04.05.1982
Neðri deild: 82. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4624 í B-deild Alþingistíðinda. (4437)

28. mál, almannatryggingar

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 901, um frv. til l. um breytingu á almannatryggingalögunum frá 1971, með síðari breytingum. Hér er um að ræða frv. sem flutt var snemma á þessu þingi, er 28. mál hv. Ed., en hefur rétt nýlega borist heilbr.- og trn. Nd.

Efni þessa frv. er í þá veru að lækka hlut sjúklinga í ferðakostnaði samlagslæknis jafnt sem flutningskostnaði sjúks manns í sjúkráhús. Flm., hv. þm. Kjartan Jóhannsson, Eiður Guðnason og Karl Steinar Guðnason, gerðu ráð fyrir í sínu upphaflega frv. að fella þennan kostnað sjúklinga algerlega niður; en eftir umfjöllun í Ed. bárust brtt. sem Nd. hefur raunar enn breytt. Málið mun ekki hafa farið til umsagnar frá hv. nefnd í Ed., en nefndin fékk til viðtals við sig Jón Sæmund Sigurjónsson deildarstjóra, sem gerði athugasemdir við frv. Okkur í Nd. þótti hins vegar rétt og lágmarksvirðing við Tryggingastofnun ríkisins að hún fengi að fjalla um þetta mál. En þar sem tími var afar naumur gafst ekki tækifæri til að senda málið út til umsagnar, heldur var fenginn til viðtals við nefndina deildarstjóri sjúkratryggingadeildar, Kristján Guðjónsson, sem er áreiðanlega —þó að ekki sé á aðra hallað — allra manna kunnugastur þessum málaflokki. Í samvinnu við hann unnum við upp nokkrar breytingar á frv. Breytingin, sem gerð var, er í stuttu máli sú, að ferðakostnaður samlagslæknis til samlagssjúklings verður ögn dýrari fyrir sjúkling þar sem ekki er um að ræða númerasamning um læknishjálp, en fyrir þá, sem fjær búa, jafnast sá kostnaður.

Í sambandi við sjúkraflutninga, sem lengi hafa verið vandamál í framkvæmd hjá Tryggingastofnun ríkisins, breytist framlag sjúklings á þá leið að í stað þess að sjúklingur greiddi áður 1/4 hluta greiðir hann nú 1/8 hluta og aldrei meira en 500 kr.

Það er alkunna að fyrir fólk sem býr í dreifðari byggðum, geta sjúkraflutningar orðið afar dýrir. Ástæðan fyrir því, að nefndirnar voru ekki sammála um að leggja þennan kostnað alveg niður, var sú, að gjaldskrá flugfélaga t. d., sem annast þessa sjúkraflutninga, er engin til. Það þótti ekki verjandi að hafa ekkert eftirlit, ef svo má segja, með því verði sem upp er sett, og þess vegna töldum við ekki rétt að steppa þessu alveg lausu. En hér hefur sannarlega orðið mikil bót á kjörum þeirra sem þessarar þjónustu njóta. Og annað atriði er í þessu frv., sem var raunar í frv. hv. flm., sem er til mikilla bóta, að nú er höggvið á þann hnút hver skuli greiða flutning sjúklinga milli sjúkrahúsa.

Þá er hér ákvæði um að einnig skuli greitt fyrir fylgdarmann og það jafnvel þó um áætlunarferð sé að ræða. Það er enginn vafi á því, að þetta frv. er til mikilla bóta, enda varð nefndin sammála um að mæta með samþykkt þess og hefur kynnt flm. þær breytingar sem gerðar hafa verið. Við viljum fara fram á það við hv. nefnd Ed., að hún fjalli um málið sem fyrst hún má, þannig að það þurfi ekki að tefja framgang málsins á þessu þingi þó að senda verði það til nefndarinnar aftur.

Allir nm., sem viðstaddir voru, skrifuðu undir nál. og lögðu til þær brtt. sem liggja fyrir á þskj. 900, en Pálmi Jónsson var fjarstaddur afgreiðslu málsins.