04.05.1982
Sameinað þing: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4581 í B-deild Alþingistíðinda. (4342)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Frsm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Atvmn. hefur haft til meðferðar till. til þál. um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu og haldið fjölmarga fundi um málið. Nefndin hefur orðið sér úti um og henni hafa borist margvísleg gögn og upplýsingar sem of langt mál yrði upp að telja. Einnig hefur nefndin boðað til viðræðna við sérfræðinga í virkjunarmálum og enn fleiri. T.a.m. hélt nefndin sumardaginn fyrsta hátíðlegan í þingflokksherbergi Sjálfstfl. með Húnvetningum og nokkrum Skagfirðingum í bland og gróðurverndarmönnum allt „austan undan Eyjafirði“, eins og Torfalækjarmenn orðuðu það. Nánari upplýsingar verða ekki gefnar um mannfagnað þann, enda varhugavert að nefna bæjarnöfn, hvað þá heldur örnefni, í þessu sambandi um þessar mundir, nema allt fór það vel fram þótt ekki næðist reyndar sami gangur úr öllu stóðinu, enda misjafnlega setið að undanförnu.

A hinn bóginn hefur nefndarmönnum gefist mismikill friður til að sinna störfum sínum. Á 11 ára starfsferli í þessari stofnun minnist ég tæpast svo óskemmtilegrar undiröldu sem í þessu máli. Er ekki að undra þótt brjóti á ýmsum skerjum norður þar þegar menn ætla varta að geta haldið sjó á Alþingi hér syðra. Þetta er þó ekki á þann veg að skilja, að ókyrrðin á Alþingi um þessar mundir eigi rætur sínar aðallega að rekja til þessa máls sem nú er fjallað um. Allir sjá og skilja að á hinu háa Alþingi ríkir upplausn og stjórnleysi. Í hópi þeirra, sem þykjast vera að stjórna landinu, er hver höndin upp á móti annarri, óheilindi og flokkadrættir með þeim hætti að til vansæmdar er hinni virðulegu stofnun. En ætti það sannist ekki hið fornkveðna rétt einu sinni, að svo liggur hver sem lund er til.

Ég hef áður oftsinnis á það minnst, hversu þingræðinu er mikil hætta búin ef svo fer fram sem horfir um hríð. Ef menn fótumtroða þingræðið og hafa að engu vilja meiri hlutans, þá er illa komið okkar högum og stöðu þeirrar stofnunar sem þarf og á að vera burðarás íslensks þjóðfélags, löggjafarsamkomunnar. Slíkar hugrenningar hljóta að leita á þegar rifjuð er upp tilurð hæstv. ríkisstj.

Það verður æ meira áberandi að ráðherrar telja sér ekki skylt að fara að ályktunum Alþingis. Af svörum við fjölda fsp. á Alþingi hefur komið í ljós að hæstv. ráðherrar hafa annaðhvort vanrækt framkvæmd ályktana Alþingis eða virt þær að vettugi með öllu. Slíkt getur Alþingi ekki látið bjóða sér. Það er engin afsökun að fleira sé samþykkt en frambærilegt getur talist. Ríkjandi meiri hl. í Alþingi hverju sinni ber aðalábyrgð á afgreiðslu mála. Honum ber að vega og meta málin og kjósa sér þau þrifamál til samþykktar sem meiri hl. eru skapfellileg. Að fengnu samþykki Alþingis á framkvæmdavaldið engra annarra kosta völ en hlýða og framkvæma eða að leita ásjár Alþingis á nýjan leik um breytingu eða niðurfellingu mála.

Ekki er fyrir að synja að böndin berist að frekjufullum embættismönnum, að þeir eigi ólítinn þátt í að hindra framgang ályktana Alþingis. Það tekst þeim að sjálfsögðu ekki nema í skjóli ráðherra sem virðast í vaxandi mæli hafa misst sjónar á þingræðinu, viljandi eða óviljandi, og einnig vegna andvaraleysis Alþingis. Látum nú vera þótt hálfkaraðir kálfar komi inn á Alþingi beint í ráðherrastóla og kunni sér lítt hóf. En steininn tekur úr þegar gamlir gránar á Alþingi ganga á undan í þessum efnum. Þá verður eftirdæmið auðvelt óvönum og valdagírugum. En auðvitað liggur sökin ekki síst hjá Alþingi sjálfu sem taka á í taumana ef úrskeiðis gengur. Upp er kominn áhugi hjá þm. á að taka til höndum í þessum efnum og er þess fastlega að vænta að í einhvern stað komi niður. Í húfi er staða og virðing hins háa Alþingis.

