27.04.1982
Sameinað þing: 81. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4267 í B-deild Alþingistíðinda. (3912)

364. mál, utanríkismál 1982

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil segja það fyrst vegna þeirrar ræðu sem hv. 12. þm. Reykv. hélt áðan, að það var út af fyrir sig skiljanlegt að hann skyldi hafa orð á því, að menn mættu ekki brosa að sínum málflutningi né að sínum tillöguflutningi og ekki þykja hann hlægilegur, því að satt best að segja hélt ég að menn hefðu sannfærst um það, a.m.k. eftir að hafa hlýtt á viðtöl við Halldór Laxness nóbelsskáld um friðarhreyfingar og annað því um líkt, litla friðarklúbba, að það væri kannske nóg talað í slíkum klúbbum og skipti ekki miklu máli þótt einn klúbburinn bættist við. En á það vil ég minna, að nú í júnímánuði á að efna til auka allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, þar sem friðarmálin verða rædd, og ég get satt að segja ekki séð hvað sé því til fyrirstöðu, að Íslendingar kynni sín mál þar og komi því á framfæri sem hv. þm. hafði miklar áhyggjur af að umheimurinn vissi ekki um.

Nú getur það auðvitað verið rétt, að það sé skemmtilegt að fá fræga gesti til Íslands. En ef menn vilja efna til alþjóðlegrar friðarráðstefnu hér á Íslandi um afvopnun á Norður-Atlantshafi verða menn náttúrlega í þessari þáltill. að tala um evrópskar friðarhreyfingar. Sumar þeirra a.m.k. hafa þegið sovéskt fé, án þess að ég ætli að fara út í það hér. Þá verða menn að gera sér grein fyrir því, um hvað eigi að tala, hverju menn ætli að ná fram, hver sé tilgangurinn. Að öðrum kosti getur slíkur fundur ekkert orðið annað en rabbfundur, einskisnýtur og gagnslaus, og breytir í rauninni engu um þá þróun sem orðið hefur. Það er auðvitað alveg augljóst mál, að tíðari ferðir kjarnorkubáta um Norður-Atlantshaf frá Sovétríkjunum eru staðreynd sem við Íslendingar getum engin áhrif haft á. Ekki er við því að búast að þeir hrökkvi mikið í kút austur þar þótt við reynum að brýna róminn hér heima. En hitt er rétt, að það er alltaf gaman að heyra í þessum hugsjónamanni og með ræðu sinni sannaði hann náttúrlega það, hvílíkan siðferðilegan styrk þarf í rauninni til þess hjá hinum frjálsu þjóðum að standa á verði og leggja nægilegt fjármagn fram til þess að tryggja öryggi sitt og varnir.

En erindi mitt hingað í ræðustólinn var ekki að ræða þau mál, heldur hitt, að mjög alvarlegir atburðir hafa verið að gerast hér varðandi okkur íslendinga upp á síðkastið, ekki síst í Nígeríu. Nú er svo komið að Seðlabankinn hefur stöðvað lánsfyrirgreiðslu, afurðalán út á skreið, og þótt sendinefnd sé þar suður frá til viðræðna við nígerísk yfirvöld liggur ekkert fyrir um það á þessari stundu, að markaðurinn í Nígeríu opnist í þeim mæli sem okkur er nauðsyn á.

Í viðtali við sendiherra Nígeríu, sem hér var fyrir skömmu, kemur m.a. fram að töluverðar birgðir af skreið eru nú í Nígeríu, en á hinn bóginn hefur efnahag landsins hrakað mjög, sem á rætur sínar að rekja til þess, að olíuframleiðslan þar hefur minnkað um helming, auk þess sem verðið hefur lækkað verulega eða um þriðjung, að ég ætla. Sendiherra Nígeríu fór ekki dult með það, að honum væri mjög í mun og þeim Nígeríumönnum að umræður hæfust um það, hvort ekki væri hægt að koma á gagnkvæmum viðskiptum milli landanna. Ræddi hann sérstaklega um nígeríska olíu í því sambandi, en minntist einnig á aðrar vörutegundir, eins og kakaó, grænmeti og ávexti. Hann taldi einnig eðlilegt að menningarleg og viðskiptaleg tengsl Nígeríu og Íslands yrðu nánari en nú er og reynt yrði að auka samskipti landanna með margvíslegum hætti, en eins og við vitum hafa þessi viðskipti ekki aðeins verið á sviði skreiðarsölu, heldur hefur einnig verið um töluverð viðskipti í flugmálum að ræða milli þessara tveggja landa og allt okkur til góðs og tekna.

