05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4698 í B-deild Alþingistíðinda. (4534)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig alveg rétt, að forsetar deilda og Sþ. eru kjörnir af þm. og gegna trúnaðarstarfi sem þeim er falið af þingbræðrum þeirra. En hitt er auðvitað alveg jafnljóst, að það er hæstv. ríkisstj. og fyrst og fremst hæstv. forsrh. sem fer með verkstjórn í þinginu, og því verða hæstv. forsetar að taka nokkurt tillit til vilja ríkisstj. um vinnuálag hér á Alþingi í ákvörðunum sínum. Þó svo hæstv. forseti þessarar deildar sé kjörinn af þingbræðrum sínum er ég sannfærður um að það er fyrir tilstuðlan ríkisstj. sem hann óskar eftir að þriðji kvöldfundurinn í röð sé nú hafinn þrátt fyrir að það sé lengi búin að vera viðtekin venja á Alþingi, a. m. k. ef marka má margítrekaðar yfirlýsingar fyrrv. alþm. og reynds þm. Lúðvíks Jósepssonar, að það sé ekki vaninn og hafi ekki verið vaninn að hafa meira en tvo kvöldfundi á Alþingi í viku hverri, — ekki vegna þess að þm. sé ofætlun að vera hér á kvöld- og næturfundum, heldur vegna hins, að störf þingsins fara ekki aðeins fram á málfundum í deildum og í sameinuðu Alþingi, heldur ekki síður í nefndum og í störfum á þingflokkafundum sem eru nauðsynlegur þáttur í starfi þingsins. Það er alveg augljóst að þegar málfundir eru hér á Alþingi frá því á morgnana og fram á rauðar nætur gefst lítill tími til nefndarstarfa og til þingflokksfunda.

Ég vil biðja hæstv. forseta að skoða mjög vandlega hug sinn áður en hann leggur í það, hæstv. forseti, þó til sé hvattur, að breyta slíkum áralöngum starfsvenjum hér á Alþingi sem ávallt hefur verið tekið tillit til, að því er ég best man eftir, þegar aths. hefur verið hreyft varðandi slík vinnubrögð. Hins vegar er hæstv. forseti ekki í öfundsverðri stöðu því að menn taka væntanlega efir því, að hann hefur fáu viljað svara fsp. þm. um hvers vegna þetta standi til, hvaða rök séu fyrir því og hvort hann fáist til að breyta þeirri ákvörðun. Ástæðan fyrir því er að sjálfsögðu sú, að hér er ekki um að ræða ákvörðun sem hæstv. forseti hefur sérstakan áhuga á að taka, heldur er hann að reyna að framkvæma vilja annarra sem ættu að vera í forsvari og hljóta að vera í forsvari, og það er hæstv. forsrh. og hans ríkisstjórn. Í þessu hlutverki má segja að hæstv. forseti sé þrátt fyrir allt nokkurs konar umboðsmaður slíkrar ríkisstjórnar. (Gripið fram í: Umbi.) Nokkurs konar umbi, já, það er rétt. Síðan mér varð ljóst að hæstv. ríkisstj. lifir í samræmi við lífsreglur Jóns Prímusar hef ég gert mér til dundurs að fletta upp í þeirri ágætu bók Kristnihaldi undir Jökli eftir Halldór Laxness. Þar dettur maður yfirleitt ofan á tilvitnanir sem falla mjög að flestum tilvikum sem upp koma í starfsemi núv. ríkisstj. og gætu átt vel við um afstöðu forseta nú. Umbi segir á bls. 302 í svipaðri „situation“ og hæstv. forseti er nú í, með leyfi forseta:

„Umbi: Ég hef ekki umboð til að útskýra neitt. Mér hefur eiginlega verið bannað að leggja fram álit, því að annars er hætt við að biskup og þeir verði sviptir tækifæri til að hugsa.“

Ég held að þetta eigi nokkuð vel við þá stöðu sem hæstv. forseti er í. Hann hefur eiginlega ekki umboð til að útskýra hér neitt því að ella væri hætt við að herra biskupnum og þeim gæfist ekki tækifæri til að hugsa.

