03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4511 í B-deild Alþingistíðinda. (4273)

246. mál, viðauki við vegáætlun 1981--1984

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. frsm. með þessari till. skrifuðum við nokkrir þm. í fjvn. undir þetta mál með fyrirvara. Ég vil gera örstutta grein fyrir þeim fyrirvara frá hálfu okkar sjálfstæðismanna.

Við lítum svo til, eins og fram kom hér í máli hv. þm. Sverris Hermannssonar, að þessi till. sé nánast formsatriði þar sem í rauninni veitir hún ekki ríkisstj. heimild til lántöku eða til annarra tekjuöflunar. Eins og kunnugt er verður að leita slíkra heimilda í lögum, bæði til þess að taka lán og eins til þess að leggja á skatta til fjáröflunar. Þessi till. er þó stuðningur við að halda þeim verkefnum áfram sem hún fjallar um, þ.e. framkvæmdum við svokallaða ÓÓÓ-vegi eða Óshlíðarveginn, Ólafsfjarðarmúla og Ólafsvíkurenni.

Í þessari till. er gert ráð fyrir að tvö verkefni, Ólafsvíkurenni og Óshlíðarvegur, verði tekin fyrst til meðferðar af þessum verkefnum. Út af fyrir sig er ekki út á það að setja frá minni hálfu. Þótt ég sé að sjálfsögðu mikill áhugamaður og mestur um framkvæmd þá hina miklu sem stefnt er að í mínu kjördæmi, Ólafsfjarðarmúlann, hef ég tekið það fram, að mér þætti ekki óeðlilegt að í hin tvö verkefnin yrði ráðist fyrst og viðurkennt að Ólafsfjarðarmúlinn þyrfti verulegs undirbúnings við, þ.e. jarðgangagerð í gegnum Ólafsfjarðarmúlann. Hins vegar er það þáttur í mínum fyrirvara fyrir þessu máli, að ljóst er að það á að láta mjög naumt fé til rannsókna í Ólafsfjarðarmúla samkv. þessari till. svo að ekki sé meira sagt. Ég vil láta í ljós óánægju mína yfir því, enda þótt það hafi komið fram hjá Vegagerð ríkisins að þetta væri samkv. hennar tillögum.

Hæstv. ráðh. talaði hér um miklar framkvæmdir í vegamálum á síðustu árum. Það má til sanns vegar færa að framkvæmdir hafa verið auknar að því er varðar bundið slitlag. En ég hefði vitjað vekja athygli hæstv ráðh. og þingheims á því, að síðustu ár hefur verið stóraukin skattheimta af bensíni. Ég hef beðið Vegagerð ríkisins og Þjóðhagsstofnun að reikna það út fyrir mig, hvað bensinskattar séu miklu þyngri á þessu ári en þeir voru 1978. Bensínskattar eru að raungildi 220 millj. kr. þyngri á þessu ári en þeir voru 1978 samkv. útreikningi þessara aðila. Það er hærri fjárhæð en til nýframkvæmda vega á þessu ári. Það væri hægt að tvöfalda framkvæmdamátt vegafjár í nýframkvæmdum á þessu ári ef bensínskattarnir að raungildi, sem teknir eru núna fram yfir það sem lagðir voru á og teknir 1978, væru notaðir til vegaframkvæmda. Það væri hægt að tvöfalda nýframkvæmdir vega á þessu ári. Það er þetta og ýmislegt annað, sem athyglisvert er í þróuninni á þessum sviðum, sem skiptir máli, sem er athyglisvert við það sem gerst hefur í vegamálum undanfarin ár. Framlögin af skatttekjum hafa nefnilega ekki aukist að raungildi á sama tíma. Framlögin hafa ekki aukist af skatttekjum úr ríkissjóði og Vegasjóði. Á hinn bóginn hafa verið tekin meiri lán 1980 og 1981 til vegaframkvæmda en áður. Þau lán þarf að borga. Eingöngu með þessari auknu lántöku, sem er ávísun á skattheimtu síðar, hafa vegaframkvæmdir verið auknar á síðustu tveimur árum.

Það er enn fremur athyglisvert, að á þessu ári er enn, þriðja eða fjórða árið í röð, verið að skera niður vegáætlun. Niðurskurðurinn er athyglisverður nú vegna þess að nú er verið að vinna að langtímaáætlun í vegagerð. Það er ekki einu sinni hægt að standa að raungildi við þá áætlun sem gerð var í fyrra um nýframkvæmdir vega. Hæstv. ráðh. talaði hér um að það stæðist fyllilega að 2.1 % af þjóðarframleiðslu væri varið til vegamála í ár. Það kann að vera, ég hef ekki litið á þá útreikninga. En þá et líka skýringin sú sem hann nefndi hér, að þjóðarframleiðslan hefði minnkað. Ég veit ekki hvort það er mikið til að hæla sér af, þegar á það er litið hversu gífurleg skattheimta hefur orðið á undanförnum árum á umferðina, að það þurfi vegna samdráttar í þjóðarframleiðslu að koma til samdráttar í vegaframkvæmdum einmitt á því ári sem menn eru að vinna að því að koma frá sér langtímaáætlun í vegagerð.

Ég vil svo að lokum víkja að vinnubrögðum í því sambandi. Eins og hv. þm. muna komu tvær tillögur fram á Alþingi í vegamálum á síðasta þingi. Önnur var frá sjálfstæðismönnum og gekk hún öllu lengra en till. ríkisstj. sem kom síðar fram á því þingi. Við sjálfstæðismenn höfðum raunar áður flutt slíka till. um langtímaáætlun í vegaframkvæmdum sem ekki hafði hlotið afgreiðslu. Fjvn. tók sér fyrir hendur, — og ég undirstrika, hæstv. ráðh., að það var að frumkvæði hv. fjvn., — að ná samstöðu um að breyta þessum tveimur tillögum, búa til nýja tillögu í vegamálum sem væri líkleg til að hljóta samþykki hér á hinu háa Alþingi. Ég undirstrika: Það var að frumkvæði fjvn. sem leitast var við að ná slíkri samstöðu. Slík samstaða náðist eftir nokkuð mikla vinnu, bæði í hv. fjvn. og annars staðar á hinu háa Alþingi, og þessi till. var samþykkt í fyrra. Nú hefur þessi langtímaáætlun verið unnin í samráði við fulltrúa þingflokka. Mér eru það því mikil vonbrigði að hæstv. ráðh. ætlar að flytja sem samgrh. þessa till. sem hv. Alþingi, eftir frumkvæði fjvn., náði samstöðu um í fyrra. Að sjálfsögðu hefði verið eðlilegt að fulltrúar þingflokka, sem áttu sæti í þeirri nefnd sem vann þessa till., hefðu flutt hana. Það hefði undirstrikað hvernig hún er til komin, með samstöðu á hinu háa Alþingi, og það hefði undirstrikað að það væri ætlun hins háa Alþingis að ná saman áfram um vegamálin og gera þau ekki að pólitísku bitbeini. Því miður sýnast mér allar tíkur benda til þess, að þessi ákvörðun hæstv. ráðh., sem út af fyrirsig ætti kannske ekki að verða þess valdandi, sé þó vísbending um að nota eigi málið í pólitísku skyni. Þessi vinnubrögð og önnur, sem mér virðist að hafi orðið í sambandi við þetta mikla mál og þýðingarmikla, verða sennilega til þess, að sú samstaða, sem hv. fjvn. hafði frumkvæði um að ná í fyrra, virðist ætla að rofna, því miður, segi ég.