Ef litið er yfir það, hvernig viðskiptum þessara landa hefur verið háttað á undanförnum árum, kemur í ljós að Nígería varð á síðasta ári þriðja stærsta útflutningsland okkar næst á eftir Bandaríkjunum og Bretlandi. Á árinu 1980 var hún í fjórða sæti, en hins vegar á árinu 1979, þegar stöðvunin var, datt Nígería niður í 19. sæti úr 6. sæti sem það land hafði verið í áður. Við munum að þetta hafði mjög örlagarík áhrif á afkomu skreiðarvinnslunnar á sínum tíma og verulegt tap varð á þeirri vinnslu. Þótt svo hafi hins vegar brugðið við nú á síðustu 2–3 árum að dæmið hafi algerlega snúist við og þarna hafi orðið mjög verulegur hagnaður.

Til þess að gera myndina ljósari hef ég tekið það saman hvernig viðskiptum okkar við Nígeríu hefur verið háttað á undanförnum þrem árum. Þá kemur í ljós — í nýkr. allt saman — að útflutningur okkar til Nígeríu á árinu 1979 var 25 millj. kr., en innflutningurinn aðeins 7 millj. Á árinu 1980 var útflutningurinn 317–318 millj. kr., en innflutningurinn 41 þús. kr. Og á s.I. ári fór útflutningurinn upp í 858 millj. kr., en við keyptum þaðan í staðinn fyrir 188 þús. kr. Ég held að þessi litli innflutningur skýrist af því, að það getur naumast verið um annað að ræða en að kosta skip þangað og eitthvað þvílíkt. Í rauninni er ekki um gagnkvæm viðskipti að ræða, en á hinn bóginn eru þessi viðskipti það ótrygg að nauðsynlegt er að huga mjög að þeim.

Ég vil minna á að meðal þeirra manna, sem gerst þekkja til, eins og forustumanna í samtökum skreiðarframleiðenda, hefur það mál verið tekið upp og rætt æ ofan í æ, að sérstakt sendiráð verði opnað í Nígeríu. Hinn 4. mars s.l. samþykkti aðalfundur Samlags skreiðarframleiðenda svohljóðandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur Samlags skreiðarframleiðenda, haldinn í Reykjavík 4. mars 1982, skorar á ríkisstj. að koma sem fyrst á nánara stjórnmálasambandi við Nígeríu með því að skipa sérstakan sendiherra Íslands gagnvart Afríkuríkjum með aðsetri í Nígeríu. Á þessu ári má áætla að um fjórðungur þorskafla Íslendinga fari í skreiðarverkun, þar sem hún er ein mikilvægasta verkunargreinin. Nígería verður því áfram eitt almikilvægasta viðskiptaland okkar.“

Því er svo við að bæta, að Afríka sem heild er að verða æ þýðingarmeiri í viðskiptum heimsins og full nauðsyn á því að íhuga viðskiptahagsmuni okkar þar og treysta stöðu okkar þar. Eins og fram kemur í skýrslu hæstv. utanrrh. hefur sérstakur viðskiptafulltrúi nú verið staðsettur í London til þess að huga sérstaklega að Nígeríuviðskiptunum. Það er einnig rétt, að skreiðarframleiðendur hafa verið mjög ánægðir með þau afskipti sem núv. sendiherra okkar í London, Sigurður Bjarnason, hefur haft af þessum málum. Samt sem áður held ég að nauðsynlegt sé að athugað verði mjög gaumgæfilega hvort ekki sé rétt að slíkt sendiráð verði opnað í Nígeríu og bráður bugur undinn að því að reyna að auka viðskiptin og athuga sérstaklega í því sambandi olíuna. Eins og ég sagði áðan stafa efnahagsörðugleikar Nígeríu fyrst og fremst af því, að olíuviðskipti hafa dottið niður. Það mundi áreiðanlega þykja mikill fengur að því þar í landi ef þeir yrðu varir við áhuga Íslendinga á olíukaupum.

