12.11.1981
Sameinað þing: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að tala aftur í þessum umr. Ég bjóst satt að segja ekki við að röðin væri komin að mér. Ég notaði það mikinn tíma af fundi Sþ. í dag. Ég vil þó ekki láta h já líða að lýsa ánægju minni með sumar af þeim ræðum sem fluttar hafa verið í dag.

Því miður er það þannig, að í nokkrum ræðum hefur gætt mjög þeirra gömlu kaldastríðs- og karpssjónarmiða sem ég held að standi í vegi fyrir nauðsynlegri hreinskilinni umræðu, sem Íslendingar þurfa að láta fara fram hjá sér um þessi mál. Í nokkrum öðrum ræðum hefur aðeins gætt þessara viðhorfa. Ég vil sérstaklega fagna þremur ræðum hér í kvöld. Ég fagna þeirri ræðu sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson flutti hér og mér fannst sýna mikið raunsæi, mikla víðsýni, mikla framtíðarsýn, djúpan skilning á þeim mikla vanda sem við stöndum frammi fyrir og er sá, að aðrar þjóðir, Bandaríkin, Þjóðverjar, Norðurlönd, eru að reyna að leysa sinn vanda með því að gera hann að okkar vanda. Í einföldu máli sagt: Hjá hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni var þetta sá framtíðardraugur, framtíðarógnvættur, sem við þurfum að glíma við, að aðrar þjóðir ætli að fjarlægja kjarnorkuvopnin hjá sér með því að flytja þau í hafið í kringum Ísland. Það er rétt hjá hv. þm. að bæði forráðamenn í Bandaríkjunum, Helmut Schmidt kanslari Vestur-Þýskalands og fjölmargir stjórnmálamenn á Norðurlöndum hafa vikið að þessu atriði.

Í öðru lagi vil ég fagna ýmsu af því sem kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. Ég hef tekið eftir því, og mér finnst það fagnaðarefni, að á alþjóðavettvangi hefur utanrrh. kappkostað að rödd Íslands væri ávallt sú rödd sem krefðist afvopnunar, sem benti á þann rangsnúna heim þar sem við verjum milljörðum ofan á milljarða af verðmætasta gjaldeyri veraldar til að framleiða ný vígbúnaðarvopn á sama tíma og um 800 millj. manna eru á hungurstigi. Það er mjög mikilvægt að á Íslandi séu menn sem flytja þann boðskap á alþjóðavettvang að við séum í sveit þeirra þjóða sem vilja hamla gegn þessu vígbúnaðarkapphlaupi.

Ég vil einnig fagna ýmsu af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Árna Gunnarssonar. Ég hef átt í ritdellum við hann í sumar og haust. Ég verð að segja að mér finnst í greinum hv. þm. Arna Gunnarssonar gæti meiri skilnings og meiri þekkingar á ýmsum þeim sjónarmiðum, sem uppi hafa verið hjá jafnaðarmannaflokkum hér í kringum okkur, en í því gamla kaldastríðsrausi sem annar hv. þm., Eiður Guðnason, flutti enn einu sinni hér inn í þingsalinn.

Við getum haldið áfram endalaust að rekja hvernig gamlir forustumenn okkar flokka tóku afstöðu. Ég get þulið hvernig Emil Jónsson studdi stríðið í Víetnam, hvernig hann og Guðmundur Í. Guðmundsson studdu herforingjastjórnina í Grikklandi, sem fangelsaði Andreas Papandreo, sem er einn af forustumönnum í Alþjóðasambandi jafnaðarmanna. Ég get rakið hvernig ýmsir forustumenn Alþfl. voru á móti lýðveldisstofnuninni. Það er hægt að nefna ótal slík dæmi. Ég sé ekki hvaða tilgangi þetta þjónar nema sem sagnfræðileg upprifjun og nauðsynlegt við og við, ekki skal ég draga úr því, en ekki sem grundvöllur að umræðum um þau alvarlegu mál sem við þurfum að taka afstöðu til. Þess vegna vona ég að hv. þm. festi sér í minni þau lokaorð, sem komu fram hjá hæstv. utanrrh. hér í kvöld, að þau mál, sem við erum hér að tala um, eru alvarlegustu málin sem við fáumst við. Það er svo margt nýtt í þessum málum, knúið á okkur af örlagaþráðum sem við ráðum ekki við, að við verðum að nálgast þessi mál með opnum huga á ferskan og nýjan hátt og fordæma fyrir fram engar tillögur sem fram koma um lausnir á þessum vanda, hvaðan sem þær koma.