Nýjasta dæmið af þessum toga er að finna í vinnubrögðum hæstv. ríkisstj. í máli þessu, sem nú er til umr. Hæstv. ríkisstj. lagði fram till. til þál. um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu og lagði málið með þeim hætti í gerð Alþingis sem vera ber. Atvmn. fékk málið til meðferðar og hafði haldið um það langa og stranga fundi þegar hæstv. ríkisstj. skýtur á fundi og gerir samþykkt um einn þátt málsins, þann þáttinn sem höfuðstyrinn hafði staðið um. Látum nú vera þótt ýmsir nefndarmenn hefðu ekki flóafrið að vinna að málinu fyrir afskiptasemi hæstv. ráðh. Þeim er að sjálfsögðu fullkomlega heimilt, ráðh., að beita áhrifum sínum sem þingmenn á gang mála. Ekkert er eðlilegra. En sérstök samþykkt ríkisstj. í miðjum klíðum er ósvífin tilraun framkvæmdavaldsins til að segja löggjafarsamkundunni fyrir verkum, enda bætti sú aðferð ekki úr skák, en torveldaði störf atvmn. Sem betur fór tóku nm. ekki mikið mark á þessu ólögmæta frumvarpi hæstv. ríkisstj., en söm var hennar gerð. Nm. atvmn. lögðu sig allir í líma við að fullt samkomulag næðist í nefndinni og það tókst þrátt fyrir óheppileg afskipti hæstv. ríkisstj. og einstakra ráðh., en að því leyti sem leiðir skilja aðeins um túlkun kem ég að síðar.

Það var skoðun nefndarinnar, að fullt samkomulag í Alþingi um ályktun um Blönduvirkjun væri hið mikilvægasta og líklegast til að setja niður deilur manna norður þar. Ekki verður hjá því komist að nefna tvö dæmi um ógæfusamlegar aðferðir stjórnvalda í Blöndumálinu og raunar þrjú, þótt hið síðast talda sé af öðrum toga spunnið eða annars eðlis. Er þar með þó ekki verið að bera blak af hv. 1. þm. Norðurl. v. og hans mönnum, því að aldrei veldur einn þegar tveir deila. En dæmi sýna svo að ekki verður um villst, að vinnubrögð hæstv. ríkisstj. í málinu hafa á stundum verið óheppileg og ólíkleg til tausnar, svo að ekki sé meira sagt.

Í samningaumleitunum við Húnaþingsmenn lét hæstv. ríkisstj. svo sem hún byði heimamönnum ýmsa kosti virkjunar. Þeir, sem ekki voru nákunnugir málinu, trúðu einnig að svo væri því að ávallt var það látið í veðri vaka. Svo reyndist þó ekki, eins og sýnt verður fram á. Mætti kannske skjóta því inn í, að ég kannast ekki við eina einustu yfirlýsingu frá hæstv. ríkisstj. sem máli hefur skipt þar sem allur sannleikurinn hefur verið sagður. Og kostirnir áttu að heita við óímunnberanlega bungu og höfða einn sem rís upp úr hásléttunni og svo mismunandi tilhögun á þessum stöðum. Með leyfi hæstv. forseta vitna ég nú orðrétt í fundargerð ráðgjafarnefndar um Blönduvirkjun af fundi sem haldinn var í skrifstofu iðnrn. miðvikudaginn 15. júlí 1981, kl. 15:30:

„Mættir voru á fundinum Hjörleifur Guttormsson, Steingrímur Hermannsson, Ragnar Arnalds, Pálmi Jónsson, Jakob Björnsson og Tryggvi Sigurbjarnarson.“

Þarna hafði fallið niður nefn Kristjáns Jónssonar í vélritun því að ég man að hann var þar mættur af skjölum málsins. — 4. liður fundargerðar:

„Rætt var um rannsóknir við Sandárhöfða. Iðnrh. taldi niðurstöður fundarins á Blönduósi benda til þess, að rétt væri að hefja rannsóknir við Sandárhöfða í sumar.“

15. júlí 1981 segir hæstv. iðnrh. þetta og áttar sig á því, að fundurinn á Blönduósi, sem var til þess haldinn að ráðgast við heimamenn, benti til þess arna. Áfram segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Bað hann um álit samráðh. Þeir töldu slíkar rannsóknir ekki tímabærar. Virkjun við Sandárhöfða kæmi ekki til greina sem næsta virkjun og ef sú yrði niðurstaðan væri nægur tími til rannsókna.“

