06.05.1982
Sameinað þing: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4842 í B-deild Alþingistíðinda. (4633)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. talaði hér áðan um 81% og 391% til marks um hlutföllin í raforkuverði til ÍSALs og almennings og þróun þeirra. Þetta er í rauninni til marks um það, hversu góður sá samningur var sem gerður var á sínum tíma. Allt fram til 1979 var t. d. BBA, sem er stærsti seljandi raforku til álvera í Bandaríkjunum, með lægra verð en Landsvirkjun á raforku til álvera, en ýmsir aðrir höfðu þó þá þegar hækkar raforkuverð verulega. En þetta breytir ekki því, en sýnir og sannar, að raforkuverðið núna er orðið allt of lágt. Það var almennt svipað raforkuverð á sínum tíma, þegar samningarnir voru gerðir, til annarra álvera í heiminum. En nú er allt, allt annað upp á teningnum. Mér finnst rétt að það komi fram hér, að ef raforkuverðið til ÍSALs hefði fylgt verðlagsþróun, eins og byggingarvísitala mælir hana, þá væri það núna a. m. k. tvöfalt hærra en raun ber vitni. Ef gerður er samanburður við raforkuverð til álvera í öðrum löndum, þá gefur það svipaða niðurstöðu eða enn hærra raforkuverð. Og fyrirtæki, sem voru með lægra verð til skamms tíma heldur en Landsvirkjun, eins og BBA í Bandaríkjunum, eru nú komin með 17.5 mill.

Það var rætt hér um 47 millj. dala, en þær skattakröfur sem hafa verið reistar á grundvelli þessa, munu vera um 1 millj. dollara. Aðrar skattakröfur vegna uppgjörs 1980 munu vera um 2.4 millj. dollara. Ég held að það sé nauðsynlegt að menn átti sig á því, hvað allur dráttur er dýr í þessu sambandi, með því að hafa í huga að raforkuverðshækkun af því tagi, sem tæki mið af byggingarvísitölu eða því verði sem þetta fyrirtæki í Bandaríkjunum notar nú við sölu til álvera, — slík raforkuverðshækkun mundi jafngilda á einum mánuði ámóta miklum viðbótartekjum og krafan um skatta vegna svonefndrar hækkunar í hafi og þá á 2–3 mánuðum vegna þessara heildarskattakrafna. Mér finnst nauðsynlegt að menn átti sig á þessum stærðarhlutföllum.

Hitt verður hæstv. iðnrh. að vera ljóst, að samráð eru náttúrlega ekki fólgin í því, að ráðh. t. d. sendi út fréttatilkynningar og síðan eigi allir að hrópa húrra fyrir þeim á eftir. Samráð er vitaskuld fólgið í því, að menn beri saman bækurnar og komist að niðurstöðu um það, hvernig eigi að halda á máli. Svo einfalt er það mál. Þess vegna verður því ekki með nokkru móti haldið fram, að samráð hafi verið haft við stjórnarandstöðuna í þessu máli. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. segir, að í einhverjum mæli a. m. k. hefur stjórnarandstaðan haft aðgang að upplýsingum. En það er eitt að hafa aðgang að upplýsingum eða að standa í samráði.

Mér fannst líka hæstv. iðnrh. þola heldur illa þá gagnrýni, sem hann hefur hér sætt, og í rauninni þá málefnalegu umr., sem hér hefur farið fram. Sú meginræða, sem hann flutti hér, varð ekki til þess að auka trú á því, að hann óskaði eftir samráði og málefnalegri umr. um þetta mál. En úr hófi keyrði, finnst mér, þegar hv. 11. þm. Reykv. brá einum þm. hér nánast um óþjóðhollustu, formanni Sjálfstfl. Mér finnst það alls ekki með neinum hætti viðeigandi, að þm. hafi í frammi slíkan málflutning. Þeir geta haft sínar skoðanir á því, hvaða mál menn hafi fram að færa, en þetta finnst mér ekki við hæfi. Mér finnst það ósmekklegt, og örugglega verður það ekki til þess að auka samheldni meðal þm. eða meðal þjóðarinnar.

Geir Gunnarsson, hv. þm. sagði nýlega hér á þingi, að ræðustóllinn væri ólíklegasti vettvangur til þess að ná árangri. Ég get ekki varist þeirri hugsun, að mér finnst að hæstv. iðnrh. og hv. 11. þm. Reykv. mættu hugleiða það, að þeir hafa haft æðimikla tilhneigingu til þess að tala um þetta mál fyrst og fremst úr ræðustóll í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Þetta er viðkvæmt og vandasamt mál þar sem miklu skiptir að við höldum fast og vel á okkar málstað, eins og ég gat um í upphafi minnar ræðu, vegna þess að á því er auðvitað enginn vafi, að þessi erlendi aðili beitir öllum tiltækum ráðum, kjafti og klóm, til þess að halda sínum hlut. Þess vegna er mikið atriði að við leitumst við af fremsta megni að halda á málstað okkar af festu og skynsemi og notum bestu ráð hverju sinni til þess að koma okkar málum fram. Ég vona að það verði gifta okkar, herra forseti.