Ég tel það vissulega bera vott um að það kunni að vera til umræðugrundvöllur hér innanlands, grundvöllur til alvarlegrar málefnalegrar og nauðsynlegrar umræðu um þessi málefni, að það skuli hafa komið fram í ræðum bæði fulltrúa Framsfl. og fulltrúa Alþfl. í þessum umr. málefnalegar og jafnframt stefnulegar afstöður sem er hægt að leggja til grundvallar umræðunni um þessi efni. Ég vona satt að segja að hv. þm. Sjálfstfl. leggi á sig nokkra vinnu á næstu vikum og mánuðum til þess að þeir verði líka tækir í þessar umræður. Kannske eru þeir það nú þegar. Kannske hafa þeir nú þegar til að bera þá víðsýni og þá þekkingu sem þarf til að flytja mál hér líkt og hv. þm. Árni Gunnarsson, Guðmundur G. Þórarinsson og hæstv. ráðh. Ólafur Jóhannesson gerðu hér í kvöld.

Það vottaði aðeins fyrir þessu á stöku stað í ræðu hv. þm. Lárusar Jónssonar og einnig endrum og sinnum inni í ræðu hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar. Ég vona að þessi strá skilnings, sem þar spruttu fram í eyðimörk kaldastríðshugsunarháttarins, fái að blómstra, því það er lífsnauðsyn fyrir íslenska þjóð að þeir, sem kjörnir hafa verið til að gæta örlaga hennar, hafi sameiginlegan grundvöll til að fjalla um þessi málefni á málefnalegan hátt. Það er svo margt sem gerist tæknilega í kringum okkur í þessum málum, stjórnmálalega og á annan hátt, að við erum knúin til að hugsa margar gamlar hugsanir upp á nýtt.

Herra forseti. Ég lofaði að flytja ekki langt mál, þó að það væri vissulega tilefni til þess, en ég vil til viðbótar ítreka það, sem hér kom fram hjá hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni og því miður hefur of lítið verið rætt í þessari umr., en vonandi verður meginefni okkar næst þegar við ræðum um þessi mál. Það er hafið í kringum Ísland. Það er hafið kringum Ísland sem nú þegar er orðið yfirfullt af kjarnorkukafbátum þriggja ríkja: Bandaríkjanna, Sovétríkjanna og Bretlands, og stefnt er að því að fylla það enn frekar á næstu árum af slíkum vopnum.

Helsti samstarfsmaður Reagans Bandaríkjaforseta, öldungadeildarþingmaður Laxall, hefur verið knúinn til þess að fá forsetann til að hætta við þau áform sem Reagan var með um staðsetningu kjarnorkuvopna í heimaríki þessa öldungadeildarþingmanns sem er nánasti samstarfsmaður Reagans. Fólkið í Utah í Bandaríkjunum sagði einfaldlega nei. Kjósendur þessa þingmanns sögðu einfaldlega nei. Þessi þingmaður og aðrir hafa bent Reagan Bandaríkjaforseta á þá lausn, sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson réttilega vakti athygli okkar á, að það væri miklu sniðugra fyrir Bandaríkin að flytja þessi vopn í kjarnorkukafbátana á norðurslóðum.

Við byggjum líf okkar á hafinu, velferðarþjóðfélag okkar, menningu okkar, lýðræði okkar, á þeim auðlindum sem við höfum í hafinu hér í kringum okkur. Það þarf ekki endilega stríð til að eyðileggja þessar auðlindir. Það geta einfaldlega orðið hér kjarnorkuóhöpp og slys eða vangá hjá þeim kjarnorkukafbátum, sem hér eru, sem gjöreyðilegðu fiskimið okkar á örfáum klukkustundum um margra ára raðir.

Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson vitnaði í Jón Sigurðsson og feril hans. Ég vil nefna annað dæmi um árangur Íslendinga. Það eru landhelgismálin: 12 mílurnar, 50 mílurnar og 200 mílurnar. Þar höfum við fordæmi um alþjóðaþróun í alþjóðalögum varðandi hafið. Hvers vegna ættum við ekki líka að geta verið forustuafl og markað á sama hátt nýja löggjöf gagnvart kjarnorkuvopnunum og hafinu? Það er að mínum dómi okkar nýja landhelgismál, kjarnorkuvopnalaus landhelgi í kringum landið, og það væri mikil gæfa fyrir íslenska þjóð ef allir flokkar hér á Íslandi, hvaða afstöðu sem menn hafa til Atlantshafsbandalagsins, hvaða afstöðu sem menn hafa til herstöðvarinnar hér á landi, gætu líka í þessu nýja landhelgismáli sameinast um kröfuna um kjarnorkuvopnalausa landhelgi. Það, sem mér finnst ánægjulegt við þessar umræður hér í dag, er að ég sé votta fyrir því og hjá sumum meira en votta, kominn er í forgrunn umræðugrundvöllur til þess að við ræðum þau mál efnislega.