Annars vil ég taka fram, herra forseti, að mér finnst ástæða til að gera sérstakar aths. við að ítrekað er farið að bera á að handhafar framkvæmdavaldsins líti á Alþingi einvörðungu sem afgreiðslustofnun fyrir sjálfa sig og þyki lítið til hlýða að taka tillit til vinnubragða á Alþingi eða til þeirra þarfa sem alþm. hljóta að hafa til að kynna sér mál sem lögð eru fyrir þá. Það er t. d. farið að gerast að handhafar framkvæmdavalds, eins og hæstv. fjmrh., taka upp á því að snupra ekki aðeins einstaka þm., heldur þingnefndir og þingdeildir fyrir að hafa afgreitt mál sem hæstv. fjmrh. flytur ekki sjálfur og hæstv. fjmrh. telur ekki þess eðlis að eigi skilið að afgreiða hér á Alþingi. Ég þekki ekki mörg dæmi slíks, að handhafar framkvæmdavaldsins telji sig vera í slíkri aðstöðu til að snupra löggjafarvaldið, en þetta er farið að gerast og er því miður ekki einsdæmi.

Þá er líka orðið mjög áberandi og þá sérstaklega með þá hæstv. ráðh. í núv. ríkisstj. sem hafa ekki áður setið á Alþingi og þekkja því ekki þau vinnubrögð, sem hér viðgangast, og þá vinnu, sem hér er framkvæmd, að þeir telja sig ekki þurfa að hafa neitt samráð við Alþingi annað en að tilkynna þinginu hvenær þeir óski eftir að Alþingi afgreiði sem lög tiltekin mál sem þeir hafa undirbúið. Dæmi um þetta eru að sjálfsögðu ýmis mál bæði frá hæstv. iðnrh. og hæstv. félmrh., en hvorugur þeirra hefur starfað hér á Alþingi sem almennur þingmaður. Báðir þessir hæstv. ráðherrar gera ráð fyrir að þeir geti undir þinglokin lagt fram frv. sem e. t. v. hafa verið lengi í athugun í þeirra ráðuneytum og jafnvel lengi í athugun í stjórnarflokkunum, en varða stórmál, og síðan ætlast þeir til að hægt sé að afgreiða þessi mál á hálfum mánuði eða þremur vikum sem lög frá Alþingi. Þetta hefur t. d. ávallt átt við um þau stóriðju- og iðnaðarfyrirtæki sem hæstv. iðnrh. hefur haft áhuga á að fá afgreidd. Tvívegis, bæði undir þinglok í fyrra og undir þinglok nú, leggur hann fram viðamikil frumvörp um slík fyrirtæki sem hann bókstaflega ætlast til að Alþingi afgreiði sem lög á kannske hálfum mánuði til þremur vikum. Þetta sýnir ekki annað en það, að þessi hæstv. ráðh. þekkir ekki til þeirra starfa, sem fram fara á löggjafarsamkundu, hæstv. ráðh. hirðir ekki um að kynna sér hvernig þeim störfum er varið. Ég vil enn ítreka og biðja menn að minnast þess, að þegar frv. um annað fyrirtæki af þessari legund var afgreitt sem lög héðan frá Alþingi á sínum tíma, álverið við Straumsvík, fylgdu á undan því eins og hálfs til tveggja ára nákvæmar athuganir, sem ekki bara þáverandi stjórnvöld áttu aðild að, heldur einnig stjórnarandstaðan.

