05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4696 í B-deild Alþingistíðinda. (4532)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það þarf raunar ekki að minna á að það eru þdm. sem kjósa forseta þingdeildar. Yfirleitt var það venja lengi vel að hann væri kjörinn úr hópi stjórnarsinna, en að þessu sinni er hann úr hópi stjórnarandstæðinga. En þrátt fyrir það, meðan forseti var kjörinn úr hópi stjórnarsinna, taldi hann það skyldu sína að reyna að taka eins mikið tillit til óska þm. almennt, hvort sem það voru stjórnarsinnar eða stjórnarandstæðingar, og mögulegt var. Mér er ljóst að það hefur ekki verið haldið uppi löngum fundum hér í þd., heldur raunar fremur í Sþ., en taka ber tillit til þess, hvað vinnuálag er mikið á þm. Taka ber einnig tillit til þess, hversu mörg mál liggja hér fyrir, og þeirrar vinnu, sem unnin hefur verið í nefndum. Og það vil ég taka fram, að það hefur ekki staðið á okkur stjórnarandstæðingum að greiða fyrir málum úr nefndum.

Nú vill svo til að í sumum nefndum hefur ríkisstj. ekki meiri hl., en þar hefur ekki verið beitt þeirri aðferð að nota meirihlutaaðstöðu til að liggja á málum ríkisstj., heldur hefur í öllum tilfellum verið reynt að greiða þannig fyrir málum ríkisstj. að þau fái eðlilega þinglega afgreiðslu úr nefndum. Ég sé heldur enga ástæðu til þess, þó þannig standi á, að stjórnarandstæðingar eigi að beita þvílíkri aðferð.

Því spyr ég nú hæstv. forseta: Hvað er það sem knýr á um að halda svona stíft áfram? Kemur ekki dagur eftir þennan dag og annar dagur eftir þann dag? Eru þm. ekki hér á kaupi? Geta þeir ekki haldið áfram að vinna við eðlilegar aðstæður? Hver er það sem lætur svona við hæstv. forseta? Hvaða huldumaður er þetta — eða er heill hulduher á bak við? Hér koma þm. hver á fætur öðrum og segjast alls ekki vilja viðhalda vinnubrögðum sem þessum. Hefur ekki hæstv. forseti það vald að geta tekið tillit til óska? Mér heyrðist á hv. skrifara deildarinnar að hann vissi eitthvað meira í þessum efnum, en hann er orðvar maður, eins og allir vita, og vildi ekki skýra nánar frá því. Hins vegar er ég alveg saklaus af því að vita nokkurn skapaðan hlut í þessum efnum, og því spyr ég hæstv. forseta: Hví vill hann ekki taka tillit til almennra óska samflokksmanna sinna í þessari deild, til almennra óska talsmanns Alþfl. hér áðan — og sannarlega eiga fleiri eftir að koma? Vilja ekki hv. stjórnarsinnar bera fram kröfu um að halda hér áfram nótt og dag þannig að enginn viti neitt? Það væri þó gaman að fá þá inn í þingtíðindin sem þannig vilja vinna. Vilja þeir ekki koma fram í dagsljósið sem liggja svo á forseta að þessi mikli þrekmaður og kjarkmaður er nú alveg að niðurlotum kominn?