Það er alveg rétt, sem hæstv. utanrrh. sagði hér og aðrir þm. hafa vikið að, t. d. hv. þm. Vilmundur Gylfason, að ég er ekki talsmaður einhverrar einangrunar í alþjóðasamskiptum, þvert á móti. Ég er ekki talsmaður þess að við eigum að loka okkur af frá umræðum við erlenda aðila, þvert á móti. Ég tel að ég hafi sýnt það með störfum mínum hér og annars staðar og menn ættu ekki að láta sér detta í hug eina einustu sekúndu að það sé mín skoðun eða mín ætlan. En hitt er annað, hvort menn láta fleka sig eða tengja sig með einum eða öðrum markvissum hætti inn í hagsmuna- og áróðursnet einhvers tiltekins aðila eða menn a. m. k. átti sig á þeim vinnubrögðum sem beitt er. Þess vegna rakti ég þessa skýrslu hér í dag. Ég þori að fullyrða, jafnvel þótt ýmsir þm. hér hafi sagt að þeir hafi vitað þetta og hitt, utanrrh. hafði þó hreinskilni til að játa að ekki hefði hann vitað það, að engan okkar hefði grunað hvað þetta er gert með kerfisbundnum, markvissum og úttærðum hætti. Það litla, sem hver og einn okkar hefur sjálfsagt reynt, er hluti af markvissri og samhæfðri heild sem miðar öll að því að varðveita hagsmuni stórveldis hér á landi.

Það er alveg rétt, sem hæstv. utanrrh. segir, að við eigum ekki að loka okkur af. Við eigum að heimsækja þá sem við teljum okkur nauðsynlegt að ræða við. En við eigum að gera það á opinn og eðlilegan hátt, af fullri reisn sem Íslendingar, formlegir fulltrúar þings og ríkisstjórnar, en ekki í einhverjum einkaboðum þar sem menn eru valdir út eftir ákveðnum aðferðum, eins og ég lýsti, þar sem búið er að hlera og skoða menn í boðum vikum og mánuðum saman, eins og fram kemur í þessu skjali, til að gá hvort þeir passi í þá ræktun og hugsanamótun sem stórveldin ætla sér. Það þekkja allir heilaþvott. Allir hafa heyrt talað um hann. Menn vita hvernig hann gerist. Hann gerist smátt og smátt með því að beita ýmsum aðferðum. Reynslan hefur kennt Bandaríkjamönnum að nótt um borð í flugvélamóðurskipi er á við marga tugi af greinum um herfræðimálefni. Það stendur hérna í skýrslunni. Þannig má lengi telja. Ég rakti þetta hér til þess að menn gætu varað sig á þessu kerfi, til þess að menn áttuðu sig á því hvað væru eðlileg samskipti og hvað óeðlileg. Þarna á milli er lina, sem er aldrei fullkomlega skýr, en hún er samt sem áður til. Embættismenn erlends ríkis, sem leyfa sér að skrifa svona skýrslu um íslenska þm., íslenska blaðamenn, íslenska ritstjóra, eru auðvitað komnir langa leið eftir þeirri götu að fara að líta á okkur sem undirþjóð og sig sem herraþjóð.

Í þessari skýrslu er málfar, hugsunarháttur og áætlanir herraþjóðar sem meðhöndlar Íslendinga með aðferðum sem frekar væru notaðar af ráðamönnum í nýlendum við þá sem þeir þurfa að hafa góða. Það eru þessar aðferðir við að velja út fólkið sem hægt er að nota í hollustueiðana sem mér fannst vera óhugnanlegar í þessari lýsingu. Auðvitað er það rétt, sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði, að innan um er svo annað, eins og tónlist, leikhús og ýmislegt annað. Það sýnir mér hvað kerfið er orðið heilsteypt, hvað það er orðið víðtækt, hvað það nær yfir fjölmörg svið.

