29.04.1982
Sameinað þing: 84. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4394 í B-deild Alþingistíðinda. (4109)

Almennar stjórnmálaumræður

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það líður óðum að þinglausnum og er þá að venju skroppið í eldhús þingsins skamma stund til að rifja upp og rökræða nokkuð þjóðmál og þingmál frá liðnum vetri og hversu horfi fram undan. Af nógu er að taka því að mál þau, sem hreyft hefur verið á þessu þingi í einni eða annarri mynd, eru mörg og mikil að vöxtum sum hver. Örlög þeirra verða að sama skapi með ýmsum hætti því að hin þinglega vegferð reynist oft tímafrek og torsótt og hin bestu mál geta orðið úti, einkum þegar daginn fer að lengja og dregur að þinglokum.

Að venju hafa efnahagsmál sett mikinn svip á þinghald að undanförnu og tekið drjúgan tíma, bæði hjá Alþingi og ríkisstj. Á s.l. ári tókst að ná höfuðmarkmiðum þeim sem ríkisstj. stefndi að í efnahagsmálum, en þau voru öflugt atvinnulíf og næg atvinna fyrir alla landsmenn, hjöðnun verðbólgu og trygging kaupmáttar. Þessi markmið eru áfram höfð að leiðarljósi á því ári sem nú er að líða, þótt enn sé hulið hvernig til tekst um það er lýkur.

Ekki vantar það, að málefni þessi séu rædd og rækilega könnuð af hinum færustu mönnum innan lands og utan. Við það safnast saman mikill fróðleikur, einkum þó um liðna tíð. Um hitt, hvað framtíðin ber í skauti sínu, veit enginn með vissu. Um það gilda aðeins spár og vonir, sem rætast þegar best lætur, en bregðast oft þegar mest liggur við.

Um þessar mundir vitna margir í nýlega ræðu seðlabankastjóra þar sem hann sagði m.a. að heimsbúskapurinn væri enn fastur í þeirri lægð sem hann komst í á árinu 1980 í kjölfar olíuverðshækkana. Þær vonir um afturbata, sem menn ólu í brjósti um þetta leyti á s.l. ári, hafi hingað til að engu leyti ræst. Þvert á móti hafi enn sigið á ógæfuhlið á síðari helmingi ársins í fyrra, einkum vegna mikils samdráttar í efnahagsstarfsemi í Bandaríkjunum.

Árið 1982 verður því sennilega þriðja árið í röð er einkennist af efnahagslegri stöðnun og vaxandi atvinnuleysi. Svipaða lærdóma má draga af riti Þjóðhagsstofnunar frá í mars, Úr þjóðarbúskapnum, þar sem fjallað er um framvindu ársins 1981 og horfur 1982. Það má hverjum manni ljóst vera, að þjóðarbúskapur Íslendinga fer ekki varhluta af þeirri þróun efnahagsmála sem verður í aðalviðskiptalöndum þeirra, heldur þvert á móti. Þetta eru kaldar staðreyndir sem við blasa og horfast verður í augu við.

Þá verður enn að hafa í huga að óvarlegt er, miðað við allar aðstæður, að spá meiri útflutningsframleiðslu en svo á þessu ári að hún verði sem næst óbreytt frá fyrra ári. Heildarafli í tonnum talið úr sjó hefur farið minnkandi tvö s.l. ár frá því, sem hann komst hæst, í 1648 þús. tonn árið 1979. En allar spár um sjávarafla eru óvenju óvissar á þessu ári, einkum vegna ástands loðnustofnsins. Þetta eru mikil umskipti þar sem framleiðsla sjávarafurða hefur að verulegu leyti staðið undir rekstri útflutningsframleiðslunnar á liðnum árum. Aukinn útflutningur iðnvarnings mun varla gera betur en vega upp á móti samdrætti í sjávarútvegi á þessu ári.

Þannig horfa málin við sjávarsíðuna þrátt fyrir mjög hagstæða þróun hafréttarmála á undanförnum árum, og síðustu fréttir af hafréttarsáttmála uppfylla okkar björtustu vonir.

