27.04.1982
Sameinað þing: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4212 í B-deild Alþingistíðinda. (3880)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég lagði hér fram fsp., sem útbýtt var í þingi 10. nóv. á s.l. ári, þar sem óskað var eftir upplýsingum um utanlandsferðir á vegum Alþingis, ríkisstj. og ríkisstofnana að meðtöldum ríkisbönkum á árinu 1980 og það sem af var árinu 1981. Þessari fsp. óskaðist svarað skriflega.

Ég spurðist fyrir um, hvenær vænta mætti svars, nokkru eftir jólaleyfi eða í byrjun febrúarmánaðar, en nú er að líða að þinglokum og 51/2 mánuður liðinn frá því að þessari fsp. var útbýtt. Ekkert hef ég heyrt frá forsrn. eða forseta Alþingis um hvort það sé von á þessu svari eða ekki.

Ég tel hér vera um að ræða þingskyldu sem viðkomandi aðilar hafa, að það beri að svara fsp. Ég var ekki með neina kröfu um að þetta svar bærist innan nokkurra daga. En það er ekki vonlaust fyrir stofnun eins og Alþingi Íslendinga, sem setur þegnum þjóðfélagsins fjölmörg lög þar sem þeir eru krafðir um upplýsingar og gögn í hendur embættismanna, og stofnana, eins og t.d. skattayfirvalda, sem krefjast upplýsinga yfirleitt með 10 daga fyrirvara, að svara ekki í 51/2 mánuð. Því vil ég leyfa mér að beina í fyrsta lagi þeirri fsp. til hæstv. forsrh., hvort þessari fsp. verði svarað áður en þingi lýkur. Í öðru lagi: Ef svo er ekki hver er ástæðan fyrir því, að þetta svar fæst ekki? Hvað er verið að fela? Hver er það sem vill ekki svara? Mér er kunnugt um að forsrn. sendi fsp. strax til hinna ýmsu stofnana. Þá vil ég fá að vita og tel að þingið eigi kröfu á að fá að vita hverjir það eru sem hafa svarað og hverjir hafa ekki svarað og hvaða ástæður liggja til grundvallar því, að þeir, sem ekki svara, hlýða ekki því að svara fsp. sem bornar eru fram með þinglegum hætti?

Ég vil taka það fram hér til að forðast allan misskilning, að ég er ekki að flyt ja þessa fsp. af þeirri ástæðu að ég telji að ríkisstj., Alþingi og ríkisstofnanir eigi ekki að sinna því samstarfi sem nauðsynlegt er við erlendar stofnanir og ráð og sérstaklega þó þar sem Ísland hefur gerst aðili. Hins vegar tel ég að svar við fsp. sem þessum sé æðimikið aðhald og hvetji til að fara varlega í sakirnar. Á sama tíma og öllum er sagt að beita aðhaldi held ég að ríkisstj., Alþingi, ríkisbankar og aðrar ríkisstofnanir eigi að gera það einnig. Það er ekki lítið fjármagn sem fer í þessar ferðir. Hæstv. fjmrh. hefur skrifað dreifibréf til stofnana, þar sem hann hefur óskað eftir að dregið sé úr þessum ferðum og kostnaði á þann hátt stillt í hóf. Eitthvað hefur komið á daginn sem gerir það að verkum, að rn. og hæstv. fjmrh. skrifa þetta bréf.

Ég skal ekki eyða dýrmætum tíma þingsins á síðustu dögum til að tala um þessi mál öllu meira. Ég vil aðeins skýra, af hverju ég bar fram þessa fsp., og spyrjast fyrir um, af hverju þessi svör koma ekki og hverjir það eru sem hundsa vilja Alþingis að svara þegar um er beðið.