10.11.1981
Sameinað þing: 17. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég held að þm. gangi almennt út frá því sem gefnu að á þriðjudögum standi fundir í Sþ. fram undir kl. 6 a. m. k. og jafnvel á kvöldin einnig. Ef beiðnir eru um það frá einhverjum hóp þingmanna eða þingmanni eða hæstv. ráðh., að út af þessu sé brugðið, er vaninn að haft sé samráð um það við þingflokkana og þeim tjáð, hvað til standi, og leitað eftir því við þá, hvort þeir og þm. almennt hafi eitthvað á móti því að slíkt samkomulag sé gert. Ég vil aðeins taka fram að slíkt hefur ekki verið gert í þetta skipti.

Ég tek mjög undir það sem hæstv. utanrrh. sagði áðan, að það er óeðlilegt að fundi sé frestað með þessum hætti. E. t. v. er þetta aðeins vísbending um að það er ekki æskilegt að alþm. sitji í stjórnum jafnveigamikilla stofnana og hér um ræðir.