Herra forseti. Þetta eru mennirnir sem létu svo fram á vorjafndægur 1982 að þeir byðu frjálsum mönnum til samninga þar sem kosta væri völ. Og enn segir í þessari fundargerð, með leyfi hæstv. forseta:

„Landbrh. óskar að bókaður yrði texti, sem hann lagði fram á fundinum 10. júlí s.l. svohljóðandi:

„10. júlí 1981. Ráðherranefnd um virkjun Blöndu lítur svo á, að nauðsynlegt sé að taka nú þegar ákvörðun um tilhögun Blönduvirkjunar svo að þar verði stefnt að ákveðnu marki. Því samþykkir nefndin að virkjun árinnar miðist við tilhögun I, þ.e. með stíflu við Reftjarnarbungu, e.t.v. með minni háttar sveigjanleika. Er samninganefnd virkjunaraðila því falið að vinna að niðurstöðu í samningum við hagsmunaaðila Blönduvirkjunar í samræmi við þetta. Frekari tafir og kostnaður vegna rannsókna á öðrum möguleikum við virkjun árinnar eru því tilgangslaus.“

Mér er nær að halda að hæstv. landbrh. hafi ævinlega haft eina skoðun á þessu máli í samræmi við þetta heima í héraði. En eftir sem áður tók hann þátt í þessum leikaraskap gagnvart heimamönnum, að þykjast vera í frjálsum samningum við þá þar sem kosta væri völ.

Ljósrit af fundargerð þessari var útbýtt til nm. atvmn. af norðanmönnum á fundi sumardaginn fyrsta. Þarf einhvern að undra þótt slík vinnubrögð dragi dilk á eftir sér? Heiðarlegra hefði verið að segja opinskátt við hagsmunaaðila að enginn annar virkjunarkostur kæmi til greina en tilhögun I við Reftjarnarbungu, í stað þess að láta þá vera í góðri trú um að þeir ættu kosta völ í stað úrslitakosta. — Þeir skemmta sér, þingflokksformennirnir. En þessari hæstv. ríkisstj., sem er að vísu ekkert vel gefið, er þó allt betur gefið en að koma til dyranna eins og hún er klædd. Svo hatrammur er þessi kækur orðinn að hann er alltaf kosinn, jafnvel þótt annað kæmi sér betur.

Þetta er fyrsta dæmið um ógæfusamleg vinnubrögð hæstv. ríkisstj. í Blöndumáli. Næst er svo til að taka að norðanmenn eru kvaddir skyndikvaðningu til Reykjavíkur að skrifa undir samning um Blönduvirkjun í marsmánuði s.l. Við undirskrift reyndist aðalmaðurinn, hæstv. iðnrh., svo trúverðugur — eða hitt þó heldur — að hann hafði ekki umboð ríkisstj. til að undirrita samninginn. Þetta sýnir eitt með öðru hversu hrapandi hæstv. ríkisstj. hefur farið að þessu máli.

Kemur þá þriðja atriði flumbruháttarins til sögunnar. Í till. til þál., sem hér liggur fyrir til umr., er ákveðin röð meiri háttar vatnsaflsvirkjana: Blanda, Fljótsdalur, Sultartangi og samhliða Blöndu skal unnið að orkuöflunarframkvæmdum á Þjórsár/Tungnaársvæðinu. Af röðum þessari leiðir að verði ekki ráðist í Blönduvirkjun nú komi Fljótsdalsvirkjun í hennar stað. Þess vegna þurfti ekkert sérákvæði í till. til að taka af tvímæli um röðun. Allt að einu gefur að líta í till. hæstv. ríkisstj., með leyfi hæstv. forseta, að 6. liður tillgr. orðist svo:

„Verði ekki ráðist í Blönduvirkjun nú, komi Fljótsdalsvirkjun í hennar stað sem næsta meiri háttar vatnsaflsvirkjun fyrir landskerfið, enda geti hún hafið orkuframleiðslu fyrir árslok 1982.“

Til hvers eru þessir refar skornir? Til að greiða fyrir samningum — eða hvað? Ákvæðið er umbúðalaus hótun. Það er nýtt, ef það er ráð að semja við menn, að hafa í hótunum við þá í leiðinni. Kann að vera að þeir, sem hafa náð sínum lánlausu völdum með óeðlilegum hætti, þykist geta farið eigin leiðir að settu marki tillitslaust með ofríki og hótunum. En hvílíkan grundvallarmisskilning í lunderni Húnvetninga gefur hér að líta! Að sjálfsögðu leggur atvmn. til að þessi liður sé þurrkaður út úr till. ríkisstj., enda óþarfur með öllu vegna röðunar.

