16.11.1981
Efri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Böðvar Bragason:

Herra forseti. Það er kannske undirrótin að þessu frv. og öðrum, sem flutt hafa verið hér á hv. Alþingi um dómstólana á síðustu árum, að upp kom sú umræða að réttarkerfið væri mjög seinvirkt. Það er rétt. Málum tók mjög að seinka á síðasta áratug og þá aðallega í þéttbýlinu. Það fór að ganga erfiðlega að fá niðurstöður í dómsmálum og þá fóru menn að velta fyrir sér hvernig úr þessu mætti bæta. Ég tel að það hafi aðallega verið um tvennt að ræða: annaðhvort að það kerfi, sem við bjuggum við og búum við, væri alfarið úrelt eða að ekki væri nægilega vel búið að því starfsliði dómstólanna sem ætti að framkvæma það kerfi sem búið væri við.

Sú leið var farin að leggja drög að nýrri skipan þessara mála og sú leið var kölluð „lögréttuleið“. Svokölluð réttarfarsnefnd vann að því máli og skilaði frv. Eins og hv. þm. er kunnugt hefur hvorki rekið né gengið um framgang þess. Ég held að það hafi a. m. k. fjórum sinnum verið flutt hér á Alþingi því sem næst óbreytt eða með mjög smávægilegum breytingum.

Þá vaknar spurningin um það, hvers vegna þessar tillögur réttarfarsnefndarinnar hafi ekki gengið fram. Ég held að þar komi tvennt til: Í fyrsta lagi að töluverður ágreiningur er um ágæti þessa frv., bæði meðal löglærðra manna í landinu og einnig meðal almennings, og svo aftur hitt, að það furðulega gerist að mönnum við dómsstörf mundi ekki fjölga verulega í þessu landi þó svo frv. næði fram að ganga. Það er talað um það í lögréttufrv. að setja 15 nýja dómara, en jafnframt er boðað, ef ég man rétt, að þá muni þeim, sem nú starfa, fækka um 11. Þarna yrði því nettó-aukning um fjóra.

Orsökin að þessu frv. hér eða grundvöllur þess er að sjálfsögðu það, eins og segir í aths., að ekki hefur tekist að koma fram breytingum sem leiddu til hraðari meðferðar mála og því hefði verið valin sú leið sem hér liggur fyrir og hv. þm. hafa kynnt sér og hefur verið útlistuð fyrir þeim.

Ég ætla hins vegar að víkja örfáum orðum að því sem ekki er nefnt í þessu frv. beinum orðum, en það er önnur af þeim ástæðum, sem ég nefndi áðan, eða önnur af þeim leiðum sem menn töldu að gætu orðið til úrbóta, þ. e. breyting á dómstólaskipaninni eða betri aðbúnaður þess sem fyrir væri. Sannleikurinn er sá, að þeir menn og þær stofnanir, sem unnið hafa við dómgæslu í landinu, hafa verið í algeru fjársvelti. Það er þýðingarlaust að fjölga dómurum stöðugt ef ekki tekst einu sinni að fá ritvélar í dómstólana, hvað þá starfslið til að vélrita dóma. Ég sé ekki nokkra glóru í því að fjölga dómurum ef þeir hinir sömu þurfa svo að vélrita sína dóma og vinna öll þau störf sem til falla við dómstólana. Það er hægt að fara þá leið eftir núverandi kerfi og hefur verið hægt að fá fram hraðari málsmeðferð hreinlega með því að bæta úr því ófremdarástandi að neita dómstólunum og stofnunum þeirra stöðugt um fé og fólk.

Drátturinn ímeðferð dómsmála hefur verið hér á suðvesturhorninu. Fjölgað hefur verið dómurum bæði í Reykjavík og í nágrannasveitarfélögunum. Það hefur bætt nokkuð úr. Samt er langur hali. Það er hægt að leysa þessi mál og hefur verið hægt með því að fjölga t. d. dómurum við Borgardóm og auka þar sérhæft starfslið. Með því væri tappinn tekinn úr þessum flöskuhálsi. Sú leið er líka fær, sem lögð er til í frv., en hún leysir ekki grundvallarvandamálið, sem hv. Alþingi verður að gera sér grein fyrir, að það þarf bæði húsnæði fyrir dómstólana eða dómarana í landinu og þeir þurfa líka aðstoðarfólk og tæki til að framkvæma sín verkefni.

Hv. Alþingi samþykkti mjög nauðsynlegar umbætur á réttarfarslöggjöfinni á síðasta þingi. Það voru nokkrar breytingar á lögunum um meðferð einkamála sem eiga að bæta og færa til nútímans þær starfsaðferðir sem dómarar viðhafa. Þar kemur það til sögunnar, að nú eiga dómarar að fá að taka tæknina í sína þjónustu. Þeir eiga að hverfa af blýanta- og strokleðrastiginu sem þeir hafa verið á fram að þessu. En þá kemur eitt í ljós þegar búið er að samþykkja þetta: Það er eingöngu einn dómsaðili til hér, í Túngötu 14, sem nýta má hina nýju tækni sem heimiluð er. Ég nefni þetta til að undirstrika það atriði, að það er ekki nóg að búa við góða löggjöf ef okkur vantar tækin til að koma henni fram. Þannig mun nú vera ástatt hjá Borgardómi Reykjavíkur. Það væri kannske þarfara að taka umbæturnar á dómsmálasviðinu í þeirri röð að ræða fyrst um að koma í framkvæmd þeim lögum, sem þegar eru fyrir hendi, áður en bætt er við nýjum.