28.04.1982
Neðri deild: 74. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4328 í B-deild Alþingistíðinda. (4060)

288. mál, Framleiðsluráð landbúnðaarins

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti: Á þskj. 627, sem er 288. mál þingsins, höfum við leyft okkur, ásamt mér hv. þm. Steinþór Gestsson og Albert Guðmundsson, að flytja frv. til l. um breytingu á framleiðsluráðslögum. Þetta frv, kemur í stað frv. sem við fluttum fyrr í vetur og var 1 13. mál, en við köllum það frv. aftur.

Hér er um að ræða breytingu á VI. kafla framleiðsluráðslaganna, um sölu matjurta og gróðurhúsaframleiðslu. Við höfum gert lítils háttar breytingar á frumvarpsgreinunum, en talsverðar breytingar á grg. frv. frá því við fluttum frv. fyrr í vetur og eins seint á síðasta þingi. Þetta mál hefur verið rætt aðeins fyrr, og mér er skylt að geta þess í upphafi, að annað frv. um svipað efni hefur verið til umr. í þessari hv. deild og til umfjöllunar í hv. landbn., en það er frv. hv. 9. þm. Reykv. o.fl. Alþýðuflokksmanna.

Eins og kunnugt er er Grænmetisverslun landbúnaðarins gamalt fyrirtæki, sem var stofnað á sínum tíma við allt aðrar aðstæður en nú eru. Grænmetisverslunin hefur haft einkarétt eða einokun. Við teljum að slíkt fyrirkomulag sé úrelt, a.m.k. á sviði sölu á þeim vörum sem hér er um að ræða. Aðalatriði hljóta að vera að tryggja neytendum góða vöru á lágu verði og framleiðendum vörutegundanna viðunandi framleiðsluskilyrði. Þess ber að geta, sem auðsætt er að þegar framleiðsluráðslögin voru sett voru neysluvenjur allt aðrar en nú. Má t.d. geta þess, að mikið hefur dregið úr neyslu kartaflna, en veruleg aukning orðið á grænmetisneyslu alls konar.

Tilgangurinn með flutningi þessa frv. er að stuðla að jafnara framboði matjurta og gróðurhúsaframleiðslu allt árið um kring um leið og markaðsaðilar eru örvaðir með meira frjálsræði að þjóna neytendum sem best á þessu sviði.

Í flestum nágrannalöndum okkar er neysla á grænmeti mun meiri en hérlendis og ástæða til að ætla að auka mætti neysluna verulega frá því sem nú er. Er aukið frelsi til innflutnings og dreifingar líkleg leið til að ná þessum markmiðum.

Sumir óttast að aukinn innflutningur og fjölbreyttara framboð þessara vörutegunda muni bitna á innlendu framleiðslunni þannig að framleiðsla minnki innanlands. Við höldum því gagnstæða fram í ljósi reynslu annarra þjóða, sem neyta þessara vörutegunda í stórum stíl. Til að eyða ótta þeirra, sem slíkt halda, er hæstv. ríkisstj. veitt heimild til takmörkunar á innflutningi garðávaxta og matjurta, sem keppa mundu við innlenda framleiðslu, á þeim tíma er innlend framleiðsla er nægileg.

Með frv. er lagt til að einokunarákvæði um sölu matjurta og gróðurhúsaframleiðslu verði numin úr lögum. Ekki er gerð önnur breyting á starfsemi Grænmetisverslunar landbúnaðarins. Lagt er til að lögin taki gildi um næstu áramót, þannig að Grænmetisverslun landbúnaðarins, núverandi framleiðendur og hugsanlegir nýir heildsöludreifendur fái nokkurn aðlögunartíma þar til lögin taka gildi.