Margar fleiri staðreyndir mætti nefna sem hníga í sömu átt og gefa ljóslega til kynna að fyllsta þörf sé að að gæta ýtrustu varfærni, hagsýni og sparnaðar í rekstri þjóðarbús okkar ef svo heldur fram sem horfir. Og meðan svo er ært í landi og hart í heimi verður varla gert miklu betur en að andæfa og verjast áföllum. Eigi að síður er það yfirlýst stefna ríkisstj. að vinna áfram að hjöðnun verðbólgu þannig að hún verði ekki meiri en 35% frá byrjun árs 1982 til ársloka. En þetta skref verður ekki stigið átakalaust með öllu. Úrræði, sem duga, verður að finna og framkvæma svo að allra hag megi bæta til frambúðar. Nauðsynlegt er að allir leggist á eitt í því efni. Samræmdra aðgerða mun við þurfa á öllum sviðum efnahagsmála til að tryggja að þessu markmiði verði náð.

Augljóst er að gæta verður aðhalds í ráðstöfun þjóðartekna til að draga úr viðskiptahalla og skuldasöfnun erlendis. Aldrei kann það góðri lukku að stýra að eyða meiru en aflað er, en beina verður kröftunum að því að auka framleiðslugetu þjóðarbúsins og búa þann veg í haginn fyrir varanlegar framfarir og bætt lífskjör í landinu.

Þó að þessi varnaðarorð séu látin falla er þó fjarri því, að ástæða sé til að örvænta eða fyllast bölsýni. Víða um lönd eru erfiðleikar í fjármálum, m.a. á öllum Norðurlöndunum. Sennilega eru Finnar einna best á vegi staddir í þeim efnum um þessar mundir, þó að þeir hafi eins og aðrir fengið að kenna á óhagstæðri þróun heimsmála og engin Norðurlandaþjóða hafi gengið í gegnum aðra eins fjárhagserfiðleika og þrengingar á liðnum áratugum og finnska þjóðin.

Síst er því ástæða fyrir okkur Íslendinga til að láta hendur fallast. Sjást þess og engin merki. Hér á landi er haldið uppi öflugri framfara- og framkvæmdastefnu, en gæta verður þó hófs svo að hraðinn verði ekki óviðráðanlegur og spennan yfirþyrmandi.

Á þingi og í ríkisstj. hefur að undanförnu verið fjallað um hin veigamestu mál í mörgum greinum, atvinnu- og orkumál, landbúnaðar- og byggðamál margs konar, félags- og þjónustumálefni. Nú er verið að leggja síðustu hönd á langtímaáætlun í vegagerð sem unnin hefur verið á grundvelli þál. sem samþykkt var í fyrra.

Alkunna er að þar sem ríkisstj. er skipuð ráðherrum úr þremur stjórnmálaflokkum ræður enginn einn flokkur ferðinni að öllu leyti. Úrslit mála hljóta oft að byggjast á samkomulagi og málamiðlun. Þó að við sjálfstæðismenn metum einstaklinginn mikils og viljum efla framtak hans og frelsi á allan hátt megum við ekki gleyma því, að fyrir löngu er það orðið eitt af grundvallaratriðum sjálfstæðisstefnunnar að skapa öllum landsmönnum félagslegt öryggi. Þetta er stór og dýr yfirlýsing sem í framkvæmd hlýtur m.a. að útheimta talsverðar skattaálögur á alla þá sem betur mega sín. Og sérhver góður þegn er fámennri þjóð mikils virði á þeirri tækni- og tölvuöld sem við nú lifum á, þar sem mönnum gefst kostur á næstum ómældri aðstoð við að nema og muna marga hluti ef aðeins er stutt á réttan hnapp. Það má ekki gleyma að leggja rækt við einstaklinginn, mennt hans og manngildi, þá eiginleika sem hingað til hafa fleytt þjóð okkar yfir brim og boða og gert okkur kleift að byggja upp frjálst og fullvalda ríki í samfélagi þjóðanna. — Lifið heil.