05.05.1982
Efri deild: 87. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4768 í B-deild Alþingistíðinda. (4570)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég þakka þau svör sem komu frá hæstv. iðnrh. varðandi fáeinar af fyrirspurnum mínum þó að sumt af því hrykki kannske nokkuð skammt. Ég mun ekki gera þetta að miklu umræðuefni nú, en það verður að teljast heldur rislágt þegar hæstv. ráðh. tínir það til að sá ljósi punktur sé í skýrslu Þjóðhagsstofnunar að út frá forsendum, sem séu reyndar óvissar og kannske rangar, hafi verkefnisstjórnin reiknað of lága afkastavexti og Þjóðhagsstofnun hafi tekist að leiðrétta það örlítið upp á við. En þessi útreikningur upp á kommur skiptir náttúrlega minna máli en að menn líti rétt á þær forsendur sem fyrir hendi eru. Það, sem ég var sérstaklega að leita eftir að draga fram í umr. í kvöld, var spurningin um hvaða forsendur væru réttar og hvaða mat bæri að leggja á aðstæður varðandi rekstur þessarar verksmiðju og þá einkum og sér í lagi með tilliti til áhættumats.

Ég gerði það sérstaklega að umræðuefni, að þetta viðfangsefni gerir meiri kröfur en önnur þau viðfangsefni sem við höfum haft á sviði orkufreks iðnaðar með tilliti til þess að hér er öðruvísi að staðið. Hér er gert ráð fyrir að ekki komi til með sama hætti og í sambandi við hinar verksmiðjurnar tvær að þetta verði metið af hálfu annarra aðila, sem hafa reynslu í greininni, né heldur erlendra lánastofnana, nema þá að hluta til og greinilega mjög takmörkuðum hluta, ef menn gera ráð fyrir að það verði ríkisábyrgðir á þessum lánum, vegna þess að það fríar eiginlega lánastofnanirnar við að leggja mat á þetta fyrirtæki eitt sér, og þá er það íslenska ríkið sem hefur tekið á sig að gera þetta mat og stendur ábyrgt fyrir þessum greiðslum. Það horfir strax öðruvísi við ef ekki væri hugmyndin að vera með ríkisábyrgðir, heldur ætti að afla lána á alþjóðlegum markaði fyrir þetta fyrirtæki þannig að það stæði á eigin fótum og ekki væri hugmyndin að ríkisábyrgðir væru veittar.

Nú minntist hæstv. ráðh. á þjóðhagslegan kostnað, sem væntanlega kæmi til góða. Það, sem hann átti við, var að sá kostnaður, sem í væri lagt þarna, kæmi kannske að einhverjum öðrum notum eftir mælikvörðum sem menn ættu erfiðara með að leggja mælistiku talnanna á, eins og eflingu byggða. Undan því skal ekkert vikist og vitaskuld er það svo, að í sambandi við hverja eina framkvæmd eru ýmsir þættir sem verður að horfa á, enda tel ég að ég hafi getið þess í framsöguræðu minni. En þá verður líka jafnframt að gera kröfu til þess, að þegar litið er á kostnaðinn séu teknir allir þeir kostnaðarþættir með sem af verkefninu stafa, þ. á m. vatnsveita, höfn, raforkulínur og vegalagnir, flýting annarra meginstofnlína og þar fram eftir götunum. Þetta tel ég að eigi að gera.

Sumum af mínum fsp. vísaði ráðh. frá sér, eins og t. d. varðandi það að ætla sér að vera með svo ótrúlega litlar hráefnisbirgðir sem raun ber vitni. Það er auðvitað ástæða til að leita þá annað eftir svörum við þeim, í nefnd ellegar þá síðar hér við 2. umr. ef ráðh. er við því búinn.

Það má segja að svipað gildi um það, að nýtingin geti verið 90%. Það fengust eiginlega ekki önnur svör við því en aðili, sem heitir Fesil, í Noregi hefði stungið upp á þessari reiknitölu. Mér finnst í ljósi þeirra upplýsinga, sem hafa komið fram í ýmsum gögnum síðan sú uppástunga var væntanlega gerð, að það gefi tilefni til þess, að þetta verði skoðað mjög nákvæmlega og hversu haldgott það sé að reikna þarna með 90%.