Auðvitað er það rétt, að ekki má draga af þessu þá ályktun að menn eigi að draga sig inn í skel. Þar er ég atveg sammála hæstv. utanrrh. En mér finnst koma til greina, eins og landsfundur Sjálfstfl. ályktaði um, að við kynnum okkur sérstaklega með hvaða hætti er hægt að varast að erlend ríki geti rekið svona kerfisbundinn áróður. Í því eru ýmsar aðferðir, sem t. d. hv. þm. Eiður Guðnason var að nefna, svo sem að takmarka fjölda starfsmanna erlendra sendiráða hér, takmarka fjármálaumsvif þessara sendiráða og ýmsar aðrar aðferðir. Það getur vel verið að við getum náð samkomulagi um að setja einhverjar slíkar reglur, eins og t. d. gilda í breska þinginu, þar sem þm. eru skyldaðir til að tilkynna formlega öll boð sem þeir hljóta frá einkaaðilum í Bretlandi, erlendum aðilum, fyrirtækjum og öðrum slíkum, og aðrir þeir, sem gegna opinberum trúnaðarstörfum, þurfa að gera almenningi grein fyrir hvernig þeirra starfsemi er háttað.

Hæstv. utanrrh. gerði hér að umræðuefni stefnuna í öryggismálum Íslands. Ég ætla ekki að fara að nota þennan stutta tíma til að fjalla um ýmislegt í þeim efnum. Það er aðeins eitt atriði sem ég vildi benda á í þessu sambandi. Þegar menn ræða legu landsins mega menn ekki gleyma að ræða eðli þeirra tækja sem hér hefur verið komið fyrir. Það eru einmitt að mínum dómi þessi tæki sem hafa tengt Ísland smátt og smátt við kjarnorkuvopnakerfið á Norður-Atlantshafi eins og það er í heild sinni. Um það má fara mörgum orðum. Kannske gefst tími síðar til að rökstyðja það sérstaklega. Í mínum huga er það ekki deiluatriði, það er ekki hertæknilegt deiluatriði, að herstöðvarnar hér eru tengdar inn í kjarnorkuvopnakerfið með þessum hætti. Það er ekki hægt að starfrækja kjarnorkuvopnakerfið á Norður-Atlantshafi án þeirra tækja sem hér eru í herstöðinni. Það er staðreynd. Hún er þess vegna lykilstöð í þessu kjarnorkuvopnakerfi. Þess vegna geta menn út af fyrir sig deilt um hvort hér eigi að vera herstöð eða ekki, hvort menn eigi að vera í Atlantshafsbandalaginu eða ekki. En eins og ég sagði hér fyrir ári: Jafnvel þótt minn flokkur sé andvígur þessari ríkjandi stefnu teljum við engu að síður nauðsynlegt að við tökum þátt í umræðu um það, hvert er eðli þess tækjabúnaðar, hvert er eðli þeirrar starfsemi sem hér fer fram. Þótt við séum á móti henni í grundvallaratriðum viljum við samt sem áður taka þátt í að gera öllum Íslendingum ljóst, ráðamönnum sem og öðrum, hverjar eru afleiðingar þess að taka hér inn í landið stig af stigi stóran hluta af þeim tækjum sem hingað hafa verið tekin inn. Þess eru fjölmörg dæmi, ekki bara kafbáturinn í Svíþjóð, yfirlýsingar um kjarnorkuvopn hafa verið brotnar. Það eru dæmi frá Japan, það eru dæmi frá Grænlandi, það eru dæmi frá Spáni og þau eru fleiri. (Gripið fram í: Það átti sér stað áður en yfirlýsingin 1978 var gefin út.) Ekki þessi í Japan. Hún átti sér ekki stað áður.

Það er alveg nauðsynlegt fyrir okkur að draga lærdóma af ýmsum ríkjum hér í kringum okkur. Ég ætla að nefna eitt ríki, sem mér finnst við Íslendingar nánast aldrei ræða í þessu sambandi, en er samt sem áður ríki sem liggur að Norður-Atlantshafi eins og við, er samt sem áður ríki sem er hlutlaust, en liggur samt að þessu vígbúnaðarsvæði á Norður-Atlantshafi. Það er Írland. Írlandi hefur aldrei dottið í hug að ganga í Atlantshafsbandalagið. Írum hefur aldrei dottið í hug að leyfa erlendar herstöðvar í sínu landi. Samt er Írland að mörgu leyti með hliðstæða landfræðilega legu í Atlantshafi og við. Í kringum það eru kafbátaslóðir. Það liggur beint að vígbúnaðarsvæði Norður-Atlantshafsins, að vísu á öðrum stað, en liggur engu að síður beint að því. Væri ekki fróðlegt fyrir okkur Íslendinga í allri þessari umræðu, — við þekkjum Svíþjóð, við þekkjum Finnland, — að afla okkur upplýsinga um Írland, hvaða rök liggja að því að stjórnmálamenn í Írlandi ljá ekki máls á því að taka þátt í Atlantshafsbandalaginu, ljá ekki máls á því að ríki Atlantshafsbandalagsins fái þar aðstöðu fyrir herstöðvar eða þá starfsemi sem er rekin bæði hér og í Noregi? Ég varpa þessu fram sem efnivið í áframhaldandi umræðu svo að menn reyni að draga nokkurn lærdóm af fleiri ríkjum hér í kringum okkur.

