24.04.1982
Neðri deild: 70. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4157 í B-deild Alþingistíðinda. (3778)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég get vel lýst stuðningi við þetta frv., en mér finnst ekki hægt að láta hjá líða að benda á að skoðun mín er sú, að það hefði verið eðlilegt í sambandi við frv. til l. um breyt. á lögum um viðlagatryggingu að taka inn í þessa tryggingu tjón af völdum ofviðra. Það hefði átt að taka inn í 4. gr. frv. Eins og hv. þm. geta séð í grg. með frv. var mjög leitað á þá sem sömdu frv. um að svo yrði gert. Ég segi það hér í ljósi þeirra staðreynda, að orðið hafa mjög mikil tjón af fárviðri eða ofviðri hér á landi sem hafa valdið miklu tjóni og erfiðleikum í sambaandi við uppgjör. Yfirleitt hafa Íslendingar t.d. húseigendur og margir aðrir aðilar, svo sem gróðurhúsaeigendur og fleiri, orðið fyrir gífurlegu tjóni af þessu. Hafa verið miklir erfiðleikar á að bæta þessi tjón. Hefði því verið eðlilegt að mínu mati að taka þetta inn í lög um viðlagatryggingu. Hins vegar vil ég ekki fara að gera neinar brtt. nú því að þetta mál þarf að fara í gegn.

Ég vil benda á og taka undir það sem hæstv. ráðh. kom inn á áðan í sambandi við Bjargráðasjóð, að þar stendur upp á Alþingi að taka til meðferðar stórt mál. Ég hefði talið að það hefði átt að vera komin fram miklu fyrr lagabreyting að því er varðar Bjargráðasjóð því að það er til vansa að tilgangur þess sjóðs skuli ekki hafa verið útfærður nánar en nú er. Bjargráðasjóður er nauðsynlegur. Ég vænti þess, að þegar gerð verður gangskör að því að endurskoða lögin um Bjargráðasjóð komi þessi atriði öll til athugunar nánar því að á því er full þörf. Að öðru leyti mun ég ljá þessu frv. atkv. mitt.