Á þskj. 845 ber atvmn. fram brtt. við till. til þál. á þskj. 197 um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu. Á þskj. 844 skilar nefndin einróma áliti. Nefndin er sammála um að ekki gefist ráðrúm til að gera orkunýtingu viðhlítandi skil á þeim skamma tíma sem Alþingi hefur nú til umráða. Þó eru orkunýtingunni að sínu leyti gerð betri skil hér en í þáltill. ríkisstj. því að þar er fátt bitastætt. Nefndin leggur áherslu á að ráðist verði í orkufrekan iðnað, eins og þar segir, sem tryggir hagkvæma nýtingu orkunnar frá tilgreindum virkjunum. Það er augljóst að sú stefna í orkunýtingarmálum, sem hæstv. iðnrh. hefur markað og hæstv. ríkisstj. öll lætur hafa sig til að fylgja, mun leiða til þess, að lítil þörf verður fyrir stórvirkjanir í framtíðinni nema gerbreytt verði um stefnu. Og nú skal ég gefa hv. 1. þm. Norðurl. v., Páli Péturssyni, gott ráð ef hann vill koma í veg fyrir að eitt einasta strá fari undir jökulvatn á Auðkúluheiði eða norður þar um langa framtíð. Ráðið er að styðja stefnu hæstv. iðnrh. nægjanlega ötullega í stóriðjumálum. Ef henni er fylgt t.d. út í hörgul og álverinu í Straumsvík lokað er enginn þörf fyrir vatnsmiðlun nyrðra, ekki á þessari öld og líklega ekki heldur á þeirri næstu.

Í 1. lið tillgr. segir svo í brtt. atvmn., með leyfi hæstv. forseta:

„Blönduvirkjun verði næsta meiri háttar — vatnsaflsvirkjun. Miðlun umfram 220 gígalítra verði ekki aukin fyrr en nauðsyn ber til vegna raforkukerfisins. Verði ágreiningur um aukna miðlun skal honum skotið til Alþingis, að fenginni tillögu ríkisstj.

Mér er ekki kunnugt um að deildar meiningar séu um það meðal hv. alþm., að Blönduvirkjun verði næsta meiri háttar vatnsaflsvirkjun. Það kemur þá í ljós við afgreiðslu þessarar till. ef svo er. Það er skoðun nefndarinnar að ráðast beri í virkjunina á þessu ári. Þegar af þeirri ástæðu er einsýnt að aðeins er um að tefla einn ákveðinn virkjunarstað. Enn aðrar ástæður renna stoðum undir það, m.a. að fyrirsvarsmenn létu undir höfuð leggjast að rannsaka fleiri og eru þeir því úr sögunni.

Mörgum orðum skal ekki farið um landverndarstefnuna, svo mjög sem allir hv. alþm. eru samhuga um ekki einvörðungu að verja landið gróðureyðingu, heldur verja til þess miklum fjármunum að græða það upp. Á Þingvöllum 1974 sórust þm. í fóstbræðralag um að svo skyldi gert og bætt fyrir misgerðir kynslóðanna við landið. Þess vegna ber að gæta þess hófs sem kostur er þegar nauðsyn ber til, eins og í þessu falli, að sökkva gróðurlendi undir jökulvatn, og fullar bætur eiga að greiðast landeigendum og land sé grætt upp fyrir búsmata Blöndumanna.

Eitt lýsandi dæmi um hvernig ekki á að haga sér, ef menn vilja á annað borð að mark sé á þeim tekið, birtist í fjölmiðlum á sunnudaginn var. Gróðurverndarsamtök nyrðra ályktuðu að mótmæla harðlega vinnubrögðum atvmn. Sþ. Þessi mótmæli sendu samtökin frá sér áður en þau höfðu heyrt eða séð niðurstöðu nefndarinnar, till, nál. eða ég tala nú ekki um málsútlistun. Ég verð fátalaður um slíkt framferði, enda svo ómerkilegt að engu tali tekur.