Herra forseti. Það mætti margt segja um þetta efni fleira, en ég ætla að ljúka máli mínu í þessum umr. með því að gera að lokaorðum stuttan kafla úr samþykkt Alkirkjuráðsins eins og hún birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 17. okt., á sérstakri síðu sem íslenska kirkjan hefur til umráða í Morgunblaðinu. Þessi kafli er úr ályktun Alkirkjuráðsins. Þar get ég tekið undir hvert eitt og einasta orð. Hún er að mínum dómi samanþjöppuð og góð lýsing á sumum af þeim stefnumálum sem ég hef verið að reyna að koma hér á framfæri og mínir samherjar hafa verið að reyna að koma á framfæri, bæði hérlendis og erlendis, á undanförnum vikum og mánuðum. Herra forseti. Með þínu leyfi ætla ég að ljúka máli mínu með því að lesa og gera að mínum orðum meginkaflann úr ályktun Alkirkjuráðsins eins og hún birtist á síðu íslensku kirkjunnar í Morgunblaðinu fyrir nokkrum vikum:

Alkirkjuráðið hvetur kirkjurnar nú til þess að:

„1) andæfa gegn hernaðarlega sinnaðri pólitík, sem leiðir til hættulegra áfalla í alþjóðlegum stjórnmálum og grefur undan getu þjóðanna til þess að fást við knýjandi efnahagsvanda og félagsleg vandamál heimsins, sem eru orðinn yfirgnæfandi stjórnmálavandi vorra tíma;

2) sporna gegn þeirri viðleitni að skapa ómannúðlegar óvinamyndir af fólki frá öðrum löndum;

3) setja spurningarmerki við ríkjandi kenningar um öryggi þjóða og kalla fram nýjar hugmyndir um öryggi, sem grundvallast á réttlæti og réttindum þjóða;

4) að fjalla um guðfræðilega hlið málsins í ljósi nýrrar þróunar varðandi stríð og frið og taka til samanburðar og endurskoðunar hefðbundin viðhorf á guðfræðilega sviðinu;

5) halda áfram samkvæmt hvatningu í fyrri yfirlýsingum miðstjórnarinnar að „vekja athygli á meginorsökum stríðs, sem eru einkum efnahagslegt óréttlæti, kúgun og arðrán, og einnig á afleiðingum aukinnar spennu, sem leiðir til enn meiri skerðingar á mannréttindum“.

Alkirkjuráðið hrósar „þeim fjölmörgu aðildarkirkjum, sem hafa endurnýjað friðarstarfsemi sína, hafið hana, endurskipulagt eða aukið starf að friði, afvopnun og gegn hernaðarstefnu og vígbúnaðarkapphlaupi. Þetta hefur falist m. a. í verkefnum, sem stuðla að uppeldi til friðar, framkvæmt á „friðarvikum“ eða „afvopnunarvikum“.“

Alkirkjuráðið hvetur aðildarkirkjurnar til að:

„1) auka verulega starf að friði og ganga til samstarfs við aðra, sem vilja vekja vitund almennings um þá ógnun, sem nú beinist gegn friði;

2) vera friðflytjendur af heilum huga og án afláts með boðum, kennslu og í verki;

3) efna til umræðufunda með fólki af öðrum kirkjudeildum til þess að auka gagnkvæman skilning milli fólks.“

Alkirkjuráðið lýsir ánægju sinni yfir „starfsemi fjölmargra friðar- og afvopnunarsamtaka og hreyfinga, gamalla og nýrra um allan heim, þar sem kristnir menn eru viða virkir þátttakendur og uppfylla þannig hlýðniskyldur sínar við fagnaðarerindið.“

Ég vona, herra forseti, að þessi kafli úr ályktun Alkirkjuráðsins, sem og aðrar yfirlýsingar þeirrar merku stofnunar um þessi efni, verði íslenskum þm. og íslensku þjóðinni tilefni til alvarlegrar umhugsunar og umræðna um þessi málefni.