10.11.1981
Sameinað þing: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

334. mál, ráðstafanir vegna myntbreytingar

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 52 hef ég leyft mér að beina svohljóðandi fsp. til hæstv. viðskrh.:

„1. Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að koma í veg fyrir, að myntbreytingin um s. l. áramót valdi sérstökum verðhækkunum, einkum á smærri vöru og minni háttar þjónustu, umfram aðrar verðhækkanir?

2. Hvernig hefur Verðlagseftirlitinu verið beitt til aðhalds og eftirlits?

3. Eru til frá Verðlagseftirliti samanburðarskýrslur varðandi ýmsar smærri vörur fyrir og eftir myntbreytingu, og ef svo er, hvað hafa þær þá leitt í ljós?

4. Hefur rn. leitað til Neytendasamtakanna varðandi mál þetta, og ef svo er, hvað hefur þá verið gert af hálfu samtakanna?“

Fyrir nokkru reit ég greinarkorn í Dagblaðið þar sem bæði var rætt um áhrif myntbreytinga og gengisbreytinga á verðlagningu og hugsanlega misnotkun varðandi almennt vöruverð í tengslum við hvort tveggja. Ég rakti þar ýmis dæmi, sem trúverðugt fólk hefur sagt mér, um óeðlilegar hækkanir ýmiss konar smávöru og jafnvel minni háttar þjónustu, sem ég taldi nauðsynlegt að kanna frekar. Ég sparaði mér allar fullyrðingar um þetta mál og mun gera nú einnig, enda er það ekki við hæfi þó bein dæmi væri unnt að taka, sem illskýranleg virðast, um verðhækkanir vöru eftir myntbreytingu.

Mér þótti tilhlýðilegt í framhaldi af þessari litlu grein að kanna með fsp. hverjar ráðstafanir hefðu verið gerðar af þeim, sem eftirlits og aðhalds eiga að gæta, til að fyrirbyggja óeðlilegar verðhækkanir í tengslum við myntbreytinguna. Um það fjalla fsp. En frá því að þær komu fram hefur málið komist inn í sali Alþingis og á öldur ljósvakans einnig, út til þjóðarinnar allrar, þar sem fullyrðingar hafa verið mun stórtækari en ég fór með í Dagblaðsgreininni um ákveðna misnotkun í tengslum við myntbreytinguna. Á eftir því fylgdu svo viðtöl fjölmiðla við verðlagsstjóra þar sem hann m. a. sagði að allar meginvörur, sem snertu afkomu manna, hefðu ekki hækkað óeðlilega. Það er rétt að það komi fram, að því hefur aldrei verið haldið fram. En margt smátt gerir eitt stórt ef mikil brögð eru að misnotkun, svo sem fjölmargir halda óspart fram, og full ástæða er til að komast sem næst hinu sanna.

Það fer ekki milli mála að hundraðföldun verðgildis, hundraðföld breyting á verði allra vörutegunda, getur ruglað skýrustu menn og sú breyting getur einnig gefið óprúttnum aðilum ákjósanlegt tækifæri til að rugla menn enn frekar í ríminu. Það er sagt að verðbólga undangenginna fjölda ára hafi slævt verðskyn almennings. Hvað þá um slíka stökkbreytingu?

Ég vænti sem skýrastra svara hæstv. ráðh., því að hollast er í þessu sem öðru að hafa það sem sannara reynist.