Nú kem ég að örstuttum kafla í framsöguræðu minni, sem gerð var tilraun til að öll hv. atvmn. gerði að bókun sinni og vonir stóðu til að þeir, sem áður höfðu tilkynnt um bókanir og bókað, eins og hv. 5. þm. Suðurl., Magnús H. Magnússonar, mundu geta dregið sínar bókanir til baka. Þetta heppnaðist ekki, en ég hygg þó að meiri hl. atvmn. standi að þessum kafla, sem ég skal afmarka í máli mínu nú, og muni gera það að sinni bókun. Hv. 5. þm. Suðurl. og hv. 5. þm. Vestf. höfðu áður tilkynnt um bókanir sínar og töldu sér umhendis að draga þær til baka og var það miður að vísu, en breytir engu í höfuðatriðum. Þessi bókun væntanleg hjá meiri hl. atvmn. hljóðar svo:

„Eins og nú standa sakir er nægjanlegt að vatnsmiðlun Blönduvirkjunar nemi 220 gígalítrum. Verði þörf fyrir aukna vatnsmiðlun í 400 gígalítra síðar skal Alþingi úrskurða í málinu, ef ekki næst fullt samkomulag hagsmunaaðila. Eðlilegt virðist að fela Landsvirkjun að meta þörfina fyrir hina auknu vatnsmiðlun, en lagt er til að samið verði við Landsvirkjun um framkvæmdir.

Atvmn. leggur áherslu á að öll stíflumannvirki verði byggð með sem mesta hagkvæmni fyrir augum, þegar allra þátta virkjunarframkvæmda er gætt. Skal frá upphafi búa í haginn fyrir aukið miðlunarrými í 400 gígalítra, ef nauðsyn krefur aukinnar vatnsmiðlunar að mati virkjunaraðila. Er einnig eðlilegt að fela virkjunaraðila, Landsvirkjun, að ráða mannvirkjagerð miðað við framangreindar forsendur“. — Lýkur svo þeirri bókun sem ég trúi að ég hafi leyfi til að tilkynna að sé bókun meiri hl. atvmn.

Ég held að mér sé einnig óhætt að fullyrða að meiri hl. atvmn. og e.t.v. langmestur meiri hl. hennar leggi ríka áherslu á að fela framkvæmdir í hendur Landsvirkjunar og enn fremur mat á allri hagkvæmni byggingar orkuversins í smáu og stóru. Á þetta vil ég leggja sérstaka áherslu. Og svo heldur sagan áfram með þessum hætti:

Engum getum skal að því leitt, hvort og þá hvenær þörf krefur stækkunar miðlunar úr 220 gígalítrum. Það verður auðvitað aldrei ef stefna hæstv. iðnrh. í stóriðjumálum verður ofan á um ókomin ár. En linni þeim ókjörum kann til þess að draga. Þó má ætla að hin gífurlega vatnsmiðlun Fljótsdalsvirkjunar við Eyjabakka, 1100 gígalítrar, muni seinka þörf fyrir stækkun miðlunarlóns við Blöndu um langa hríð, jafnvel að hennar verði aldrei þörf. Þess vegna einnig ber að hefjast hið fyrsta handa við Fljótsdalsvirkjun.

Í 2. lið tillgr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fljótsdalsvirkjun og síðar Sultartangavirkjun verði næstu meiri háttar vatnsaflsvirkjanir á eftir Blönduvirkjun. Eftir því sem orkuþörf gefur tilefni til skarist annars vegar Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun og hins vegar Fljótsdalsvirkjun og Sultartangavirkjun.“

Hv. alþm. geta séð í sjónhending hversu átaksillt mál þetta var í atvmn. þegar ég nú upplýsi að það náðist ekki samkomulag nema um skörunina, þetta ómál iðnrn. Skildir skarast og borð skarast í skarsúð, eins og gerðist í baðstofum og í súðbyrðingi. Menn skara fram úr, þó það eigi náttúrlega ekki sérstaklega við iðnrh. En það er ekki talað um skörun á framúrskarandi manni og þeim sem minna má sín. Meira að segja athöfnin að skara í eldinn með skörungi var aldrei nefnd skörun. Það hefði þó legið beint við, ef þetta orð hefði á annað borð verið til í málinu, sem ekki var, enda nauðaljótt. Ég þarf ekki að taka það fram, að þar sem ég tala um skörung í þessum fræðum er ekki heldur sérstaklega átt við þá í iðnrn.