Ekki er ástæða til að fjölyrða mjög um einstakar greinar frv., en í 1. gr. er heildsöludreifing á garðávöxtum, svo sem matjurtum framleiddum í gróðurhúsum, gefin frjáls þannig að nýir heildsöludreifendur geti starfað við hlið núverandi dreifingaraðila. Jafnframt er umsjón með þessum kafla framleiðsluráðslaganna færð í hendur landbrn. til samræmis við 39. gr. laganna, enda er sú skipan eðlilegri vegna þeirra breytinga sem hér eru lagðar til. Landbrn. getur þó að sjálfsögðu engu að síður falið framleiðsluráði að framkvæma settar reglur og annast það eftirlit sem henta þykir.

Með gildistöku 2. gr., ef að lögum verður, fellur niður einkaréttur hæstv. ríkisstj. til innflutnings á kartöflum og grænmeti, en í stað þess er lagt til að ríkisstj. hafi heimild til að takmarka innflutning, eins og ég gat um áður, þegar innlend framleiðsla er á boðstólum. Jafnframt er hæstv. ríkisstj. heimilt að setja reglur um innflutning þegar innlend framleiðsla er ekki fáanleg.

Í 3. gr. er fjallað um skilyrði þau sem söluaðilar þurfa að fullnægja til að annast heildsöludreifingu á gróðurhúsaframleiðslu. Þar þótti rétt að taka sérstaklega fram, að Sölufélag garðyrkjumanna starfi áfram með sama hætti, þótt öðrum aðilum verði ekki lengur bannað að stunda sömu viðskipti fullnægi þeir sömu skilyrðum. Þetta er gert til að leggja áherslu á að hér er ekki verið að koma í veg fyrir að Sölufélag garðyrkjumanna, sem er eign þeirra sem framleiða vörutegundir sem Sölufélagið hefur á boðstólum, haldi áfram að stunda sína dreifingu.

Í 4. gr. er lítils háttar breyting, sem skiptir ekki máli, enda hefur efni þessarar greinar ekki verið fylgt eftir með framkvæmd laganna.

Með þessu frv. er gerð tilraun til að hreyfa við máli, sem að margra áliti er mjög brýnt, og koma þannig í veg fyrir úreltar verslunarvenjur. Mér er kunnugt um að nefnd, sem ætlað var að breyta núverandi reglugerð um Grænmetisverslun landbúnaðarins, hefur verið starfandi, en hún getur að sjálfsögðu ekki breytt lögum og hér er því gerð tilraun til að breyta tiltölulega litlum þætti framleiðsluráðslaganna.

Það þarf ekki að fjölyrða um það, og það er reyndar gamalkunnugt mál, að neytendur hafa oft og tíðum talið að á boðstólum væru ekki kartöflur á borð við þær sem neytendur annarra landa geta fengið, og margoft hafa komið fram kvartanir um framleiðslu íslenskra kartaflna. Í þessu sambandi má minna á að í síðasta mánuði, 25. mars 1982, sendi Félag matvörukaupmanna og kjörverslana áskorun til landbrn. þar sem farið var fram á að felld yrði úr gildi auglýsing frá rn. um breytingu á reglugerð um Grænmetisverslun landbúnaðarins, um mat og flokkun kartaflna og grænmetis, en hún er nr. 162 frá 1962, en reglugerðarbreytingin var út gefin 25. okt. 1968. Í grg. með ályktun kaupmannanna, sem hafa reynslu af sölu kartaflna, segir að þessi áskorun sé gerð að fenginni reynslu síðustu ára, sem tvímælalaust bendi í þá átt, að ef slakað er á stærð og gæðum þeirra kartaflna, sem á markaðinn koma, dragist sala þeirra saman. Hér er að vísu farið inn á einn ákveðinn þátt þessara mála, sem kannske skiptir ekki öllu, en þetta nefni ég því það hefur verið tilhneiging að viðhalda stærðarmati á kartöflum eins og það var ákveðið þegar spretta var með minnsta móti á kalárum fyrir nokkrum árum.

