls og láti ekki þessa endurskoðun eiga sér lengri undirbúning en þegar er orðið. Þetta er orðinn óhæfilegur dráttur, sem ég ætla engum einum að kenna um, þar munu vera margir sekir.

Ég hjó eftir einu í ræðu hv. 11. þm. Reykv. Hann talaði um það að kjósa á öðru misseri árið 1984. Mér þykir karl ætla að lengja kjörtímabilið. Það er gott að hann kemur inn. Hann talaði um að kjósa þegar komið væri á annað misseri árið 1984. Ég veit ekki betur en að það eigi að kjósa á fjögurra ára fresti. (ÓRG: Já, seinni kosninguna.) Seinni, já. Það tók ræðumaður ekki fram. (ÓRG: Jú, jú.) Þá hef ég misskilið hann, því ég skrifaði þetta eftir honum. En hvað sem hann lofar nú ágæti desemberkosninga, þrátt fyrir mikla andstöðu; þá held ég að allir hljóti að vera sammála um það, að þó ekki séu liðin fjögur ár í júnímánuði eigum við að halda okkur við þann mánuð sem kosningar eiga að fara fram í, og þá er það auðvitað innan fjögurra ára. Ég held að um það eigi ekki að þurfa að verða deilur, þó að okkur greini nú á um flest, Íslendinga. Við eigum ekki að gera desember að föstum kosningamánuði. En hitt tek ég alveg undir með hv. þm., að þær kosningar lukkuðust bara vel og það eru mjög breyttar aðstæður frá því sem var, en sumir hafa haldið sér alveg dauðahaldi í að það væri eiginlega dauðasynd stjórnmálamanna að fara út í vetrarkosningar.

Ég tel að vegna þeirra umr., sem hér hafa átt sér stað, hafi verið nauðsynlegt að fram kæmi þetta sjónarmið mitt og einnig sjónarmið Sjálfstfl., sem hefur tekið þá ákvörðun í þessu máli að leita samninga á þeim grundvelli sem ég hef verið að skýra. Ég endurtek það svo, að ég tel ekki þörf að kalla saman sérstakt aukaþing. En á hinu er þörf, að stjórnmálaflokkarnir í landinu setjist á rökstóla, ekki hér í 60 manna þingi, heldur fyrst og fremst í nefndum, til þess að finna lausn á þessu máli. Ég er sannfærður um að það er í reynd vilji fyrir hendi hjá öllum flokkum að reyna að leysa þetta mál á eitthvað svipaðan hátt og ég hef verið að skýra hér í þessu máli mínu.