05.05.1982
Neðri deild: 84. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4666 í B-deild Alþingistíðinda. (4492)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil í sambandi við þessa atkvgr. gera svofellda grein fyrir afstöðu minni og þeirra hv. þm. úr stjórnarandstöðuhópi Sjálfstfl. sem styðja þetta frv.:

Fulltrúar Sjálfstfl. í iðnn. Nd. hafa flutt brtt. þess efnis, að það skilyrði falli brott, að ríkissjóður skuli jafnan eiga minnst 51% af hlutafé félagsins. Það er skoðun okkar, að leita eigi eftir sem mestu áhættufé í slík fyrirtæki í formi hlutafjárframlaga frá einstaklingum, sveitarfélögum og fyrirtækjum og jafnframt dreifa áhættunni með samvinnu við erlenda aðila, enda verði íslenskt forræði tryggt með samningum.

Till. okkar hefur verið felld. Brtt. meiri hl. iðnn. miða hins vegar að því, að hlutafélagið verði undirbúningsfélag þar til Alþingi hefur fjallað um málið að nýju, og varla er við því að búast að einkaaðilar leggi fram fjármagn til slíks félags. Jafnframt er gert ráð fyrir því í brtt., að frekari undirbúningur málsins verði tekinn úr höndum iðnrh. og falinn þingkjörinni stjórn. Við styðjum því frv., en munum meta fyrirkomulag eignaraðildar þegar málið kemur fyrir Alþingi að nýju. Ég segi því já.