07.05.1982
Neðri deild: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4898 í B-deild Alþingistíðinda. (4669)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svör hans. Ég geri mér ljósa grein fyrir því, að fjmrn. er í nokkrum vanda statt með það að ganga frá þessari skýrslu. Ég vil hins vegar minna á það, að hæstv. flugmálaráðh. sagði hér við umr. fyrir nokkrum vikum að sér væri kunnugt um að Arnarflug væri tilbúið að láta af hendi öll gögn sem fyrir lægju. Það kemur mér þess vegna talsvert mikið á óvart að félagið skuli ekki treystast til þess að leggja fram lista yfir þær eignir, sem það kaupir af Iscargo hf., með mati á þeim eignum.

Ég vil líka minna á það, að hér er verið að fjalla um eign ríkissjóðs að hluta til, og það nær auðvitað ekki nokkurri átt, að hér skuli vera hægt að fara með skattfé fólksins eins og gert hefur verið í þessu tilviki, á þann hátt að það standi eftir hugmynd um að þarna hafi fé verið notað á óeðlilegan hátt. Ég vil minna á það að auki, að framkvæmdastjóri Arnarflugs lýsti því yfir í blaðaviðtölum og viðtölum við fjölmiðla að Arnarflug hefði keypt Iscargo á yfirverði. Ef það er svo í okkar þjóðfélagi að slík mál geti farið fram þar sem ríkissjóður og ríkisvaldið á aðild að málum, þá er ekki von á góðu.

Ég tel mjög alvarlegt að það skuli vera unnt að koma í veg fyrir að fram fari hlutlægt mat á þessum eignum. Ég minni enn einu sinni á það, að ríkissjóður á 20% í Flugleiðum sem síðan eiga 40% í Arnarflugi. Það er þess vegna alveg skýlaus krafa og skýlaus réttur Alþingis, að það fái vitneskju um þetta mál.

Ég vænti þess svo, að hæstv. fjmrh. fylgi þessu máli eftir og reyni að afla allra þeirra upplýsinga, sem fáanlegar eru, þannig að þingi og þjóð verði ljóst fyrr en síðar að þarna fóru fram kaup sem eru í fyllsta máta óeðlileg.