Um orkuverðið gat ráðh. þess, að þar væri þó hugmyndin, þó um fast verð væri að ræða, að vera með verðtryggingu. Hins vegar var engin viðmiðun gefin. Nú er það að vísu svo, að í samningunum við ÍSAL um sölu á raforku til þeirra er líka verðtryggingarklásúla, en hún mætir ekki með fullnægjandi hætti fyrir okkur, og það kemur fram í gögnum, sem menn geta lesið frá ýmsum erlendum stofnunum sem hafa fjallað um þetta efni, að verðtryggingarákvæði séu í sjálfu sér góðra gjalda verð, en þau geti ekki komið í staðinn fyrir möguleika á að endurskoða verðið út frá breyttum forsendum af þeirri einföldu ástæðu, að það er ekki hægt að sjá nægilega vel fyrir þróunina í þjóðfélaginu. Sá málatilbúnaður, sem uppi er hafður varðandi raforkusölu til ÍSALS og nauðsyn þess að vera með endurskoðunarklásúlu í þeim samningi, á því auðvitað alveg eins við í þessum samningi, nema þá að menn vilji líta svo á að hér sé ríkið að semja við sjálft sig. En ef svo er skiptir raforkuverðið heldur engu máli því að þá líta menn svo á að hér sé í rauninni meira og minna um eina og sömu kistuna að ræða og það, sem ekki verði tekið í raforkuverði, verði þá tekið í hagnaði sem sé skattlagður og greiddur arður af.

Mér fannst ekki heldur svar ráðh. varðandi verðhlutfall milli kísilmálms og járnblendis vera fullnægjandi. Hann svaraði því einu til að gert væri ráð fyrir hagstæðari verðþróun í kísilmálmi en járnblendi. En hér er beinlínis um það að ræða að líta á verðlag þegar á árinu 1982 og þar kemur fram sá mikli mismunur sem ég gerði hér að umtalsefni, þannig að það er spurningin um byrjunina og ekki einungis um hvernig þróunin verði í grófum dráttum á næstu árum.

Spurningum mínum varðandi Kröflu svaraði ráðh. á þá leið, að hann væri ekki bjartsýnn, en því var ekki svarað, hver hefði verið árangurinn nettó af þeim borunum sem hefðu farið fram á þessu ári. Ég taldi eðlilegt að það kæmu fram svör við því til þess að menn gætu betur metið hvaða möguleikar væru á að ná þessu 20 mw. marki, og ég vil ítreka þessa spurningu af mjög einfaldri ástæðu, ekki bara vegna þess að það sé skortur fyrirsjáanlegur og skömmtun til þessarar verksmiðju miðað við 20 mw., heldur er ekkert í þeim gögnum, sem fram hafa verið lögð, um hvað gerist ef 20 mw. koma ekki í Kröflu, ef þau reynast verða 10–14. Það er talað um skömmtun miðað við að það séu 20 mw. í Kröflu, en það er engin grein gerð fyrir hversu mikil sú skömmtun þyrfti að vera eða hvaða áhrif það hefði varðandi rafmagnssölu til þessa fyrirtækis ef þessi spá rættist ekki. Við því verður auðvitað að fást viðhlítandi svar eftir að ráðh. hefur gefið þá yfirlýsingu að hann sé ekki bjartsýnn á að þetta mark muni nást.

Varðandi spurningu mína um raunvextina svaraði hæstv. ráðh. því einu til, að Samuel Hill hallaðist að þeim raunvöxtum sem gert væri ráð fyrir í skýrslu verkefnisstjórnar og öðrum þeim plöggum sem fram eru lögð, en það telst varla viðhlítandi svar að gefa engar frekari skýringar eða rökstuðning fyrir því þegar mótrök hafa komið fram og verið sýnt fram á það af hálfu þeirrar stofnunar, sem fer með þessi mál af okkar hálfu, að raunvextir séu nú mun hærri en ráð er fyrir gert í þessari skýrslu.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta, en mér sýnist, að þau svör, sem hafa fengist frá hæstv. ráðh., geti ekki talist fullnægjandi, og geri kröfu um að frekari svör fáist við 2. umr. um þetta mál ellegar þá í starfi nefndarinnar til þess að menn geti áttað sig á, hvað hér er á ferðinni, og lagt á þetta eðlilegra áhættumat.