Í 2. lið eru tekin af öll tvímæli um að Fljótsdalsvirkjun verði næsta meiri háttar vatnsaflsvirkjun næst á eftir Blönduvirkjun og að einhverju leyti samhliða henni, en það er það sem átt er við með þessari dæmalausu skörun. Enn fremur er tekið fram að Sultartangavirkjun verði hin þriðja í röðinni, geti að einhverju leyti orðið samhliða Fljótsdalsvirkjun ef þörf raforkukerfisins krefur. En dapurlegt er til þess að hugsa, að Fljótsdalsvirkjun verður aldrei að veruleika, ef stefna hæstv. ríkisstj. í stóriðjumálum verður ofan á um ókomin ár, né heldur Sultartangavirkjun og hross Húnvetninga fá í friði að rótnaga öll upprekstrarlönd Auðkúluheiðar um aldir alda.

Atvmn. leggur á hinn bóginn til að vegna Fljótsdalsvirkjunar fari rannsóknir á sölu orku til orkufreks iðnaðar fram jafnhliða virkjun, af því að nm. hafa trú á framtíð íslensks stóriðnaðar og vil ja vinna að framgangi hans. Og sömu sögu er að segja af Sultartangavirkjun. Nauðsyn ber til að rannsaka orkufreka iðjukosti um Suðurland og Suðvesturland.

Í nefndinni komu engin rök fram um að loka ætti átverinu í Straumsvík. Þvert á móti var minnst á nauðsyn stækkunar átversins. Framfarasinnaðir menn gera sér grein fyrir að vaxtarbroddur atvinnu og uppbyggingar, undirstaða aukinnar velferðar í þjóðfélaginu, liggur í beislun vatnsorkunnar og orku í iðrum jarðar og sölu orkunnar til stóriðju. Þess vegna ber að stefna að því, að slík iðjuver rísi í öllum landshlutum. Þar má hlutur Norðurlands ekki eftir liggja, og víst er um það, að þyki erfitt um vik á Vestfjörðum ber þjóðfélaginu að bregða á annað ráð og öflugt til að tryggja búsetuna þar og hagsæld íbúanna.

Í 3. lið brtt. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Samhliða næstu meiri háttar vatnsaflsvirkjunum verði unnið að orkuöflunarframkvæmdum á Þjórsár/Tungnaársvæðinu, með Kvíslaveitum, stækkun Þórisvatnsmiðlunar og gerð Sultartangastíflu. Búrfellsvirkjun verði stækkuð þannig að núverandi afkastageta vatnsaflsvirkjana á þessu svæði geti aukist um allt að 950 gwst. á ári.“

Miðað við áform um vatnsmiðlun á Þjórsár/Tungnaársvæðinu er nýting þess vatns við Búrfell eðlileg og sjálfsögð Nægir í því sambandi að benda á að kostir þess mannvirkis, sem fyrir er við Búrfell, nýtast að fullu nýjum aflvélum. Er eðlilegt að leitað verði lagaheimildar fyrir þeim aflauka við Búrfell í stað heimildar fyrir fjórðu aflvél við Hrauneyjafoss og við Sigöldu.

Ég hef þá lokið við að rekja og útlista niðurstöður atvmn., og eins og allri nefndinni tókst að ná höndum saman í málinu treysti ég því, að tillögugerð nefndarinnar hljóti einróma samþykki hins háa Alþingis. Vegna ágreinings heima fyrir er alveg sérstaklega mikilvægt að full samstaða náist um Blönduvirkjun. Það er mikilvægasta skrefið sem stigið verður til að menn á heimavígstöðvunum setji niður deilur sínar. Norðurland vestra hefur um árabil átt einna örðugast uppdráttar í atvinnumálum og fólksflótti herjað á byggðir landshlutans. Bygging Blönduvirkjunar mun skipta sköpum um alla framvindu mála norður þar. Stíflumannvirkin við Blöndu eru með þessari tillögugerð ákveðin við „Skollavatnshæð“, verður víst að nefna það svo að engum ofbjóði, með sveigjanleik sem hæstv. landbrh. bauð í bókun sinni í ráðherranefndinni 10. júlí 1981. Það er engum vafa undirorpið, að einróma samþykkt Alþingis nú um virkjun Blöndu munu Húnvetningar virða að fullu allir sem einn. Náist nú samstaða á hinu háa Alþingi er óhætt að óska þeim og landsmönnum öllum til hamingju með farsæla lausn þessa þjóðþrifamáls.