Það er ekki hægt að kvarta undan því, að við stjórnarandstæðingar höfum ekki reynt að gera það sem við höfum framast getað til að afgreiða þau mál sem hæstv. ríkisstj. hefur með þessum hætti óskað eftir að við afgreiddum. Þvert á móti höfum við jafnvel gengið lengra til móts við ríkisstj. í þessum efnum en verjandi er, svo sem afgreiðslan var á sjóefnavinnslufrv. hér í fyrra. Tekið skal fram að þar lýsi ég að sjálfsögðu aðeins minni persónulegu skoðun, ekki afstöðu míns flokks. Ég hef orðið rækilega var við það á Alþingi í vetur, að það eru ekki bara nokkrir stjórnarandstæðingar, sem áttu hlut að þeirri afgreiðslu, sem vildu gjarnan hafa getað fengið tíma til að skoða það mál betur, heldur hef ég orðið þess áþreifanlega var í röðum stjórnarsinna, að margir þeirra hefðu gjarnan kosið að geta gefið sér rýmri tíma til að athuga það mál á þeim tíma. En það verður ekki undan því kvartað, að við viljum ekki leggja okkur fram um að komið verði við afgreiðslu á þeim málum sem hæstv. ríkisstj. óskar með þessum hætti eftir að afgreidd verði.

Herra forseti. Við höfum setið á fundum með forseta Sþ. og forsetum deilda, formenn þingflokka stjórnar og stjórnarandstöðu, tvo og upp í þrjá fundi á dag að undanförnu. Það er langt síðan forseti Sþ. tók þá ákvörðun, þegar menn sátu uppi með 59 stjórnarmál, mörg af þeim stór, eins og umrædd verksmiðjufrv. sem ég nefndi, að óska eftir að hæstv. ríkisstj. raðaði þessum málum upp í forgangsröð þar sem hæstv. ríkisstj. gerði grein fyrir því, hvaða málum hún vildi gefa forgang varðandi afgreiðslu og hvaða mál hún mundi þá heldur vilja láta mæta afgangi ef ekki ynnist tími til að afgreiða allan þennan málatilbúnað fyrir þann tíma að hæstv. ríkisstj. vildi láta þingi lokið. Það svar hefur ekki verið gefið enn. Þessi forgangsuppröðun hefur aldrei verið framkvæmd. Það sýnir hvernig verkstjórn hæstv. ríkisstj. er háttað á þinginu, þó svo forsetar séu allir af vilja gerðir að knýja málin fram. Hæstv. forsetar hafa verið allir af vilja gerðir til að gefa okkur stjórnarandstæðingum einhver svör um hvenær fyrirhugað sé að stefna að þinglausnum eða framkvæma þinglausnir, en þeir hafa aldrei getað gefið þessi svör vegna þess að það hefur aldrei fengist nein niðurstaða frá hæstv. ríkisstj. Þaðan fást aldrei nein svör, hvorki í þessum málum né í öðrum. Við höfum ítrekað orðið að ganga á fundi þingflokka okkar, komandi beint af fundum forseta, og engin svör getað gefið um þessi mál.

Nú virðist það vera ákvörðun hæstv. ríkisstj. að halda þingi áfram þangað til búið sé að afgreiða öll þau mál sem afgreiðslu bíða og er það vissulega ákvörðun út af fyrir sig. Þessi ákvörðun þýðir að ekki er tengur stefnt að ákveðnum þinglausnadegi né ákveðnum þinglausnatíma, heldur tekin sú efnislega ákvörðun að halda áfram þingstörfum þangað til afgreiðslu mála er lokið. Að sjálfsögðu er ekkert við það að athuga, og ég fagna því, að þessi ákvörðun skuli loksins liggja fyrir. En þegar ekki er neitt knýjandi um þinglausnatímann, þegar hæstv. ríkisstj. telur sig ekki til þess knúða að láta þinglausnir fara fram á ákveðnum degi, þá er að sjálfsögðu engin þörf tengur á því að keyra fundi hér fram eins og gert hefur verið að undanförnu og eins og virðist eiga að gera nú. — Mér heyrðist á hæstv. forsrh. að hann væri að kalla eitthvað fram í, sennilega um að honum hafi snúist hugur. Gott og vel. Það má vel vera og það er þá ákvörðun út af fyrir sig. Hafi hæstv. forsrh. snúist hugur þannig að hann geti einhverja aðra ákvörðun tilkynnt okkur núna en þá ákvörðun sem hæstv. forseti Sþ. tilkynnti mér fyrir skömmu, lát oss þá heyra ákvörðun hæstv. forsrh.