Ég vil geta þess, að vissir erfiðleikar eru á framkvæmd núverandi framleiðsluráðslaga, sérstaklega með tilliti til þess, að Samband garðyrkjubænda á ekki fulltrúa í framleiðsluráði. Er þetta atriði til skoðunar, þótt að sjálfsögðu sé ekki hér tillaga til breytingar á því efni.

Samband garðyrkjubænda samdi á sínum tíma umsögn um þetta mál og annað sem snertir breytingu á framleiðsluráðslögunum. Sú umsögn var neikvæð að mjög verulegu leyti, en var byggð á misskilningi og úreltum viðhorfum a.m.k. sumra manna í stjórn þeirra samtaka. Sem dæmi vil ég lesa smákafla úr þessari umsögn, sem send var landbn. fyrr á þessu þingi, reyndar áður en málið kom til nefndarinnar. Þar segir svo, með leyfi forseta, þegar vikið er að hættunni af þessari breytingu:

„Er hættan einkum sú, að einn viti ekki hvað annar gerir ef margir aðilar koma í málið. Á þetta ekki síst við um innflutning. Er þá alltaf viss hætta á að magn, sem inn er flutt, sé ýmist of eða van, einnig að ýmsir eygi þarna það, sem þeir halda að sé fljóttekinn gróði, og fari að flytja inn án þess að hafa viðunandi geymslu og búnað og fari jafnvel að kaupa af fleiri aðilum, sem eru að bjóða lélega vöru á lægsta verði.“

Hér er að sjálfsögðu horft fram hjá því, að gera verður kröfur til innflytjenda um að þeir hafi nægilega góðar geymslur. Síður en svo er loku fyrir það skotið með tillöguflutningi þeirra sem standa að þessu frv.

Í öðru lagi kemur þarna fram verulegt vanmat á markaðnum og hvernig kaupin gerast á eyrinni. Með langflestar vörutegundir er sem betur fer frjáls verslun hér á landi, og ekki hefur verið sannað að það hafi orðið til þess að neytendur hafi fengið verri vöru en ella. Þvert á móti má halda því fram, að einokun hafi gert það að verkum, að verri vara sé á boðstólum, og án þess að ég taki atveg undir allar þær kvartanir, sem komið hafa fram um það efni, sýnist mér að neytendur og kaupendur kartaflna, sem fluttar eru til landsins, séu ekki ýkja hrifnir af gæðum innfluttra kartaflna, ekki síst eftir að stór hluti þjóðarinnar fékk að kynnast því sem erlendis ber nafnið kartöflur.

Að lokum má geta þess, að um langan aldur hafa innflytjendur flutt inn ávexti og innflutningsfrelsi hefur verið á ávöxtum án þess að þau vandkvæði hafi komið fram sem um getur í umsögn stjórnar Sambands garðyrkjubænda. Ávaxtainnflutningur krefst að sjálfsögðu góðs geymslurýmis, góðra geymslna, og smám saman gerist það, sem eðlilegt er, að nokkrir innflytjendur sérhæfa sig í innflutningi á svo viðkvæmri vöru. Þannig má benda á að þrjár heildsölur eru yfirgnæfandi stærstar í innflutningi ávaxta annarra en banana, þ.e. Samband ísl. samvinnufélaga, Eggert Kristjánsson og Björgvin Schram, svo ég nefni þá sérstaklega til sögunnar.

Annað í þessari umsögn er í svipuðum dúr, byggist annaðhvort á misskilningi á grg. fyrra frv. eða úreltum viðhorfum og jafnvel ótta sem ég tel að öllu ástæðulausan.

Ég held að það sé ljóst, að sölufyrirkomulag þurfi að endurskoða. Það er von okkar, sem stöndum að þessu frv., að með því sé þrýst á breytingar í þessum efnum. Að lokum vil ég mælast til þess, herra forseti, að máli þessu verði vísað til hv. landbn. til frekari fyrirgreiðslu.