Þá er það einnig áhyggjuefni skreiðarframleiðenda, að okkar sölumál þar séu ekki í nógu föstum skorðum. Ég hygg að óhætt sé að segja að nauðsynlegt sé að taka þau öll til endurskoðunar, og ekki aðeins sölumálin, heldur einnig verkun skreiðarinnar hér heima og hvernig að henni er staðið. Á ég þá kannske ekki síst við þorskhausana, en við höfum heyrt — eflaust allir — mjög ævintýralegar sögur af því, hvernig sú verkun hefur gengið og að henni hefur verið staðið.

Í nánum tengslum við þetta mál er náttúrlega sá mikli munur sem er á inn- og útflutningi í viðskiptum okkar við Portúgal. Það er í raun og veru sömu sögu af því að segja. Portúgal var á s.I. ári fjórða stærsta viðskiptaland okkar og hefur verið í röð sjö stærsta útflutningslanda okkar í kannske 10–20 ár, en á hinn bóginn hefur verið mjög mikil krafa um það frá portúgölskum stjórnvöldum, að við legðum meiri áherslu á innflutning þaðan en verið hefur. Ég þykist vita að á því séu ýmsir annmarkar, en ég held samt sem áður að nauðsynlegt sé að huga að þeim málum og kosta kapps um að jafna þann mun sem verið hefur á viðskiptunum við Portúgala.

Ef við skyggnumst þrjú ár aftur í tímann kemur í ljós að á árinu 1979 munaði ekki ýkjamiklu, vegna togarakaupa m.a. Þá fluttum við til Portúgals saltfisk fyrir 98 millj., en keyptum þaðan fyrir 75 millj. Á næsta ári varð munurinn miklu meiri. Við fluttum þangað saltfisk fyrir 212 millj., en keyptum þaðan vörur fyrir 119 millj., og á s.l. ári varð munurinn gífurlegur. Útflutningur okkar á saltfiski til Portúgals nam 702 millj., en innflutningurinn aðeins 135 millj. kr. Ég held að það þurfi mjög að huga að þessum málum báðum. Ég minni á ummæli Tómasar Þorvaldssonar, formanns samtaka saltfiskframleiðenda í „Ægi“ á árinu 1979. Þar sagði hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir efnahagserfiðleikar, sem Portúgalir hafa átt við að stríða, jukust enn á árinu 1978, og þar kom á miðju ári 1978, að þeir treystu sér ekki til að standa við þá samninga sem þeir höfðu gert við Sölusambandið fyrr á árinu, nema því aðeins að til kæmu aukin kaup Íslendinga frá Portúgal. Reyndi mjög á Sölusambandið og íslensk stjórnvöld við að leysa það mál.“

Ég rifja þetta upp til að hvetja til þess, að Íslendingar eigi frumkvæði að því að viðræður hefjist um með hvaða hætti sé hægt að auka viðskipti landanna og efla tengsl þeirra með einum eða öðrum hætti.

Ég vil svo almennt segja það, að ástandið á okkar fiskmörkuðum erlendis er auðvitað mjög alvarlegt. Í Noregi standa sakir þannig að skreiðarframleiðslan hefur aukist um 100%. Og eftir því sem ég veit best standa sakir þannig hér á landi á þessu ári, að bæði saltfisksverkun og skreiðarverkun hefur aukist um 30% frá því sem var á s.l. ári. Hins vegar hefur dregið mjög úr frystingunni. Í ársskýrslu Seðlabankans segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Árið 1981 einkenndist af mjög miklu misræmi á milli afkomu einstakra fiskvinnslugreina. Sama var einnig uppi á teningnum árið 1980. Er nú svo komið, að þessi misþróun er farin að segja nokkuð til sín í breyttri samsetningu sjávarafurðaframleiðslunnar. Frystingin stóð höllum fæti árið 1980 og á árinu 1981 hallaði fremur á.“

