21.04.1982
Neðri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4073 í B-deild Alþingistíðinda. (3636)

207. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. er þess efnis, að við 1. gr laga nr. 10 22. mars 1960, um söluskatt, bætist svofellt ákvæði til bráðabirgða:

„Af innheimtum söluskatti af bensíni tímabilið 2. mars til 31. des. 1982 skulu renna kr. 0.09 af hverjum lítra til framkvæmda í vegamálum 1982.“

Það hefur orðið margföldun á innkaupsverði á bensíni á undanförnum árum, sem hefur verið notuð til fjáröflunar fyrir ríkissjóð. Í byrjun síðasta mánaðar hækkaði hver lítri bensíns um 1 kr. eða 100 gkr. Af þeirri hækkun runnu 39 aurar í bensíngjald, en á þá 39 aura var lagður söluskattur að upphæð 9 aurar.

Með þessu frv. er lagt til að sá söluskattur, sem kemur á þessa bensínhækkun, renni til framkvæmda í vegamálum. Er ætlað að sú upphæð nemi á 10 mánuðum, eins og frv. gerir ráð fyrir, um 9 millj. kr. Ég tel mjög eðlilegt að sú tekjuaukning sem verður vegna þessara hækkana renni til þessa sérstaka verkefnis, sem vantar allmikla fjármuni í til þess að standa áætlun eins og gengið var frá vegáætlun fyrir ári.

Fjh.- og viðskn. var ekki á eitt sátt um afgreiðslu þessa frv. Meiri hl. nefndarinnar, sem undirritar nál. á þskj. 642, mælir með samþykkt frv., en minni hl. nefndarinnar skilar séráliti.