09.11.1981
Efri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Enn eru það hinar fornu taugar til Ríkisútvarpsins sem teyma mig hér í ræðustólinn þegar rætt er um mál sem varðar viðgang þess í grundvallaratriðum. Ég er þeirrar skoðunar, að við þurfum að gefa Sinfóníuhljómsveit Íslands fótfestu í lagastoð. Það vill svo til, að ég hef álengdar fengið að fylgjast með sköpun þessarar hljómsveitar, einnig vegna tengsla minna við Ríkisútvarpið á þeim tíma þegar hljómsveitin var fyrir náð þess að slíta barnsskónum.

Ég geri mér grein fyrir því, að framgangur íslenskrar tónmenntar er undir því kominn að við sjáum til þess, að góðir tónlistarmenn geti starfað á landi hér á skipulegan hátt. En ég er því miður þeirrar skoðunar, að frv. það, er hér um ræðir — og tek fram að hér er ég ekki að álasa hæstv. menntmrh. Ingvari Gíslasyni, því svo sem hann sagði hefur þetta frv. gerjast mjög lengi og hugsunin á bak við það, — ég er því miður þeirrar skoðunar, að frv., sem hér liggur fyrir, sé smíðað úr býsna mörgum meinbugum.

Það nær ekki nokkurri átt að ætlast til þess, að Ríkisútvarpið — þó svo gerðir hafi verið undarlegir samningar um árabil — standi straum af rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Það nær ekki nokkurri átt, fyrst og fremst vegna þess að þeir, sem afnotagjöldin greiða, hafa mjög misjafna aðstöðu til að njóta þess sem Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur farið með, — óskaplega misjafna aðstöðu til þess í fyrsta lagi að sækja hljómleika hjá Sinfóníuhljómsveitinni. Og gáið að því, hv. þm., að til þess að njóta nokkurs verulega góðs af Sinfóníuhljómsveitinni þurfa menn að geta sótt hljómleika. Fyrir íbúa Norðurlands eystra er mjög miklum annmörkum háð að njóta þess sem Sinfóníuhljómsveitin hefur fram að færa, fyrst og fremst vegna þess — ef við ræðum málið frá því sjónarmiði að eðlilegt sé að lögfesta samning Ríkisútvarpsins um aðild að Sinfóníuhljómsveitinni — að Ríkisútvarpið heyrist mjög illa í Norðurlandskjördæmi eystra, sums staðar alls ekki á þeim tíma þegar mest er um hljómleikaflutning í Ríkisútvarpinu, a. m. k. ekki eftir að skyggja tekur og þá gerist hljótt í skammdeginu.

Ég vil staðhæfa það, að í Norður-Þingeyjarsýslu — og ég vil nú bæta við: í Norður-Múlasýslu líka því að ég er þar kunnugur, — þar heyrist alls ekki hvort Sinfóníuhljómsveit Íslands spilar vel eða illa á vetrarmánuðunum. Það heyrist miklu betur hvernig Stokkhólmssinfónían, sem útvarpað er um Luleåstöðina á langbylgju núna, — hvernig hún spilar.

Það alvarlega við þetta, ef við ætlum okkur að leggja hluta af kostnaðarbyrðinni á Ríkisútvarpið í þessum tengslum, er sú hugsun sem hefur verið ráðandi um áratugi af hálfu valdhafa þessa lands og yfirstjórnar stofnunarinnar og var einu sinni sett þannig fram í léttum tón í orðastað fyrrv. útvarpsstjóra, að það hefði í sjálfu sér aldrei verið stefna Ríkisútvarpsins að heyrast út um hvippinn og hvappinn. Í tilefni af afmæli Ríkisútvarpsins nú fyrir skemmstu gerði hæstv. menntmrh. kunnugt, að ákveðið hefði verið að leggja 100 millj. gkr. í það að koma upp stereóútvarpi á Íslandi. Hverjir skyldu njóta stereóútvarps á Íslandi? Hvar skyldu þeir vera búsettir?

Ég geri ekki ráð fyrir að íbúar Norðurlands eystra eða Austfjarða hafi hugmynd um hvað það fyrirbæri er: stereó. Svo er Thomas A. Edison fyrir að þakka og eftirkomendum hans, sem unnu af snilld og mikilli elju að því að fullkomna grammófóninn, að íbúar á þessu svæði eiga kost á því, þeir sem það vilja, að hlusta á bestu sinfóníuhljómsveitir veraldar. Sé tækjabúnaður réttur njóta þeir þeirrar tónlistar eins og þeir sem sitja í besta sæti í besta hljómleikasal hjá bestu sinfóníuhljómsveit veraldar. Þar eiga menn kost á góðri músík.