Síðan, ef könnuð er hver hlutfallsleg skipting útflutnings sjávarafurða hefur verið á undanförnum árum, kemur í ljós að frystar botnfiskafurðir hafa minnkað úr 44.6% niður í 33.6% á árunum 1977–1981 og aðeins frá árinu 1980 hafa þær dregist saman úr 38.2% í 33.6%. Á sama tíma hefur saltfiskurinn mjög aukið hlutdeild sína og sömuleiðis skreiðin, sem hefur aukist úr 2.5% 1979 í 15.9% á þessu ári. Það hefur ekki farið leynt, að ýmsir af forustumönnum hraðfrystiiðnaðarins hafa látið í ljós áhyggjur yfir því, að svo kunni að fara að þessi óheillaþróun valdi því, að við stöndum höllum fæti á Bandaríkjamarkaði, vegna þess að við eigum ekki nægilegar afurðir til að mæta eftirspurninni, svo að Kanadamenn kunni að koma inn í það tómarúm sem þar myndast. Skýringin á þessu er að sjálfsögðu sú, að þannig hefur verið staðið að atvinnumálum hér heima og gengisskráning hefur verið með þeim hætti, að fiskframleiðendur hafa hlaupið í það skjólið að minnka frystinguna, en auka á hinn bóginn skreiðina og saltfiskverkunina til þess að styrkja rekstrargrundvöll fyrirtækja sinna og koma í veg fyrir stöðvun þeirra. Þau frystihús, sem eingöngu hafa verið með frystingu, hafa tapað allverulegu fé, en á hinn bóginn hefur mjög mikill gróði myndast í saltfiskinum — og skreiðinni líka ef sölumálin leysast núna, en það verður auðvitað fljótt að vindast ofan af því ef skreiðarmarkaðirnir opnast ekki að nýju.

Þessi þróun er auðvitað afleiðing af því, á s.l. ári sérstaklega, að ríkisstj. notaði ekki þann hvalreka, sem hækkun dollarans var, til þess að styrkja stöðu íslenskra atvinnuvega til þess að safna í sjói og til þess að treysta sérstaklega stöðu frystiiðnaðarins. Þetta mikla happ ætlar að snúast okkur til ógæfu af því að illa var að málum staðið. í staðinn fyrir að miða rekstrargrundvöll fiskvinnslunnar við það, að hraðfrystiiðnaðurinn gæti gengið með eðlilegum hætti, og taka þá heldur kúfinn af í skreiðarframleiðslunni og saltfiskframleiðslunni, var þeirri stefnu haldið til streitu í blekkingarskyni, til þess að koma verðbólgunni niður í einhverja ímyndaða tölu, að eyða hinum mikla gróða þegar í stað. Þó fór svo á s.l. ári að erlend lán til neyslu jukust mjög verulega. Við sjáum nú hvernig sakir standa í dag. Það er nokkur kvíði fyrir því, hvort okkur takist að losa okkur við þann saltfisk, sem verkaður hefur verið, á viðunandi verð, ég tala nú ekki um skreiðina, á sama tíma og hallar undan fæti í hraðfrystiiðnaðinum og á Bandaríkjamarkaði.

Alþb. alveg sér í lagi ætti að þykja þetta slæm þróun vegna þess að talsmann þess hafa a.m.k. í orði kveðnu viljað halda því fram, að þeir vilji sem mesta fullvinnslu sjávarafla hér heima. En þróunin hefur orðið öfug. Eftir því sem fleiri hendur hafa þurft að snerta á framleiðslunni hefur tapið orðið meira. Allt bendir nú til þess að við séum að snúast upp í enn frumstæðara veiðimannaþjófélag en við áður vorum. Skýringin á því er einfaldlega sú að ríkisstj. sveikst um að sýna fyrirhyggju og miða stefnu sína í efnahagsmálum við það að markaðir okkar gætu haldist of staðið með eðlilegum hætti.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. En ég ítreka þau tilmæli mín til hæstv. utanrrh. að kannað verði mjög rækilega hvort ekkí sé ásæða til í fyrsta lagi að auka viðskipti, að leita allra ráða til að auka gagnkvæm viðskipti við helstu útflutningslönd okkar Ég tala ég þá sérstaklega,um Nígeríu og Portúgal, og í öðru lagi hvort ekki sé tími til þess kominn að sérstakt sendiráð verði opnáð í Nígeríu til þess að tryggja viðskiptahagsmuni okkar Þar og auka tengsl landanna með það að markmiði að útflutningsverslun okkar standi traustari fótum Ég verði rekin með hagkvæmari hætti.