10.11.1981
Sameinað þing: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

334. mál, ráðstafanir vegna myntbreytingar

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans við spurningum mínum. Ég skal taka undir það fúslega með hæstv. ráðh., að aðalverkefni Verðlagseftirlitsins og verðlagsyfirvalda sé að fylgjast með hinum mikilvægustu vörum og þeim vörum sem þyngst vega í neyslu heimilanna. Vissulega er það rétt. En í tilfelli eins og þessu var kannske enn meiri ástæða til að fylgjast með ýmsu því smærra sem getur þegar öll kurl koma til grafar vegið býsna þungt í pyngju manna ef ekki er nægilega vel að því gáð.

Það kom fram í máli hæstv. ráðh., í svari sem hann las upp frá verðlagsyfirvöldum, að bein afskipti hafi verið lítil af annarri vöru, þ. e. ýmiss konar smærri vöru sem ég spurði sérstaklega um, og raunar viðurkennt í svari verðlagsyfirvalda að þau vissu um nokkur dæmi um smærri vörur þar sem hækkanir hefðu orðið óeðlilega miklar, en þau hefðu ekki gripið inn í. Ég harma að svo skuli ekki hafa verið gert og gef lítið fyrir að skýringar séu að verslunareigendur hafi verið að hagræða einhverju hjá sér í sambandi við vöruverð, eins og kom fram í svarinu frá verðlagsyfirvöldum. Ég hélt einmitt að hlutverk Verðlagseftirlitsins væri að sjá um að menn hagræddu ekki slíku sér í vil á óeðlilegan hátt, eins og þarna mátti glögglega greina.

Varðandi Neytendasamtökin er það rétt, að e. t. v. hefðu Neytendasamtökin átt að vera fyrri til, vera frumkvæðisaðili í þessum efnum, og rn. ekki beinlínis að leita til þeirra. Ég fagna því, hins vegar að Verðlagseftirlitið hefur tekið upp samstarf við Neytendasamtökin.

En það er alveg ljóst af þeim svörum, sem þarna hafa komið fram, að um það eru býsna mörg dæmi að myntbreytingin hafi verið notuð til óeðlilegrar verðlagningar. Ég vil nú beina því til hæstv. ráðh., að hann fylgi þessu máli enn betur eftir en hann hefur gert, þó að hann hafi beðið Verðlagseftirlitið sérstaklega að gæta að þessu máli, og sjái svo um að hin svokallaða hagræðing verslunareigenda, sem kom fram í svari verðlagsyfirvalda, verði ekki nýtt meira en góðu hófi gegnir. Vissulega kemur þetta býsna hart við menn ef mörg dæmi eru um það, eins og reyndar var viðurkennt í svari ráðh.