Nú ætlast ég ekki til þess að bætt sé inn neinum ákvæðum í lagafrv. það, sem hér er um fjallað, á þá lund, að Sinfóníuhljómsveitinni sé auk þess ætlað að spila vel. Því fer víðs fjarri. Hitt staðhæfi ég, að við tryggjum ekki góðan hljómlistarflutning með því einu að setja þessi lög, samþykkja þetta frv. Það gerum við ekki. Ég staðhæfi einnig að það sé mjög ósanngjarnt að hlustendur Ríkisútvarpsins, þeir sem afnotagjöld greiða af því, standi allir jafnt undir rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar, bæti því við, að það er ákaflega ósanngjarnt að skattgreiðendur á Íslandi geri það jafnt af þeim sökum að Sinfóníuhljómsveitin kemur ekki að sams konar gagni fyrir þessa einstaklinga. Það þarf búsetu í grennd við hljómsveitina til þess að um jafnrétti sé að ræða til að hlusta á hljómlistarflutning hennar, góðan eða vondan eftir ástæðum. Það er alveg borin von, að Sinfóníuhljómsveitin sendi tónlistarmenn norður í grunnskólann á Þórshöfn til þess að spila þar með nemendunum og kenna þeim, kannske ekki einu sinni til Grímseyjar. — (Gripið fram í.) Í skólana þar samkv. 2. gr. þessa frv. Ef að því yrði er ég hræddur um að það mundi verða að greiða verulegan kostnaðarauka af 2. gr. sem hæstv. menntmrh. staðhæfði áðan að ekki mundi stafa neinn kostnaður af.

Ég hef ítrekað það sem ég sagði í upphafi, að ég geri mér grein fyrir því, að til þess að stuðla að áframhaldandi þroska íslenskrar tónmenntar verðum við að sjá til þess að hér sé hægt að reka sinfóníuhljómsveit, það verðum við að gera, ekki vegna þess að ég sé þeirrar skoðunar, að Sinfóníuhljómsveit Íslands hafi átt mjög ríkan þátt í að göfga tónlistarsmekk þjóðarinnar. Ég held að ef við ættum að gefa einhverri stofnun góða einkunn fyrir það, þá yrði það Ríkisútvarpið. Aftur á móti, ef við ætlum að stuðla að þroska og viðgangi íslenskrar tónmenntar, ef við ætlum að stuðla að því, að Íslendingar semji hljómsveitarverk, svo sem sumir snillinganna hafa gert fram að þessu, ef við ætlum að ýta undir þjóðlega íslenska tónmennt, þá verðum við að sjá til þess, að hér geti starfað sinfóníuhljómsveit. En við skulum skipta kostnaðinum, sem af því leiðir, með skynsamlegri hætti en hér er ráð fyrir gert. Ég er efalaus um það, að sanngjarnir menn fallast á að eðlilegt sé að þeir beri hitann og þungann af þeim rekstri sem eiga kost á því að sækja tónleika hjá Sinfóníuhljómsveitinni.

Hv. þm. Finnur Torfi Stefánsson, sem er genginn úr salnum rétt í þessu, staðhæfir það sem ég hef heyrt fleiri músíkalska menn staðhæfa, að það sé mjög mikill fjöldi manna sem sæki hljómleika hjá Sinfóníuhljómsveitinni hér í Reykjavík og það sé ekki alltaf sama fólkið. Ég hefði beðið um plögg upp á þetta, ég hefði beðið héraðsdómslögmanninn um vottorð upp á þetta ef hann hefði verið viðstaddur. En ég veit að af þessu svæði hér við Faxaflóann koma flestir áheyrendur Sinfóníuhljómsveitarinnar og mér finnst þá eðlilegt að það verði fyrst og fremst Reykvíkingar, Seltirningar og svo náttúrlega blessað fólkið í Mosfellssveitinni sem taki á sig meginþunga þeirrar byrðar.

Í lokin ítreka ég þetta: Ég held að við verðum að sjá Sinfóníuhljómsveitinni farborða, en á annan hátt en hér er ráð fyrir gert.