03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4535 í B-deild Alþingistíðinda. (4306)

164. mál, innlendur lífefnaiðnaður

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að staldra aðeins við í umr. um þetta mál, um leið og ég vil koma á framfæri þakklæti til atvmn. fyrir að hafa afgreitt það. Jafnframt er ástæða til að harma, ef rétt er sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að nefndin hafi ekki haft aðstöðu eða tíma til að kanna þetta málefni.

Að mínu mati er hér um að ræða mjög þýðingarmikið mál fyrir atvinnugreinar okkar. Ég vænti þess, að flestir hv. þm. hafi lesið þessa þáltill. og þá ágætu grg. sem henni fylgir, og ég vænti þess, að sem flestir átti sig á því, að hér er um gífurlega merkt mál að ræða, sem getur verið mjög mikilvægt fyrir framtíð okkar atvinnugreina, því að innlendur lífefnaiðnaður er svo til ný grein hér eða ónýttur akur, ef má orða það svo. Hér er um mikið verkefni að ræða sem ýmsir fræðimenn, sem nú hafa tekið til starfa hér á landi, eru færir um að veita lið. Ég vil leggja á það mikla áherslu, að þessi till. fái mikla meðhöndlun og ríkisstj. taki í alvöru á þessu máli, þegar því er vísað til hennar frá hv. Alþingi, og það verði ekki hægt að afsaka það, að ekki sé tími til að athuga svona mikilvægt mál. Þetta er bæði nútíðar- og framtíðarmál fyrir íslenskan atvinnurekstur, og ég vonast fastlega til að þessu máli verði mikill gaumur gefinn hér eftir.