04.05.1982
Neðri deild: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4608 í B-deild Alþingistíðinda. (4394)

253. mál, ríkisreikningurinn 1978

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er von að herra forseti gerist nú heyrnarsljór með allan þann virkjunarnið í eyrum sem hann hefur haft undanfarna daga í þeirri ágætu nefnd atvmn. En eins og fram kemur í nál., sem hefur verið gerð grein fyrir, tók ég ekki þátt í afgreiðslu þessa máls, og eins og ljóst hlýtur að vera þeim, sem hlýddu á 1. umr. um málið á Alþingi; ætti ekki að vera hægt að velkjast í neinum vafa um hvers vegna.

Með ríkisreikningi fyrir árið 1978, sem, fylgdi þessu frv., eru óvenjulega margar aths. yfirskoðunarmanna. Sérstök athygli er þó vakin á alvarlegum aths. þeirra varðandi fjármál Kröfluvirkjunar. Í svörum ráðuneyta við fsp. yfirskoðunarmanna kemur í ljós að furðuleg vinnubrögð hafa verið viðhöfð af hálfu stjórnvalda, m. a. þar sem afskipti þáv. iðnrh. Gunnars Thoroddsens eru talin ganga í berhögg við reglur og fyrirmæli, auk þess sem veigamikil fjármálaleg samskipti ráðh, og Kröflunefndar eiga sér stað samkv. munnlegum ákvörðunum án þess að nokkur skrifleg heimild fyrirfinnist. Með sama hætti eru fjölmargar fjármálalegar ráðstafanir Kröflunefndar sjálfrar mjög óvenjulegar, svo að ekki sé meira sagt, og fyrir sumum finnast hvorki skrifleg gögn né fullnægjandi fskj.

Umsagnir yfirskoðunarmanna ríkisreiknings um þessi atvik eru m. a. á þá lund, að ákvarðanir þáv. iðnrh. stangist á við úrskurði fjmrn, um hvað heimilt sé, sbr. bls. 399 í ríkisreikningi, að engir pappírar finnist um ákvörðun launagreiðslna, sbr, bls. 399, að upplýsingar iðnrh. um þá hluti standist ekki, sbr. bls. 399, að ekki hafi verið gætt nauðsynlegs, aðhalds varðandi flugfargjöld og leiguflug, sbr. bls. 400; að svör hafi ekki upplýst það sem um var spurt, sbr. bls. 400, að komið hafi í ljós að um tvígreiðslur reikninga vegna útlagðs kostnaðar væri að ræða í sumum tilvikum, sbr. bls. 400, og eru hér aðeins nefnd nokkur dæmi úr umfangsmiklum aths. yfirskoðunarmanna ríkisreiknings.

Umfjöllun Alþingis um ríkisreikninginn og aths. með honum eru ekki fullnægjandi, enda skortir á að í starfsskipulagi Alþingis sé gert ráð fyrir að Alþingi geti verið sá eftirlitsaðili með fjárreiðum ríkisins og stofnana þess sem nauðsyn er farið að bera til. Til þess að svo geti orðið þarf að gera breytingar á lögum um þingsköp Alþingis svo og breytingar á. vinnubrögðum þingsins, eins og við þm. Alþfl. höfum. margbent á og flutt mörg frumvörp á Alþingi um. Málsmeðferð Alþingis á ríkisreikningum er enn ein sönnun þess, hve brýnar eru þær breytingar á skipulagi og starfsháttum Alþingis sem við Alþfl.-menn höfum barist fyrir.

Sú afgreiðsla frv. til samþykkis á ríkisreikningi fyrir árið 1978, sem nú stendur fyrir dyrum, er formlega séð aðeins samþykkt á því, að ríkisreikningurinn gefi rétta mynd af fjárreiðum ríkisins. og stofnana þess á árinu 1978, og er alls ekki dregið í efa að svo sé. Í þeirri afgreiðslu er hins vegar ekki unnt að taka neina afstöðu til atriða eins og aths. yfirskoðunarmanna sem nánast enga umfjöllun eða skoðun hafa fengið h'er á Alþingi. Við þm. Alþfl. teljum þessi vinnubrögð ekki viðunandi. Við ítrekum tillögur okkar um breytta starfstilhögun Alþingis, m. a. í þá átt að auka eftirlitshlutverk þingsins, og við leggjum áherslu á þá afstöðu okkar með því að hafa ekki afskipti af þeirri afgreiðslu sem hér á að fara fram með þeim hætti sem til er stofnað.