05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4696 í B-deild Alþingistíðinda. (4533)

Umræður utan dagskrár

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það þarf í sjálfu sér engan að undra hvers vegna svo er komið þingstörfum sem nú er öllum ljóst. Ástæðan er sú, að það hefur ekki fengist fram ákvörðun um hvenær þinglausnir skuli fara fram eða þá hvaða málum skyldi lokið. Það er ekki fyrr en núna rétt áðan sem sú ákvörðun virðist hafa verið tekin.

Við formenn þingflokka og forsetar þingsins höfum setið á mörgum fundum hvern einasta dag undanfarna daga til að ræða þessi mál. Við formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar höfum spurt: Hvenær eiga þinglausnir að fara fram? Við höfum ekki fengið svar við svo einfaldri spurningu. Ég vil taka það alveg sérstaklega fram, að frá því að við hófum þessa fundi okkar, sem var reyndar í mars, hefur hæstv. forsrh. aldrei nefnt neinn sérstakan dag. Ég er ekki að segja það honum neitt til lasts, en hann hefur ekki nefnt sérstakan dag. Það hafa hins vegar verið lagðir fram listar yfir mál stjórnarinnar, sem hún hefur óskað eftir að næðu fram að ganga. Ég er með þessa lista hérna hjá mér. Fyrsti listinn var lagður fram 10. mars. Á honum eru 48 mál. Næsti listi er lagður fram 20. apríl og á honum eru 59 mál. 28. apríl er enn lagður fram nýr listi með 50 málum. Og síðasti listinn er frá 29. apríl með 35 málum. Nú kann einhver að halda, þegar hann heyrir þessar tölur, að hér hafi bókstaflega ekkert gengið í þinginu þessa daga, en það er öðru nær. Það hafa sífellt verið að bætast við á óskalista ríkisstj. mál sem hún hefur viljað fá afgreiðslu á. Við þessu er í sjálfu sér ekkert að segja. En það er ekki hægt að krefjast þess af stjórnarandstöðunni annars vegar, að hún afgreiði allan málafjöldann, og hins vegar að hún geri það á tilteknum degi.

Það hefur legið í loftinu hér í þinginu að undanförnu, að þinglausnir skyldu fara fram — ja, fyrst þann dag, sem nú er að líða, og síðan hefur það legið í loftinu að þinglausnir skyldu fara fram á morgun. (Gripið fram í.) Já, það er lengra síðan og ég ætla ekki að fara svo langt aftur í tímann. Ég held að það sé í raun og veru öllum ljóst, að þinglausnir geta ekki farið fram á morgun ef afgreiða á þau stóru mál sem geymd hafa verið til þessara síðustu daga. Ég nefni bara þau mál sem eru nú til meðferðar hér í þessari hv. deild. Það er frv. um Hæstarétt og frv. um lyfjadreifingu. Þetta eru mál sem stjórnarliðar hafa sérstaklega þurft að tala um og eiga víst eftir að halda sverar ræður um enn, eftir því sem ég best veit. Það er mál fatlaðra, sem mér skilst að stjórnarliðar eigi eftir að tala töluvert um. Það er sykurverksmiðjan blessuð. Mér skilst að það séu einhverjir áhugamenn í stjórnarliðinu um að það frv. nái fram að ganga. Það er frv. um fóðurverksmiðjur. Og það er síðast en ekki síst frv. um skattskyldu innlánsstofnana sem a. m. k. við stjórnarandstæðingar höfum ýmislegt um að segja áður en það frv. verður að lögum.

Í hv. Ed. er eftir að ræða frv. um kísilverksmiðju á Reyðarfirði sem fyrst var að berast til þeirrar deildar í dag. Og hvernig ætlast menn til að svona mál verði afgreidd á einum degi í gegnum aðra deild þingsins? Það er til of mikils mælst.

Í Sþ. er horfið frá fjölda mála sem ekki er lokið. Ég nefni þar skýrslu utanrrh., ég nefni skýrslu um Framkvæmdastofnun ríkisins, landbúnaðarmál og fleira mætti eflaust fram telja. Menn hefðu auðvitað líka áhuga á að ræða hér í þinginu málefni ÍSALs eða Alusuisse þegar við lesum viðtal við hæstv. iðnrh. í einu dagblaðanna í dag um það sem þar er að gerast. Það er ekki verið að tala um það hér í þinginu, heldur er talað um það við blaðamenn úti í bæ og engin ástæða til að ræða hér. Þetta vil ég nú nefna af mörgum málum sem eru órædd hér á hv. Alþingi.

En eins og ég sagði áðan virðist nú loks þeirri grundvallarspurningu svarað, hvort eigi heldur að gera: að slíta þingi á morgun eða afgreiða þau mál sem á dagskrá eru. Ef ég skil hæstv. forsrh. rétt hefur ríkisstj. tekið þá ákvörðun að halda áfram þingstörfum þangað til þessi mál hafa verið afgreidd. Þetta er alveg fullnægjandi svar fyrir okkur í stjórnarandstöðunni. Við ætlum okkur ekki og getum ekki brugðið fæti fyrir neitt af þessum málum.

Auðvitað getur ríkisstj. með sínu stuðningsliði hér á þinginu komið þeim öllum í gegn og það getur hún gert okkar vegna. En við krefjumst þess, eftir að þessi grundvallarákvörðun hefur verið tekin, að hér verði stunduð þingstörf með eðlilegum hætti, hætt næturgöltri hér og því verði hætt að þvinga mál óathuguð í gegnum þingið. Þess vegna ítreka ég þá kröfu sem hér hefur þegar komið fram, að það verði ekki haldnir fleiri kvöldfundir í þessari viku og, eins og ég sagði áðan, þingstörfum verði haldið áfram með eðlilegum hætti. Okkur er alveg sama í stjórnarandstöðunni þótt því verði ekki svarað í dag, hvaða dag eða á hvaða klukkustund þinglausnir fari fram. Við erum tilbúnir til að sitja hér áfram.