05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4692 í B-deild Alþingistíðinda. (4528)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um þingsköp í tilefni af þessari tilkynningu úr forsetastól um kvöldfund í hv. deild nú í kvöld. Það verður þá þriðji kvöldfundurinn í vikunni sem haldinn er, og með því að þm. hafa verið önnum kafnir frá því árla að morgni og fram á nótt þessa daga finnst mér um töluverða vinnuhörku að ræða. Ég hef ekkert á móti vinnuhörku út af fyrir sig, og þótt benda megi á að þessi hv. deild og Alþingi í heild hafi samþykkt lög um vinnuvernd, sem kveði á um hámarksvinnutíma manna og væntanlega alþm. sem annarra vinnandi manna, er ég ekki nauðsynlega að bera þá löggjöf fyrir mig, en tel þó að æskilegt sé að alþm. fari að lögum um eigið vinnulag með sama hætti og þeir gera kröfur um að gert sé í þjóðfélaginu í heild.

Ég bendi líka á að svo vinnusamur maður sem Lúðvík Jósepsson var og er kom hann oftar en einu sinni að máli við mig og tók það fram, að þótt hann væri reiðubúinn og teldi eðlilegt ef þörf krefði, eins og oft vill verða í lok þings, að kvöldfundir væru haldnir, þá væru þeir hið mesta tveir í viku hverri. Nú vil ég taka undir þessa skoðun. Og þetta var meira en skoðun þáv. hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar. Þetta var krafa hans sem leiðtoga stjórnarandstöðu á þeim tíma til ríkisstjórnarinnar. Við þeirri kröfu var orðið og hún virt. Ég beini því til hæstv. forseta, að hann haldi slíkt vinnulag í heiðri.

Nú þykist ég vita að hæstv. forseti sé ekki höfundur að því að halda kvöldfund hinn þriðja í röðinni í þessari viku, heldur geri hann það af því að hann telji sér skylt að verða við kröfu ríkisstj. í þessum efnum. Mér er ljóst t. d. að hæstv. forseti Nd. hefur ekki ástundað kvöldfundi og hlíft þm. við kvöldfundum og jafnvel er talið að fundurinn í gærkvöld hafi verið sá eini á þessu ári í deildinni. Aftur á móti hafa verið kvöldfundir í Sþ. núna að undanförnu.

Það er eðlilegt að ríkisstj. vilji koma sínum málum fram, og ég tek það skýrt fram, að stjórnarandstaðan er reiðubúin að sitja að störfum á eðlilegum tímum dags til að ljúka afgreiðslu mála og er reiðubúin að sitja á þingi meðan þörf krefur að þingið fjalli um mál og taki til afgreiðslu. En hér er um það að ræða að nokkurt skynsamlegt lag verði á þingstörfum. Ég er þeirrar skoðunar, að það yrði til þess að stytta þinghaldið í heild sinni og flýta afgreiðslu mála ef þessi regla, sem viðhöfð hefur verið, að því er ég best veit, a. m. k. meðan ég hef átt sæti á þingi, væri virt. Ég er sannfærður um að ríkisstj. mundi ná meiri árangri og fá mál sín afgreidd á styttri tíma en ella ef hún virti þetta vinnulag og yrði við þessum sanngjörnu kröfum okkar í stjórnarandstöðunni.