05.05.1982
Efri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4738 í B-deild Alþingistíðinda. (4561)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Nú sakna ég ráðh. (Forseti: Hæstv. iðnrh.? Ég mun gera ráðstafanir til þess, að hæstv. iðnrh. verði við, en ég hafði ekki tekið eftir því, að hann hvarf héðan.) Ég vil taka fram að ég hef hugsað mér að vera mjög spar á orðin, þannig að það er betra að fara vel með tímann.

Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans, og ég er líka þakklátur hæstv. viðskrh. að hann skyldi tjá sig um þetta efni.

Ég beindi fyrst orðum mínum til hæstv. iðnrh. af því að spurning mín var þessi: Hvað hyggst hæstv. iðnrh. gera til þess að leysa þann vanda sem Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða eru í vegna heimildar til hækkunar húshitunartaxta þessara fyrirtækja? Þessi fyrirtæki þurfa á þeirri hækkun að halda, sem leyfð hefur verið, og raunar meir en það. En það verður ekki séð hvernig þau geta hagnýtt sér þessa heimild, vegna þess að þá er upphitunarkostnaður með innlendum orkugjöfum orðinn a. m. k. 10% hærri en olíukynding. Þetta var mín spurning. Ég fékk ekki beint svar við henni, en í spurningunni var auðvitað fólgið hvað gert yrði nú þegar til að leysa þennan vanda, því að þessi fyrirtæki þurfa þegar að taka afstöðu til þess, hvort þau nota þessa heimild til hækkunar. Ef þau nota þessa heimild til hækkunar er það mikið ranglæti gagnvart því fólki sem þessir aðilar hafa verið að hvetja til að láta af olíukyndingu. Ef heimildin er ekki notuð er fyrirsjáanlegt stórkostlegt tap á rekstri þessara fyrirtækja.

Svör ráðh. beggja beindust inn á húshitunarmálin og jöfnun húshitunarkostnaðar almennt. Ég fagna því að sjálfsögðu sem kom fram í máli beggja ráðh., að ríkisstj. hyggst gera ráðstafanir, að mér skilst á næstunni, til að leiðrétta þann mismun og ójöfnuð sem er í húshitunarmálunum. Hæstv. iðnrh. lýsti því yfir, að ætlunin væri að dregið yrði úr mismuninum í svo ríkum mæli að kostnaður við upphitun yrði hvergi hærri en hann væri hjá nýjum og hagkvæmum hitaveitum, og nefndi tvær hitaveitur í því sambandi. Önnur er með taxta sem nemur 57% af upphitunarkostnaði með olíu og hin hitaveitan með kostnað sem nemur 62%. Ég fagna þessu. Þetta fer alveg saman við það sem er í frv. því sem hér hefur borið á góma og við þrír deildarmenn flytjum og liggur fyrir deildinni. Þar var þetta orðað með þeim hætti, að húshitunarkostnaðurinn yrði aldrei meiri en sem næmi 2.5 földu vegnu meðalverði hitaveitna í landinu. En það þýðir að samkv. frv. yrði kostnaður aldrei meiri en 55% af upphitunarkostnaði með olíu.

Mér þykir gott að heyra að það, sem ríkisstj. er að hugsa um, fellur svo mjög saman við þær hugmyndir sem settar eru fram í frv. okkar félaga. En ég hlýt að lýsa mjög miklum vonbrigðum yfir því að við skyldum ekki fá stuðning ríkisstj. til þess að fá frv. afgreitt á þessu þingi þannig að lausn á þessu máli væri fengin.

Hæstv. viðskrh. sagði að í meðferð ríkisstj. yrði höfð hliðsjón af þessu frv. Ég minni á í þessu sambandi að fyrir tveimur árum lýsti hæstv. viðskrh. yfir með nákvæmlega sömu orðum að við endurskoðun þeirra laga, sem þá voru sett og eru núgildandi lög, yrði höfð hliðsjón af frv. sem við báðir og hv. þm. Eiður Guðnason og Stefán Jónsson bárum fram og er í grundvallaratriðum eins og þetta frv. nú. Það var fyrir tveim árum og ekki er málið komið lengra. Það væri skelfilegt til þess að vita ef nú þyrftu að líða enn tvö ár þar til þessu verði komið í framkvæmd. Ég er ekki að gera því skóna. Ég trúi því ekki og vil ekki trúa því fyrr en ég stend frammi fyrir slíkri staðreynd, að ríkisstj. meini ekki eitthvað með því sem þessir tveir hæstv. ráðh. hæstv. iðnrh. og viðskrh., hafa sagt nú. En ég spyr enn þá: Er þess að vænta að það verði höfð svo snör handtök í aðgerðum ríkisstj. að leystur verði sá vandi sem Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins eru nú þegar í, þannig að það geti orðið — ég leyfi mér að segja: á næstu dögum? Ég leyfi mér að segja það, vegna þess að þetta mál er allt svo upplýst að það þarf ekki að rannsaka það frekar. Þá gætu farið saman aðgerðir til frambúðarlausnar þessara mála og til að leysa þann bráðabirgðavanda sem ég hef lýst og var tilefni þessarar fyrirspurnar.