04.05.1982
Sameinað þing: 87. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4568 í B-deild Alþingistíðinda. (4332)

378. mál, stöðuveiting stöðvarstjóra Pósts og síma á Ísafirði

Fyrirspyrjandi (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Það er vissulega ánægjulegt að loksins eftir rúman mánuð hafi hann tekið á sig rögg og svarað bréfi Jafnréttisráðs sem hefur legið hjá honum. En það vekur furðu mína, að bréfið skuli ekki enn vera komið til Jafnréttisráðs. Ég hafði samband við starfsmann þar í morgun. Þeim hafði ekki borist þetta bréf og það hafði ekki borist til þeirra fyrir helgi. Hún tók fram að hugsanlega lægi það í pósthólfinu í morgun, það hefði ekki verið farið í pósthólfið. En það var alla vega ekki komið þar fyrir helgi. Ef það hefur verið sett í póst, þá eru póstsamgöngur í Reykjavík hreint athyglisverðar — athyglisvert hversu seinfara þær eru.

Ég vil taka það fram, að ég var með fyrirspurn minni á engan hátt að leggja mat á hæfni þessara umsækjenda, það hafa þeir gert sem umsagnir hafa gefið og bar að gera. Og ég er síður en svo að gera lítið úr þeim starfsmanni, sem ráðinn var, eða hæfni hans. Ég vil aðeins endurtaka að málið snýst um það, að Alþingi setur lög um jafnrétti kvenna og karla og opinberum aðilum, sem hafa með stöðuveitingar að gera, ber að virða þessi lög, ég tala nú ekki um þá sem hafa sjálfir átt þátt í að samþykkja þau. Það kemur greinilega fram, að með því að bregða ekki skjótt við og svara Jafnréttisráði hefur hæstv. ráðh. ekki sýnt þessum lögum virðingu sem bar.