05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4732 í B-deild Alþingistíðinda. (4555)

215. mál, skattskylda innlánsstofnana

Frsm. minni hl. (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hl. fjh.- og viðskn. um frv. til l. um skattskyldu innlánsstofnana. Vil ég með leyfi forseta lesa nál.

„Fjh.- og viðskn. hefur fengið umsagnir frá ýmsum aðilum í bankakerfinu svo og átt við þá viðræður. Einnig hefur fjmrn. gefið umsögn um málið og fulltrúar þess komið á fundi nefndarinnar.

Sýnt þykir að ef frv. verður að lögum þurfi að endurskoða lögin i heild fyrir næsta þing.

Undirritaðir nm. telja eðlilegt að bankamálanefnd sú, sem nú er að störfum, annist þessa endurskoðun, en þar eiga fulltrúar allra stjórnmálaflokka sæti.

Þar sem skattlagning innlánsstofnana á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, er nýmæli í íslenskum lögum, þykir eðlilegt að nægur tími gefist til lagasetningar og umfjöllunar Alþingis um málið, ekki síst með tilliti til þess, að hér er um sérhæfða starfsemi að ræða.

Undirritaðir nm. mæla með því, að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem flutt er á sérstöku þskj. við V. ákvæði til bráðabirgða.“

Undir þetta rita Halldór Ásgrímsson, Ingólfur Guðnason og Guðrún Hallgrímsdóttir.

Með þessu nál. fylgir svo greinargerð um skattamál viðskiptabanka og sparisjóða. Einnig fylgir þar bréf frá Iðnaðarbanka Íslands, dags. 29. apríl 1982, til fjh.- og viðskn. Nd. Alþingis. Þá fylgir þar bréf frá Sambandi ísl. viðskiptabanka, í fjórða lagi bréf fjmrn. og í fimmta lagi svar Sambands ísl. viðskiptabanka við því bréfi. En það, sem nefndin gerir að tillögu sinni, er breyting, eins og ég sagði áðan, við ákvæði til bráðabirgða V. Ákvæðið orðist svo:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. laga nr. 40/1969, um umboðsþóknun og gengismun gjaldeyrisbankanna, skulu bankar þeir, sem versla með erlendan gjaldeyri, greiða ríkissjóði frá gildistöku laga þessara til ársloka 1982 50% af heildartekjum sínum vegna mismunar sölugengis og kaupgengis gjaldeyris, svo og 50% þóknun (provision) þeirri er þeir taka af viðskiptamönnum sínum fyrir þjónustu við yfirfærslu fjár til útlanda eða aðrar greiðslur erlendis.

Lög þessi og lög nr. 40/1969 skulu endurskoðast af starfandi bankamálanefnd fyrir þingbyrjun haustið 1982.“

Frv. það, sem hér er til umr., grípur inn á nýtt svið í löggjöf á Íslandi þar sem innlánsstofnanir hafa ekki áður verið skattlagðar á þann hátt sem frv. gerir ráð fyrir. Hér er því um nýmæli að ræða í íslenskum lögum, og eins og alltaf þegar svo stendur á að farið er inn á nýtt svið er full ástæða til að fara með gát og flýta sér hægt. Til margra átta þarf að líta þegar löggjöf um nýtt svið er sett eins og hér er gert. Styrkur innlánsstofnana felst að verulegu leyti í eiginfjárstöðu hennar og er þá eiginfjárstaða gjarnan miðuð við skuldbindingar viðkomandi stofnunar. Nokkrar líkur eru til að höfundar frv. hafi ekki tekið nægilegt tillit til þessa atriðis, og vísa ég í því sambandi til frv. til l., eins og raunar frsm. meiri hl. n., hv. alþm. Matthías Á. Mathiesen, gerði, um sparisjóði, sem lagt var fram á Alþingi nýlega. Þar er það gert að skilyrði fyrir heimild til rekstrar sparisjóðs að eigið fé sparisjóðs sé 10% af skuldbindingum, miðað við eiginfjárstöðu sparisjóða. Því er sýnt að fara þarf með mikilli gát við skattlagningu þeirra svo að eiginfjárstöðu þeirra verði ekki stefnt í voða. Það sama verður að sjálfsögðu að segja um bankana. Eiginfjárstöðu þeirra má ekki veikja verulega, en samkv. niðurstöðu reikninga allra viðskiptabankanna er meðaltal eigin fjár miðað við heildarskuldbindingar 6.8% í árslok 1981.

Í sambandi við lagasetningu þá, sem hér um ræðir, verður einnig að taka tillit til hinna ýmsu forma í uppbyggingu innlánsstofnananna. Í frv. er eitt látið yfir allt ganga: ríkisbanka, hlutafélagabanka, sparisjóði með ábyrgðamannafyrirkomulagi, sparisjóði með ábyrgð hreppa og sparisjóð með ábyrgð sýslufélaga. Ljóst er því að margs þarf að gæta og að mörgu að hyggja þegar lög um skattskyldu innlánsstofnana eru sett, og þykir mér eðlilegt að betra ráðrúm og meiri tími sé ætlaður til að vinna að undirbúningi laga um þetta efni en þeim ágætu mönnum, sem sömdu þetta frv. sem er til umr., hefur gefist til verksins.

Starfandi er nefnd sem hefur það hlutverk að gera heildarúttekt á starfsemi banka í landinu, svokölluð bankamálanefnd. Í henni sitja fimm mætir menn, hv. alþm. Halldór Ásgrímsson, hv. alþm. Matthías Á. Mathiesen, hv. alþm. Kjartan Jóhannsson, fyrrv. ráðh. Lúðvík Jósepsson og fyrrv. alþm. Jón G. Sólnes. Þarna eru menn með staðgóða og víðtæka þekkingu á bankamálum, og minni hl. n. leggur til að þeir hafi veg og vanda af endurskoðun þeirra laga sem hér eru til umræðu.

Þessir menn hafa, eins og ég gat um, staðgóða þekkingu á bankamálum, og þeir eru líka í aðstöðu til að afla sér þeirrar sérfræðilegu aðstoðar sem þörf er á til endurskoðunar þess frv. sem hér er um rætt. Minni hl. n. gerir það einnig að tillögu sinni, að bankamálanefndin taki til endurskoðunar lög nr. 40 frá 1969, um umboðsþóknun og gengismun gjaldeyrisbankanna, og taki þá einnig til athugunar m. a. hvort ástæða sé til að veita fleiri innlánsstofnunum heimild til gjaldeyrisviðskipta en nú hafa þau réttindi.

Ég get ekki annað en hvatt að lokum hæstv. ríkisstj. til varfærni við áætlun tekna vegna skattlagningar bankastofnana á árinu 1983 þar til séð verður til hvers hin fyrirhugaða endurskoðun kann að leiða ef frv. þetta verður að lögum.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu að mestu. Ég mun láta hæstv. fjmrh. það eftir að dæma um hvar í röðinni hann setur þetta frv. þegar hann talar um skynsamleg frumvörp eða ekki skynsamleg. Ég ætla ekki að taka þann dóm að mér, enda illa í stakk búinn til þess. Ég veit að hann er þar meiri kunnáttumaður en ég.