27.04.1982
Sameinað þing: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4209 í B-deild Alþingistíðinda. (3875)

119. mál, afgreiðsla ríkisstjórnarinnar á frumvarpi um söluskatt

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég tek undir það með hæstv. fjmrh., að þetta mál er síður en svo einfalt úrlausnar, en eins og kerfið er núna er það afhending vörunnar til hins endanlega kaupanda sem ræður því, hvort söluskattur er greiddur af flutningum eða ekki. Ef maður t.d. hugsar sér að húsbyggjandi eigi viðskipti við verslunarfyrirtæki á staðnum og viðskiptunum er hagað með þeim hætti, að kaupandinn fær vöruna afhenta í Reykjavík og greiðir sjálfur flutningskostnað hennar, t.d. norður á Kópasker, en þangað er alllangur spölur héðan frá Reykjavík, og hún færi með bil eða skipi, þá mundi hinn endanlegi kaupandi losna við að greiða söluskatt af flutningskostnaðinum. Á hinn bóginn liggur það fyrir, ef maður hugsar sér að varan sé afhent endanlega á Kópaskeri, að þá fellur söluskattur á vöruna. Það er rétt hjá hæstv. fjmrh., að þegar um smáar fjárhæðir er að ræða skiptir þetta kannske ekki ýkjamiklu, en hins vegar getur dæmið breyst ef um mjög veruleg viðskipti er að tefla. Ég sé ekki annað, eins og þessum málum er háttað nú, en verslunaraðilar úti í strjálbýlinu verði að reyna að haga viðskiptum svo við sína viðskiptavini að flutningskostnaðurinn komi ekki inn í viðskiptaveltu viðkomandi fyrirtækis, heldur greiðist beint af kaupanda vörunnar. Þá losnar hann við söluskattinn.

Ég tek undir það, að auðvitað er mjög flókið mál, einkanlega í smásölu, þar sem verslað er með smáhluti, að halda flutningskostnaðinum aðgreindum, en á hinn bóginn er hér um mikið réttlætismál að tefla. Ég varpa nú fram þeirri spurningu, hvort ekki sé hægt að taka tillit til þessa t.d. í sambandi við persónufrádrátt til skatts eða eitthvað þvílíkt, því að ég sé satt að segja ekki hvernig hægt sé að koma þessu við með öðrum hætti.