03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4513 í B-deild Alþingistíðinda. (4274)

246. mál, viðauki við vegáætlun 1981--1984

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tengja þessa umr., aðeins örfá orð sem ég óska eftir að bæta hér við.

Ég hef ekki vefengt að til vegaframkvæmda nú sé varið því fé sem þál. í fyrra tiltók sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu. Hún fer því miður minnkandi, en ástæðurnar til þess eru auðvitað að ekki er vel stjórnað, heldur illa. En hún innheldur meira en ákvörðun um þetta hlutfall af þjóðarframleiðslunni. Meira að segja stendur að áætlunin skuli þann veg úr garði gerð að auka megi framkvæmdahraða ef meira fjármagn kemur til en þar er gert ráð fyrir. Þar við bætist, eins og ég minnti á, að hæstv. samgrh. marglýsti yfir að framkvæmdir við Ó-vegina yrðu fjármagnaðar með sérstakri fjárútvegun. Þetta eru hvorki meira né minna en 186 millj. kr. og það munar um minna. 12 ára áætlunin skerðist sem því nemur, um 18.6 mitt jarða gkr. Forsendur þessarar þál. eru fleiri en aðeins að þessu leyti, sem nefnt er, hlutfall af þjóðarframleiðslu. Það er í fyrsta lagi talað um að vegir hafi fullt burðarþol, 10 tonna öxulþunga allt árið, vegir séu byggðir upp úr snjó, bundið slitlag lagt á vegi o.s.frv. Það, sem við þm. höfum verið að vinna að að undanförnu, er að ýta aftur af þessari áætlun vegaframkvæmdum í stórum stíl. Það er ekki einvörðungu vegna þess að þjóðarframleiðslan fer minnkandi og þar af leiðandi fjármagnið heldur vegna þess að nýjar framkvæmdir, eins og Ó-vegirnir, eru teknar inn á þessa áætlun, sem lofað var, eins og ég hef margtekið fram, að yrðu fjármagnaðar með öðrum hætti.

Aðeins svo þetta að lokum: Hæstv. samgrh. segir að ríkissjóður gæti rétt eins vel sjálfur tekið að láni fjármagn til vegaframkvæmda, eins og það rynni frá Byggðasjóði, og talaði í þá veru, heyrðist mér, að ég væri að baða mig í einhverjum dýrðarljóma þess vegna. Það er nú eins og það taki því að tala um einhvern dýrðarljóma, sem leiki um höfuð manna þegar menn standa tepptir í vegarforinni, eins og ég geri í 9 mánuði af 12 í Austurlandskjördæmi. En þessi fullyrðing hans um, að ríkissjóður gæti þetta rétt eins vel sjálfur, sýnir að hann fylgist ekki alveg nægjanleg vel með. Byggðasjóður hefur lántökuheimild samkv. lánsfjáráætlun að fjárhæð 50 millj. kr. Er rétt sama hvernig því fjármagni er varið? Ég hefði haldið ekki. Sú stefna hefur verið mörkuð á síðustu árum að Byggðasjóður tæki stóraukinn þátt í vegaframkvæmdum, og menn eru sammála um að þetta sé ein besta byggðastefnan í framkvæmd sem hann getur fylgt eins og nú standa sakir. Um þetta eru allir stjórnarmenn Framkvæmdastofnunar sammála. Mig minnir að áættað sé að hann verji tæpum 30% af ráðstöfunarfé sínu á þessu ári til vegaframkvæmda. Það var 1978 og 1979 eitthvað á annað prósent samtals í vegi í jaðarbyggðum.

Eins og ég segi er það auðvitað undirstöðuatriði að þessum fjármunum, 50 millj. kr., sé varið til hagkvæmustu framkvæmdanna, arðbærustu framkvæmdanna, eins og gert er ráð fyrir að 37 millj, kr. af 50 millj. kr. lántökuheimildum Byggðasjóðs samkv. lánsfjáráætlun sé varið til vegaframkvæmda. Ég þarf ekki að segja sem svo, að hæstv. samgrh., sem einnig er sjútvrh., kysi ekki, þótt sporin hræði, að stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins legði til að fé samkv. þessum lántökuheimildum yrði frekar veitt til að flytja inn kláfa frá Englandi, þó þeir bæru nöfn Stephans G., Matthíasar Jochumssonar, Davíðs og Þorsteins Erlingssonar.