16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

29. mál, fjáröflun til vegagerðar

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég flyt ásamt 1. landsk. þm., hv. þm. Pétri Sigurðssyni, þetta frv., sem efnislega felur í sér að þungaskattur af strætisvögnum verði felldur niður. Rökin fyrir þessu eru þau, að flestir strætisvagnar, sem notaðir eru innan kaupstaða eða til ferða milli kaupstaða á höfuðborgarsvæðinu, fara aldrei út fyrir gatnakerfi þéttbýlisins og aka svo til eingöngu eftir götum sem viðkomandi borgar- eða bæjarsjóðir kosta að öllu leyti, bæði lagningu og viðhald. Strætisvögnum er ætlað að veita almenningi sjálfsagða þjónustu og reynt er að láta þá þjónustu í té á sanngjörnu verði. Ríkisvaldið hefur hins vegar nú um langt skeið haldið niðri verði þessarar þjónustu með verðlagsákvörðunum, en á sama tíma tekur ríkissjóður umtalsverðan skatt af þessari starfsemi, bæði af innflutningi vagna og af rekstri þeirra. Flest strætisvagnafyrirtæki eru því rekin með miklum halla.

Gert er ráð fyrir að þau fyrirtæki, sem skilgreining 1. gr. nær til, verði Strætisvagnar Reykjavíkur, sem aka nær eingöngu innan Reykjavíkur, en einnig til Seltjarnarneskaupstaðar, Strætisvagnar Kópavogs, sem aka innan Kópavogs og til Reykjavíkur, Landleiðir, sem aka innan Hafnarfjarðar og um Garðabæ, Kópavog og Reykjavík, og Strætisvagnar Akureyrar, sem eingöngu aka innan Akureyrar. Það er sem sagt gert ráð fyrir að öll þessi fyrirtæki njóti þessarar undanþágu.

Ég er satt að segja undrandi á því, að þessi undanþága skuli ekki fyrir löngu komin í framkvæmd, svo ákveðið sem hæstv. iðnrh. lofaði í júní árið 1979 að það skyldi gert, en þá sendi þessi hæstv. ráðh. frá sér fréttatilkynningu þar sem sagt er að ríkisstj. hafi að tillögu iðnrh. samþykki víðtækar aðgerðir til orkusparnaðar og hagkvæmari orkunýtingar. Síðan eru einstakar aðgerðir taldar upp í þessari tilkynningu og svo segir orðrétt:

„Frá og með 1. janúar 1980 verður þungaskattur felldur niður af bifreiðum sem stunda reglulegan áætlunarakstur í þéttbýli.“

Þetta var mjög ákveðið loforð, sem hæstv. iðnrh. gaf þegar á árinu 1979, en enn þá hefur ekkert orðið úr framkvæmdum. Verður það að teljast furðulegt, svo afdráttarlaust sem hann kvað upp úr um þetta mál á sínum tíma. Þessi þungaskattur nemur umtalsverðum fjárhæðum hjá þessum fyrirtækjum. T. d. er gert ráð fyrir að hann verði um 100 millj. gkr. hjá Strætisvögnum Reykjavíkur á þessu ári. Ég vek enn fremur athygli á að þau sveitarfélög, sem hlut eiga að máli, hafa látið þetta mál til sín taka. T. d. hefur stjórn Strætisvagna Reykjavíkur einróma skorað á stjórnvöld að fella niður þennan skatt.

Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til fjh.- og viðskn. og 2. umr. hér í deild. Magnús H. Magnússon: Herra forseti. Ég er samþykkur því frv. sem hér er til umr., þó ekki væri nema til þess, eins og hv. frsm. sagði, að standa við þau loforð sem áður hafa verið gefin í þessum efnum. Ég vil þó taka það fram, að ég vil bæta Vegagerð ríkisins upp það tekjutap sem af samþykki þess hlýst. Það er reyndar spurning hvort ríkissjóður þurfi nokkuð að tapa á þessari breytingu. Hann gæti bætt sér upp hallann með því að minnka niðurgreiðslur að sama skapi á einhverri annarri vísitöluvöru. Strætisvagnagjöldin vega þungt í framfærsluvísitölunni og við afnám þungaskatts af strætisvögnum geta fargjöldin að öðru jöfnu lækkað og þar með framfærsluvísitalan.

Ég vil svo bæta því við, að ég tel ótæki með öllu að ríkisvaldið sé að fyrirskipa sveitarfélögunum að reka þjónustustofnanir sínar, eins og t. d. strætisvagnana, með verulegum halla og nota það sem leið til gervilækningar á verðbólgu. Sveitarfélögin eiga sjálf að ráða sínum gjaldskrám án afskipta ríkisvaldsins. Sveitarstjórnarmenn eru kosnir á sama hátt og alþm. og bera sömu stjórnskipulega ábyrgð gagnvart umbjóðendum sínum, almenningi þessa lands. Ríkisvaldið á því alls ekki að vera alls staðar með puttana, takandi fram fyrir hendur sveitarstjórnarmanna. Ef hæstv. ríkisstj. vill eitthvað meira í þessum efnum en sýndarráðstafanir gegn verðbólgu, þá á hún að samþykkja þetta frv. Það drægi í reynd úr kostnaði við rekstur strætisvagnanna og þar með úr verðbólgunni. Það að leyfa kostnaðinum að rjúka upp úr öllu valdi og láta sveitarfélögin greiða sívaxandi tap, eins og nú er gert, er ekki raunveruleg lækning á verðbólgu, það er gervilækning.